| Sf. Gutt

Liverpool tók Manchester United í gegn!

Liverpool tók Manchester United í gegn á Old Trafford í dag og vann stórsigur 4:1 sem gefur Rauða hernum enn von um að vinna Englandsmeistaratitilinn. Heimamenn komust yfir en leikmenn Liverpool neituðu að gefast upp og sneru leiknum sér í hag á eftirminnilegan hátt.

Þjálfarar Liverpool urðu að breyta liðsuppstillingu sinni á síðustu stundu þegar Alvaro Arbeloa meiddist í upphitun. Hann gat því ekki leikið og Sami Hyypia kom inn í stöðu miðvarðar. Jamie Carragher tók stöðu Alvaro sem hægri bakvörður. Finninn magnaði brást ekki frekar en fyrri daginn og átti stórleik. Manchester United byrjaði betur og leikmenn Liverpool virtust vera óöruggir til að byrja með. Fernando Torres sýndi þó snemma í leiknum að hann ætlaði að láta að sér kveða. Hann átti góða rispu inn á teig framhjá Nemanja Vidic en hann náði ekki að komast í færi. Smá saman náðu leikmenn Liverpool áttum og fóru að spila betur. Það var því næstum gegn gangi leiksins að heimamenn skyldu komast yfir á 23. mínútu.  Carlos Tevez  sendi þá inn á vítateig Liverpool þar sem Ji Sung Park elti boltann. Jose Reina kom út á móti honum og renndi sér fyrir fætur hans. Jose vritist reyndar sjá að hættan var að líða hjá en hann rakst í Ji Sung sem féll og dómarinn dæmdi vítaspyrnu. Cristiano Ronaldo tók vítaspyrnuna og skoraði með föstu skoti neðst í vinstra hornið. Jose henti sér í rétt horn en náði ekki til boltans.

Nú var ljóst það yrði á brattann að sækja fyrir Liverpool en það var ekki neinn bilbugur á gestunum. Fimm mínútum seinna sendi Martin Skrtel langa sendingu út úr sínum vítateig fram á völlinn. Þar virtist Nemanja ætla að ná boltanum og Fernando Torres hafði aðrar hugmyndir. Hann náði boltanum af Nemanja og stakk hann af. Fernando lék svo inn í vítateiginn hægra megin og renndi boltanum af mikilli yfirvegun framhjá Edwin Van Der Sar og út í hornið fjær. Frábærlega gert hjá Fernando og staðan orðin jöfn. Rétt á eftir lék Fernando enn á Nemanja og komst inn á teig en þar var bjargað. Cristiano átt litlu síðar fasta aukaspyrnu sem fór beint á Jose. Hann missti boltann aðeins frá sér en náði honum aftur áður en ágengur heimamaður komst að.

Á 44. mínútu náði Liverpool góðri sókn. Fernando Torres fékk þá boltann á miðjum vallarhelmingi heimamanna. Hann stakk boltanum svo vel inn fyrir vörn United út til hægri. Þar tók Steven Gerrard á rás og komst inn á vítateiginn þar sem Patrice Evra sparkaði hann niður. Steven tók vítaspyrnuna og skoraði með skoti neðst í hægra hornið. Edwin fór í rétt horn en gat ekkert að gert. Steven og félagar hans fögnuðu innilega fyrir framan stuðningsmenn Liverpool sem voru hinir kátustu þegar flautað var til leikhlés. Kannski mundu einhverjir þeirra eftir því að Liverpool skoraði úr víti þarna megin á vellinum þegar liðið vann síðast sigur á Old Trafford.

Leikmenn Manchester United hófu síðari hálfleikinn af miklum krafti og sótt af miklum krafti. Vörn Liverpool var þétt fyrir og ekki sköpuðust opin færi. Carlos Tevez fékk þó boltann í góðu færi við vítateiginn en skot hans fór framhjá. Á 62. mínútu slapp Liverpool þó með skrekkinn. Cristiano sendi fyrir markið frá vinstri. Boltinn virtist ætla út af en Wayne Rooney náði að senda hann aftur fyrir við fjærstöngina. Carlos var fyrir opnu marki í baráttu við Martin en báðir féllu og hættunni var afstýrt. Á 74. mínútu skipti Alex Ferguson þremur varamönnum inn á til að færa aukinn kraft í leik síns liðs. Ekki gekk það eftir því þremur mínútum síðar gerði Liverpool svo gott sem út um leikinn. Dirk stakk þá boltanum laglega fram á Steven sem virtist ætla að komast framhjá Nemanja Vidic en Serbinn reif hann niður rétt utan vítateigs hægra megin. Dómarinn rak Nemanja af velli og var þetta í annað sinn á leiktíðinni sem hann er rekinn af leikvelli gegn Liverpool. Þegar brottrekstrinum var lokið tók Fabio Aurelio aukaspyrnuna. Brasilíumaðurinn smellhitti boltann sem sveif yfir varnarvegg Manchester United og datt niður í hægra hornið út við stöng. Frábært mark hjá Fabio sem lék mjög vel í dag eins og síðustu vikurnar.     

Þegar um fimm mínútur voru eftir hefði Steven átt að skora. Sending kom inn á vítateiginn. Ryan Babel, sem kom inn á sem varamaður, var aðþrengdur en náði að senda boltann með hælnum á Steven en hann skaut hátt yfir úr dauðafæri í miðjum teig. Á lokamínútunni var stórsigur Liverpool innsiglaður. Jose Reina tók langa spyrnu frá eigin marki. Boltinn kom niður rétt við vítateig Manchester United og þar var varamaðurinn Andrea Dossena fyrstur að boltanum og lyfti honum glæsilega yfir Edwin og í markið. Enn mátti Hollendingurinn horfa á eftir boltaum í markið og Ítalinn skoraði þarna í öðrum leiknum í röð og hver hefði trúað því að hann ætti eftir að skora bæði gegn Real Madrid og Manchester United í sömy vikunni? Stuðningsmenn Liverpool sem höfðu verið í hátíðarskapi frá því Fabio skoraði gengu endanlega af göflunum af fögnuði en margir stuðningsmenn Manchester United misstu af markinu enda farnir! Fögnuður leikmanna og stuðningsmanna Liverpool var mikill þegar dómarinn flautaði til leiksloka og þjóðsöngurinn var sunginn hátt! Stærsti sigur Liverpool á Old Trafford í áraraðir var staðreynd og þessi magnaði sigur heldur von Liverpool um Englandsmeistaratitilinn á lífi. Manchester United er vissulega enn í kjörstöðu í efsta sæti og liðinu þarf að verða töluvert á til að Englandsbikarinn rati heim til Liverpool. Þessi stórsigur á Old Trafford verður þó lengi í minnum hafður!

Manchester United: Van Der Sar, O´Shea, Ferdinand, Vidic, Evra, Ronaldo, Carrick (Giggs 74. mín.), Anderson (Scholes 74. mín.), Park (Berbatov 74. mín.), Rooney og Tevez. Ónotaðir varamenn: Foster, Nani, Evans og Fletcher.

Mark Manchester United: Cristiano Ronaldo, víti, (23. mín.).

Rautt spjald: Nemanja Vidic.

Gul spjöld: Rio Ferdinand og Edwin Van der Sar.

Liverpool: Reina, Carragher, Skrtel, Hyypia, Aurelio, Mascherano, Leiva, Kuyt, Gerrard (El Zhar 90. mín.), Riera (Dossena 67. mín.) og Torres (Babel 81. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Insua, Ngog og Arbeloa.

Mörk Liverpool: Fernando Torres (28. mín.), Steven Gerrard, víti, (44. mín.), Fabio Aurelio (77. mín.) og Andrea Dossena (90. mín.).

Gul spjöld: Jamie Carragher, Javier Mascherano og Martin Skrtel.

Áhorfendur á Old Trafford: 75.569.

Maður leiksins: Fernando Torres. Spánverjinn átti enn einn stórleikinn og varnarmenn Manchester United áttu í miklum vandræðum með hann. Hann skoraði fyrsta markið á magnaðan hátt og átti svo frábæra sendingu á Steven Gerrard þegar fyrirliðinn fékk vítaspyrnuna. Framganga hans var enn magnaði fyrir þá sök að hann lék

Rafael Benítez: Ég er ánægður fyrir hönd liðsins míns, félagsins og stuðningsmannanna. Það er alltaf mjög erfitt að spila á móti United hvort sem það er á heimavelli eða útivelli. Það er því mjög ánægjulegt að skora fjögur mörk á móti þeim. Við reyndum að stoppa spilið hjá þeim með því að loka svæðum og koma í veg fyrir að þeir næðu að skapa sér marktækifæri. Við höfum nú, í síðustu tveimur leikjum, unnið Real Madrid og Manchester United sem eru með bæði með bestu liðum í Evrópu. Í báðum þessum leikjum skoruðum við fjögur mörk. Það er frábær árangur og við erum mjög ánægðir með þennan árangur hjá okkur. Við ætlum okkar ætíð að sigra í hverjum leik og í þessari viku hefur komið í ljós að við getum lagt hvaða lið sem er að velli.

Fróðleiksmolar: - Liverpool er í öðru sæti í deildinni á eftir Manchester United. - Fernando Torres skoraði ellefta mark sitt á leiktíðinni. - Steven Gerrard skoraði átjánda mark sitt annað mark á spaktíðinni. - Fabio Aurelio skoraði annað mark sitt á leiktíðinni. - Andrea Dossena skoraði annað mark sitt á leiktíðinni. Hann skoraði líka í síðasta leik gegn Real Madrid. - Þetta var 100. deildarsigur Liverpool undir stjórn Rafael Benítez. - Þetta var stærsti sigur Liverpool á Old Trafford frá því á leiktíðinni 1936/37 en þá vann Rauði herinn 5:2. - Þetta var fyrsti sigur Liverpool á Old Trafford frá því á leiktíðinni 2003/04 en þá skoraði Danny Murphy eina mark leiksins úr vítaspyrnu. - Liverpool vann báða deildarleikina gegn Manchester United á þessari leiktíð.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC.

Já, takk!!!

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan