| Sf. Gutt

Sami Hyypia semur við Bayer Leverkusen

Sami Hyypia hefur ákveðið að yfirgefa Liverpool í sumar. Hann er búinn að gera tveggja ára samning við þýska liðið Bayer Leverkusen. Þetta var tilkynnt á Liverpoolfc.tv í dag. Þar sagði meðal annars. "Hyypia hefur áunnið sér sess á Anfield sem goðsögn. Þann sess vann hann sér með því hlutverki sem hann lék í mörgum sigrum félagsins síðasta áratuginn. Allir stuðningsmenn Liverpool munu senda honum bestu óskir þegar hann yfirgefur Mersyside."

Sami Hyypia kom til Liverpool sumarið 1999 frá hollenska liðinu Willhem öðrum og var kaupverðið aðeins tvær og hálf milljón sterlingspunda. Á nútíma markaði telst það gjafverð fyrir jafn góðan leikmann. Alla tíð síðan hefur hann verið lykilmaður hjá Liverpool og áunnið sér miklar vinsældir hjá stuðningsmönnum félagins. Sami Hyypia hefur leikið 463 leiki með Liverpool og skorað 35 mörk.

Sami Hyypia hefur leikið með Liverpool í tíu leiktíðir. Hann hefur unnið níu titla á ferli sínum með Liverpool. Deildarbikarinn 2001 og 2003. Hann vann Evrópukeppni félagsliða, F.A. bikarinn, Góðgerðarskjöldinn og Stórbikar Evrópu 2001. Árið 2005 bætti hann svo Evrópubikarnum og öðrum Stórbikar í verðlaunasafn sitt. Hann vann svo F.A. bikarinn árið 2006.

Sami gerði eins árs samning við Liverpool fyrir einu ári. Síðustu vikur hefur nokkuð verið fjallað um að Sami yrði kannski áfram hjá Liverpool og fengi hugsanlega starf við þjálfun. Vitað var af áhuga nokkurra enskra félaga á Sami en hann hefur nú ákveðið að halda til Þýskalands. Bayer Leverkusen er í baráttu en þýska meistaratitilinn og leikur til úrslita um bikarinn við Werder Bremen. Sami er því að ganga til liðs við sterkt lið og hann hefur örugglega ekki sagt sitt síðasta orð á knattspyrnuvellinum.







TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan