Liverpool lagði Preston að velli
Liverpool komst yfir fyrstu hindrun í F.A. bikarnum og tryggði sér sæti í 4. umferð keppninnar eftir að hafa lagt Preston North End að velli 2:0 á Deepdale. Fernando Torres sneri aftur eftir meiðsli og skoraði.
Rafael Benítez færði sig á varamannabekkinn en eftirlét Lee stjórn liðsins eins og í síðustu leikjum. Liverpool tefldi fram sterku liði þrátt fyrir lítilsháttar breytingar frá stórsigrnum á Newcastle. Helsta breytingin var kannski sú að Diego Cavalieri stóð í markinu og Jose Reina hvíldist á bekknum. Fernandno Torres kom aftur til leiks eftir meiðsli og tók sæti á varamannabekknum. Hafi einhver haldið að Steven Gerrard myndi ekki spila eftir lögreglustöðvarferð sína þá hafði sá hinn sami rangt fyrir sér. Neil Mellor fékk draum sinn uppfylltan og leiddi sókn heimamanna gegn uppáhaldsliðinu sínu. Uppselt var á Deepdale og stuðningsmenn beggja liða létu vel í sér heyra.
Liverpool náði fljótlega þokkalegum tökum á leiknum þrátt fyrir hamagang heimamanna í byrjun. Eftir tíu mínútur komst Albert Riera upp vinstra megin og sendi fyrir á Robbie Keane sem fékk boltann í dauðafæri en hann hitti boltann ekki vel og hættan leið hjá fyrir heimamenn. Rétt á eftir náði Steven föstu skoti utan teigs en boltinn fór beint á Andy Lonergan markmann Preston. Tíu mínútum síðar eða svo skaut Richard Chaplow að marki Liverpool utan vítategis en Diego Cavalieri varði örugglega. Á 25. mínútu náði Liverpool sanngjarnt forystu. Liverpool fékk þá horn frá vinstri. Boltinn fór út fyrir teig þar sem þeir Albert og Steven spiluðu saman. Samleikur þeirra endaði með því að Albert fékk boltann hægra megin í teignum. Hann lék svo út í teig og skaut óvæntu skoti með vinstri sem hafnaði upp í þaknetinu. Margir áttu von á fyrirgjöf hjá Albert en hann náði föstu skoti sem gaf mark.
Fátt gerðist nú þar til undir lok hálfleiksins. Á 38. mínútu sendi Xabi Alonso glæsilega sendingu inn á teig á Robbie en Andy lokaði á hann og varði. Robbie var reyndar rangstæður þegar hann fékk boltann en hann átti að skora enda færið gott. Á lokamínútu hálfleiksins braust Steven upp vinstra megin og sendi fyrir á Robbie sem fékk boltann enn í upplögðu færi en sem fyrr voru honum mislagðar fætur og ekkert varð úr. Nokkrum andartökum seinna sendi Steven aftur fyrir frá vinstri á Robbie. Írinn fékk boltann í svipuðu færi og áður en nú lagði hann ekki í að skjóta heldur sendi á Albert. Varnarmaður komst fyrir skot hans. Boltinn hrökk út á Xabi sem reyndi að fylgja á eftir en hann rakst í varnarmann og meiddist. Liverpool hélt því eins marks forystu en hefði átt að hafa gert út um leikinn þegar leikhlé kom. Sérstaklega hefði Robbie átt að hafa gert það.
Xabi var það illa meiddur að Lucas Leiva varð að leysa hann af velli í síðari hálfleik. Liverpool fékk horn í upphafi síðari hálfleiks og Daniel Agger hefði átt að innsigla sigurinn þá en hann skallaði óvaldaður framhjá úr dauðafæri. Á 60. mínútu fékk Steven boltann eftir samleik við Ryan Babel. Fyrirliðinn náði góðu skoti utan teigs en Andy varði vel með því að slá boltann yfir. Rétt á eftir kom Albert sér í þokkalega stöðu vinstra megin í teignum en skot hans fór rétt framhjá. Neil Mellor fór af velli á 62. mínútu og fögnuðu stuðningsmenn Liverpool honum vel. Honum hafði ekki orðið mikið ágengt gegn gamla liðinu sínu. Rétt á eftir skoraði Preston. Boltinn barst yfir á vinstri kant og þaðan var hann sendur fyrir markið á Sean St. Ledger sem skallaði í mark. Áður hafði þó dómarinn flautað þar sem Joe Parkin hafði togað Jamie Carragher niður í vítateignum þar sem þeir lágu. Heimamenn fengu byr í seglin við þetta og náðu góðum leikkafla í kjölfarfið. Þeir fengu þó ekki nein verulega hættuleg færi. Stuðningsmenn Liverpool kættust vel rúmum stundarfjórðungi fyrir leikslok þegar Fernando Torres kom til leiks eftir að hafa verið frá verkum frá því í lok nóvember. Þegar dró að leikslokum hylltu stuðningsmenn beggja liða goðsögnina Bill Shankly með því að kyrja nafn hans en hann er ekki síður í miklum metum hjá Preston. Heimamenn reyndu hvað þeir gátu en allt leit út fyrir að markið sem Albert myndi duga. Það kom þó annað mark áður en yfir lauk. Í blálok leiksins hreinsaði Lucas langt frá úr sínum vítateig. Við miðju stökk Ryan upp með varnarmanni Preston. Boltinn barst yfir þá og á Steven Gerrard sem komst einn á auðan sjó upp að marki heimamanna. Fernando Torres fylgdi fyrirliðanum sem æddi inn á teig. Markmaður Preston kom á móti Steven sem þá renndi boltanum til hliðar á Fernando sem ýtti boltanum í autt markið og fagnaði vel með fyrirliða sínum. Stuðningsmenn Liverpool, sem voru fyrir aftan markið fögnuðu líka vel markinu og sigrinum.
Preston North End: Lonergan, Jones, Mawene, St. Ledger, Davidson (Nolan 56. mín.), Sedgwick, Chaplow (Nicholson 81. mín.), McKenna, Wallace, Parkin og Mellor (Elliott 62. mín.). Ónotaðir varamenn: Chris Neal, Brown, Carter og Whaley.
Gult spjald: Richard Chaplow.
Liverpool: Cavalieri, Carragher, Hyypia, Agger, Insua, Alonso (Leiva 46. mín.), Mascherano (Aurelio 83. mín.), Babel, Gerrard, Riera og Keane (Torres 73. mín.). Ónotaðir varamenn: Reina, Ngog, El Zhar og Skrtel.
Mörk Liverpool: Albert Riera (25. mín.) og Fernando Torres (90. mín.).
Áhorfendur á Deepdale: 23.046
Maður leiksins: Steven Gerrard. Það var ekki að sjá á fyrirliðanum að heimsókn hans á lögreglustöðina fyrir áramótin hefði sett hann út af laginu. Hann var potturinn og pannan í sóknarleik Liverpool og var á bak við flestar bestu sóknirnar. Hann átti þátt í báðum mörkunum og hefði vel getað skorað sjálfur. Hann sýndi mikla yfirvegun þegar stuðningsmenn heimamanna reyndu að koma honum úr jafnvægi.
Sammy Lee: Preston gerði okkur erfitt fyrir. Við vissum að það biði okkar baráttuleikur en við stóðum af okkur veðrið og komumst yfir hindrunina.
Fróðleiksmolar: - Þetta var fyrsti leikur Liverpool á því Herrans ári 2009. - Liverpool er komið í 4. umferð F.A. bikarkeppninnar. - - Albert Riera skoraði fyrsta markið fyrir Liverpool á árinu 2009. - Albert Riera skoraði sitt fjórða mark sitt á leiktíðinni. - Fernando Torres lék sinn fyrsta leik frá því í lok nóvember og skoraði sitt sjötta mark á leiktíðinni. - Þeir Daniel Agger og Fabio Aurelio léku báðir í 70. skipti með Liverpool. - Þetta var þriðja rimma Liverpol og Preston í F.A. bikarnum. - Liverpool hefur nú tvívegis haft betur gegn Preston í keppninni. - Kannski er það góðs viti að vinna Preston á Deepdale. Portsmouth gerði það á síðustu leiktíð og vann svo keppnina!
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni