Yossi skaut Liverpool á toppinn!
Liverpool komst í efsta sæti Úrvalsdeildarinnar síðdegis í dag þegar liðið lagði Fulham að velli 1:0 í London. Yossi Benayoun skoraði sigurmarkið á lokamínútunni.
Fyrstu mínútur leiksins voru jafnar en Liverpool tók svo öll völd á vellinum. Á 10. mínútu Fékk Fernando Torres boltann fyrir utan vítateiginn og sendi hann út til vinstri á Andrea Dossena sem lék úti á vinstri kanti. Ítalinn náði góðu skoti en Mark Schwarzer varði vel með því að slá boltann yfir. Hornspyrnan var tekin frá hægri. Boltinn fór yfir í teignn vinstra megin á Martin Skrtel sem skaut að marki. Boltinn stefndi á markið þegar Andrea skallaði hann aftur fyrir sig en því miður fór boltinn í þverslána og yfir. Þetta var ekki í síðasta skiptið sem boltinn átti eftir að kynnast tréverkinu í þessum hálfleik!
Á 23. mínútu lagði Steven Gerrard boltann inn á Fernando sem komst í gott færi í teignum. Mark varði en hélt ekki boltanum en varnarmanni tókst að bjarga á síðustu stundu. Rétt á eftir sendi Dirk Kuyt góða sendingu fyrir markið en Fernando skallaði yfir úr góðu færi. Yfirburðir Liverpool voru nú algerir. Á 32. mínútu fékk Liverpool hornspyrnu. Eftir hana barst boltinn út úr teignum. Þar náði Xabi Alonso boltanum en fast skot hans small í þverlánni og fór yfir. Litlu síðar fékk Fernando boltann úti vinstra megin í teignum en Mark varði skot hans.
Enn ógnaði Fernando á 35. mínútu. Liverpool náði þá snöggri sókn fram völlinn. Steven og Fernando skiptust á sendingum og Fernando slapp inn á vítateginn. Þar renndi hann boltanum framhjá Mark en nú bjargaði stöngin heimamönnum! Tveimur mínútum síðar sendi Xabi langa og hárnákvæma sendingu frá vinstri út á hægri kant. Steven fékk boltann og sendi góða sendingu fyrir markið. Við miðjan markteig henti Andrea sér fram en hörkuskalli hans small í þverslánni! Þetta var orðið algerlega með ólíkindum því þarna hafnaði boltinn í tréverkinu hjá Fulham í fjórða sinn í hálfleiknum! Heimamenn gátu svo sannarlega hrósað happi þegar flautað var til leikhlés.
Síðari hálfleikur var ekki eins hraður og sá fyrri. Á 53. mínútu kom fyrsta færið í hálfleiknum. Emiliano Insua tók þá góða ripsu upp vinstri kantinnog sendi fyrir á Fernando en skalli hans fór beint á Mark í markinu. Fernando hefði átt að gera betur þar. Á 66. mínútu náðu heimamenn sínu fyrsta skoti á markið. Paul Konchesky tók þá aukaspyrnu við vinstra vítateigshornið en skot hans fór beint á Jose Reina sem átti náðugan dag í markinu. Fjórum mínútum seinna náði Liverpool hröðu upphlaupi. Varamaðurinn Ryna Babel komst inn á teiginn hægra megin en skoti hans var bjargað rétt við markið. Rétt á eftir sendi Steven hættulega sendingu fyrir en tveir leikmenn Liverpool náðu ekki til boltans á markteignum fyrir opnu marki.
Eftir því sem leið að leikslokum herti Liverpool tökin á nýjan leik. Á 81. mínútu fékk Liverpool horn og því fylgdi hörð atlaga. Henni lauk með því að Steven sendi fyrir markið. Á markteignum náði Yossi Benayoun, sem færði kraft í sóknarleikinn þegar hann kom inn sem varamaður, að snerta boltann með hælnum en boltinn strauk stöngina og fór framhjá. Á lokamínútunni fékk Yossi boltann inn í teignum vinstra megin. Hann náði að snúa tvo varnarmenn af sér en skot hans fór í hliðarnetið. Það átti bara ekki að takast að skora! Viðbótartíminn var þó eftir og það var komið fram í hann þegar sigurmarkið kom. Ryan tók þá rispu meðfram vítategnum. Fyrir miðjum teig sendi hann á Steven sem var rétt utan teigsins. Áður en hann náði valdi á boltnaum potaði varnarmaður boltanum frá honum. Boltinn hrökk út til hægri á Yossi Benayoun. Ísraelsmaðurinn lagði boltann fyrir sig og hamraði hann svo í fjærhornið út við stöng! Frábært skot hjá Yossi sem sýndi enn einu sinni að hann getur eitt og annað fyrir sér. Loksins kom markið sem stuðningsmenn Liverpool höfðu beðið eftir og fögnuðurinn sem fylgdi því var brjálæðislegur! Markið tryggði sanngjarnan sigur Liverpool og kom liðinu á toppinn. Liverpool átti sigurinn sannarlega skilinn og hann heldur lífi í voninni um Englandsmeistaratitilinn!
Fulham: Schwarzer, Pantsil, Hughes, Hangeland, Konchesky, Dempsey, Murphy (Dacourt 76. mín), Etuhu, Davies (Gera 79. mín.), Zamora og Johnson (Nevland 87. mín.). Ónotaðir varamenn: Zuberbuhler, Kamara, Kallio og Baird.
Gul spjöld: John Pantsil og Zoltan Gera.
Liverpool: Reina, Arbeloa, Carragher, Skrtel, Insua, Alonso, Leiva, Kuyt (Benayoun 76. mín.), Gerrard (Agger 90. mín.), Dossena (Babel 65. mín.) og Torres. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Riera, Mascherano og Ngog.
Mark Liverpool: Yossi Benayoun (90. mín.).
Gul spjöld: Ryan Babel og Martin Skrtel.
Áhorfendur á Craven Cottage: 25.661.
Maður leiksins: Yossi Benayoun. Ísraelsmaðurinn kom inn á sem varmaður þegar stundarfjórðungar var eftir. Hann setti svo sannarlega mark sitt á leikinn með miklum krafti og áræðni. Hann var tvívegis nærri búinn að skora áður en hann skoraði sigurmark Liverpool á síðustu stundu. Frábær innkoma hjá Yossi sem skoraði þarna eitt af allra mikilvægustu mörkum þessarar leiktíðar.
Rafael Benítez: Við vorum óánægðir með að hafa ekki skorað því við vorum búnir að fá fullt af færum en það var sannarlega ánægjulegt að skora í lokin. Ef liðið er að spila vel verður að halda áfram baráttunni. Við höfðum allan tímann trú á að við gætum skorað meðan eitthvað var eftir af leiknum. Liðið er að spila af miklu sjálfstrausti og það gengur allt betur þegar sjálfstraustið er til staðar. Við erum enn með í baráttunni um meistaratitilinn.
Fróðleiksmolar: - Liverpool er í efsta sæti í deildinni. - Yossi Benayoun skoraði fimmta mark sitt á leiktíðinni. - Markið sem Yossi skoraði var það 20. sem Liverpool skorar á síðustu 15 mínútum leiks á leiktíðinni. - Yossi lék sinn 80. leik með Liverpool. - Alvaro Arbeloa lék sinn 90. leik með Liverpool. - Fulham hefur aðeins skorað eitt mark í síðustu sex leikjum sínum við Liverpool. - Liverpool hefur nú unnið fimm leiki í röð. - Í þeim leikjum hefur liðið skorað 16 mörk.
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!