Frækinn sigur
Frækinn sigur vannst í kvöld á Real Madrid. Sigurmarkið kom skemmtilega á óvart en það var Yossi Benayoun sem skoraði það með skalla seint í leiknum.
Liðsuppstilling Rafa Benítez kom ekki mörgum á óvart en Steven Gerrard var á bekknum og ljóst að stjórinn vildi ekki taka neina áhættu með fyrirliðann. Það var því Jamie Carragher sem leiddi liðið út á hinn stórkostlega völl Santiago Bernabeu.
Eins og við var að búast byrjuðu heimamenn af krafti og ljóst var að þeir vildu þjarma að leikmönnum Liverpool frá byrjun. Þeim gekk þó erfiðlega að brjóta sterkan og skipulagðan varnarmúr Liverpool á bak aftur og engin hættuleg færi sköpuðust. Það var helst að hætta skapaðist þegar Arjen Robben fékk boltann á hægri kanti en oftar en ekki tóku þeir Fabio Aurelio og Albert Riera boltann af honum. Mark var réttilega dæmt af heimamönnum þegar Gonzalo Higuain skallaði boltann í mark eftir að Sergio Ramos hafði skallað boltann fyrir markið eftir hornspyrnu.
Fyrsta færi leiksins fékk Fernando Torres þegar hár bolti skoppaði yfir varnarmenn Real og Torres átti nokkuð greiða leið að marki, hann lék inní teiginn hægra megin og náði skoti á markið en Iker Casillas varði vel. Þarna fékk Torres gott tækifæri til að skora sitt fyrsta mark á Bernabeu leikvanginum. Torres lét lítið að sér kveða eftir þetta og virtist hann kenna sér meins í ökkla um miðjan fyrri hálfleikinn.
Eftir því sem leið á hálfleikinn virtist sem allur vindur væri úr leikmönnum Real Madrid og leikmenn Liverpool gengu á lagið og héldu boltanum vel innan liðsins. Undir lok hálfleiksins vann Xabi Alonso boltann á miðjum vellinum og eins og oft áður skaut hann að marki og mátti Casillas hafa sig allan við að slá boltann yfir markið. Roberto Rosetti, góður dómari leiksins, flautaði svo til hálfleiks í þann mund er leikmenn gestanna bjuggu sig undir að taka hornspyrnu. Svolítið sérstakt að Rosetti skyldi ekki leyfa leikmönnum Liverpool að taka spyrnuna.
Leikmenn Liverpool byrjuðu seinni hálfleikinn betur og héldu áfram þar sem frá var horfið í þeim fyrri. Heimamenn sóttu þó í sig veðrið eftir sem á leið en eins og áður náðu þeir ekki að ógna marki Liverpool að neinu ráði. Sem fyrr var það Robben sem helst ógnaði vörn Liverpool. Liverpool reyndi að ógna með skyndisóknum en það virtist gera liðinu erfitt fyrir að sækja hratt fram því Fernando Torres virtist ekki ganga heill til skógar. Honum var svo skipt útaf á 62. mínútu fyrir Ryan Babel. Stuttu síðar átti títtnefndur Robben gott skot sem Reina varði vel í horn.
Allt leit út fyrir að leikurinn myndi fjara út í 0-0 jafntefli en eins og venjulega sýndu leikmenn Liverpool hvað í sér býr á lokamínútunum. Sókn Liverpool virtist ekki vera merkileg en leikmenn Real reyndu að forðast það að fá á sig hornspyrnu, boltinn barst hátt í loft upp hægra megin við vítateig og einn leikmanna Real braut klaufalega á Dirk Kuyt í baráttu um að skalla boltann. Aukaspyrna var dæmd og hana tók Fabio Aurelio. Brasilíumaðurinn sendi fastann bolta fyrir markið með vinstri fæti og þar var mættur Yossi Benayoun sem skallaði boltann laglega í markið. Sannarlega mikilvægt mark hjá Ísraelsmanninum og sennilega það mikilvægasta á ferli hans, a.m.k. hjá Liverpool. Benayoun var illa valdaður inní teig og það virtist vera sem leikmenn Real töldu hann ekki líklegan til afreka innanum varnarmenn sína.
Markið var ekki nóg til að vekja heimamenn til lífsins og það sem eftir lifði leiks reyndu þeir háar sendingar fram völlinn sem sköpuðu enga hættu og oftar en ekki endaði boltinn utan vallar eftir slíkar sendingar. Rafa Benítez skipti Steven Gerrard inná fyrir Albert Riera en Spánverjinn haltraði útaf eftir tæklingu Fernando Gago. Leikmenn Liverpool héldu fengnum hlut og frækilegur sigur vannst í fyrstu heimsókn liðsins til Santiago Bernabeu leikvangsins. Sannarlega eftirminnileg heimsókn fyrir alla sem tengjast félaginu.
Liðið er því í góðri stöðu fyrir síðari leikinn sem verður leikinn eftir tæpar tvær vikur á Anfield. Það er þó ljóst að rimman er aðeins hálfnuð og Rafa Benítez lætur sína menn ekki komast upp með neitt vanmat fyrir seinni leikinn.
Liverpool: Reina, Aurelio, Carragher, Skrtel, Arbeloa, Riera (Gerrard 88. mín.), Alonso, Mascherano, Benayoun, Torres (Babel 62. mín), Kuyt (Lucas 90. mín.). Varamenn: Hyypia, Gerrard, Ngog, Dossena, Babel, Leiva, Cavalieri.
Mark Liverpool: Yossi Benayoun (82. mín.).
Gul spjöld: Fernando Torres, Javier Mascherano og Albert Riera
Real Madrid: Casillas, Heinze, Pepe, Cannavaro, Ramos, Marcelo (Guti 46. mín.), Gago, Diarra, Robben, Raul (captain), Higuain. Varamenn: Dudek, Metzelder, Torres, van der Vaart, Sneijder, Saviola, Guti.
Gul spjöld: Fabio Cannavaro og Fernando Gago.
Áhorfendur á Santiago Bernabeu: 85.000 (og Bragi).
Dómari: Roberto Rosetti.
Maður leiksins: Yossi Benayoun. Ísraelinn var ólíkleg hetja leiksins eftir að hann skoraði flott skallamark. Hann var ógnandi allan leikinn og reyndi iðulega að leika samherja sína uppi eða sækja hratt á vörn Real Madrid. Sennilega einn besti leikur hans fyrir félagið.
Rafael Benítez: ,,Við vissum að þetta yrði mjög erfitt. Þeir hafa unnið marga leiki í röð og voru með sjálfstraustið í botni. Við þurftum að leggja hart að okkur. Við fengum nokkur færi og undir lokin skoruðum við eftir aukaspyrnu. Án Gerrard og Torres stóðum við okkur mjög vel. Það var líka mikilvægt að fá ekki á sig mark en liðsheildin vann mjög vel."
Fróðleiksmolar: Þetta var fyrsta heimsókn Liverpool á Santiago Bernabeu leikvanginn og endaði hún eins og best var á kosið. Albert Riera fékk gult spjald og missir því af síðari leik liðanna.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!