Rafa: Árangurinn í Meistaradeildinni ekki sjálfgefinn
Rafael Benítez segir í dag að hann njóti ekki þeirrar virðingar sem hann eigi skilið fyrir frábæran árangur Liverpool í Meistaradeild Evrópu.
Síðan Benítez tók við liðinu sumarið 2004 hefur liðið náð frábærum árangri í þessari sterkustu knattspyrnukeppni veraldar. Liðið vann keppnina í maí 2005, sælla minninga, lenti í öðru sæti 2007 og komst í undanúrslit í fyrra. Þessi árangur Spánverjans virðist þó ætíð falla í skuggan af misjöfnu gengi liðsins heima fyrir, en stuðningsmenn Liverpool eru sem kunnugt er orðnir langþreyttir á biðinni eftir að enski meistaratitillinn láti sjá sig á Anfield, þar sem hann átti nánast fastan íverustað á 8. og 9. áratug síðustu aldar.
Árið í ár virðist ætla að verða enn eitt vonbrigðaárið þegar kemur að ensku deildinni, því eftir góða byrjun Liverpool liðsins í vetur hefur hallað undan fæti það sem af er nýju ári og líkurnar á að liðið landi titlinum langþráða á þessu tímabili eru nú hverfandi.
,,Við verðum að horfast í augu við það að peningar eru það sem helst skilur okkur og Chelsea og Manchester United að. Það besta sem við getum gert er að standa okkur vel í Meistaradeildinni, það skilar liðinu gífurlegum tekjum og þannig getum við vonandi smátt og smátt minnkað bilið milli okkar og þeirra."
,,Gleymum því heldur ekki að það er ekki sjálfgefið að ná árangri í Meistaradeildinni, það er stundum eins og fólk átti sig ekki á því hve mikið leikmennirnir og allir í kringum liðið hafa lagt á sig til að ná árangri í þessari sterku keppni og hvað það hefur skilað félaginu frábærum minningum sem endast að eilífu - að ekki sé talað um tekjurnar sem þessi góða frammistaða hefur skilað félaginu."
Eins og aðdáendur Liverpool vita þá er liðið nú besta lið Evrópu samkvæmt styrkleikamælingu UEFA, en svo hátt hefur liðið ekki verið metið síðan 1985. Styrkleikalisti UEFA er reiknaður út frá árangri liða í Meistaradeildinni undanfarin fimm ár og Benítez fer ekki í grafgötur með stolt sitt yfir því að tróna nú á toppi listans.
,,Það er mikil viðurkenning fyrir mig og félagið að við skulum vera taldir besta liðið í Evrópu, það sýnir okkur svart á hvítu hversu vel við höfum staðið okkur í Meistaradeildinni. Nú erum við enn og aftur að keppa á lokastigum keppninar og það sýnir svo ekki verður um villst að við eigum skilið að vera taldir með þeim allra bestu í Evrópu."
,,Við erum klárlega eitt allra besta lið Evrópu þegar kemur að hugarfari og baráttuanda, það hefur fleytt okkur langt í keppninni til þessa. Við vitum að við getum unnið hvaða lið sem er á góðum degi."
Þrátt fyrir eins marks forystu Liverpool fyrir leikinn í kvöld segir sagan að Liverpool verði að vara sig á andstæðingum sínum, því liðið hefur einungis unnið tvo af tólf leikjum sínum við spænsk lið á heimavelli í Meistaradeildinni! Þrátt fyrir að hafa unnið sex af sjö viðureignum (heima og úti) gegn spænskum liðum.
Leikurinn í kvöld er sá fyrsti af þremur sem gæti haft afgerandi áhrif á gengi liðsins þetta tímabil. Á laugardag mætir liðið síðan toppliði deildarinnar, erkifjendunum í Manchester United, í leik sem liðið verður að vinna ætli það sér að halda í veika von um enska titilinn í ár. Eftir helgina mætir liðið síðan Aston Villa. Gangi liðinu sem skyldi í öllum þessum leikjum er enn von um að einhverjir titlar láti sjá sig á Anfield í vor.
,,Ef við vinnum í kvöld stígum við mikilvægt skref í átt að enn einum Evrópubikarnum og ef við sigrum Man. U. á laugardaginn þá eigum við ennþá sjéns í deildinni. Ég hef sagt að við eigum ennþá smá möguleika, en ef við töpum þá má segja að við séum nánast örugglega úr leik."
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!