| Birgir Jónsson

Alonso: Verðum að sigra alla leikina

Xabi Alonso telur að Liverpool gæti upplifað ánægjulega stund ef þeir ná að sigra sex síðustu deildarleiki sína.
Lið Rafa Benítez eiga aðeins sex leiki eftir á leiktíðinni, og byrja þá törn með leiknum gegn Arsenal á Anfield í kvöld. Alonso telur að liðið þurfi að vinna hvern einasta þeirra til að eiga möguleika á að vinna titilinn. Liverpool fara inn í leikinn í kvöld einu stigi á eftir ríkjandi meisturum Man United, sem eiga einnig leik til góða, en sigur í kvöld mun færa Liverpool toppsætið að nýju í að minnsta kosti einn sólarhring. Alonso vonar að Liverpool geti sett aukna pressu á óvini sína í Manchester með því að ná í þrjú stig í kvöld og í öllum leikjunum sem eftir eru.

Hann sagði: "Við eigum sex leiki eftir og getum ekki leyft okkur að tapa stigum ef við ætlum að eiga möguleika vegna þess að United eru fyrir ofan okkur og við viljum loka því bili. Við vitum að það mun ekki verða auðvelt að vinna deildina en við munum halda áfram að reyna og ef við vinnum alla leikina sem við eigum eftir munum við sjá hverju það skilar okkur. United eru í lykilstöðu en það er í okkar valdi að vinna okkar vinnu og vonandi munum við halda keppninni á lífi til loka tímabilsins."

Þrátt fyrir að Liverpool fari inn í leikinn gegn Arsenal með það á bakinu að hafa dottið út gegn Chelsea í Meistaradeildinni, telur Alonso að það sé fullt af jákvæðum hlutum sem hægt sé að taka með sér inn í leikinn þrátt fyrir að Evrópuvonirnar hafi gufað upp.



"Við erum að sjálfsögðu óánægðir eftir síðasta leik okkar vegna þessa að við náðum ekki úrslitunum sem við vonuðumst eftir. Við berum þó höfuðið hátt vegna þess að við gáfum allt í leikinn þrátt fyrir að vera í erfiðri stöðu eftir fyrri leikinn. Allir leikmennirnir héldu áfram að berjast allt til loka sem er góðs viti og nú verðum við að gera það sama í Úrvalsdeildinni.
Liðið hefur sýnt karakter og þroska í síðustu leikjum og ef við höldum áfram að hafa trú á okkur þá veit enginn hvað getur skeð. Við verðum að einbeita okkur að verkinu sem við eigum fyrir höndum og það er engin ástæða til að horfa til baka."

Benítez er á sömu skoðun og miðjumaður sinn, og sagði leikmönnum sínum að þeir verði að reyna að ná þeim 18 stigum sem eru í boði til að eiga möguleika á að komast upp fyrir United í töflunni.

Benítez sagði: "Mikilvægasti hluturinn fyrir okkur er að vinna okkar verk, að undirbúa okkur vel fyrir hvern leik og ná í þrjú stig í hverjum þeirra. Ef við gerum það og vinnum ekki deildina er ekkert annað sem við getum gert.
Þetta veltur allt á United, en við verðum að halda pressunni á þeim. Ef við vinnum í kvöld förum við aftur á toppinn og setjum pressu á þá fyrir annað kvöld. Leikmennirnir hafa æft mjög vel og æfingin í gær var frábær. Andrúmsloftið er mjög gott og mér finnst við tilbúnir í slaginn. Við höfum haft viku til að undirbúa okkur fyrir leikinn gegn Arsenal sem er mjög gott þar sem við höfum getað skoðað öll smáatriði, sem mér finnst alltaf gott að gera."
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan