| Grétar Magnússon

Benayoun samþykkir nýjan samning

Yossi Benayoun hefur bæst í þann hóp leikmanna sem hafa endurnýjað samning sinn við félagið á undanförnum mánuðum.  Hefur þessi ísraelski landsliðsmaður samþykkt nýjan samning sem lengir veru hans hjá félaginu til ársins 2012.

Núverandi samningur hans við félagið rennur út eftir tvö ár en nú hefur semsagt náðst samkomulag um eins árs framlengingu.  Benayoun bætist þá í hóp þeirra Steven Gerrard, Fernando Torres, Daniel Agger og Dirk Kuyt sem hafa allir skrifað undir nýja samninga við félagið.

Tveir efnilegir leikmenn, Stephen Darby og Jay Spearing hafa líka samþykkt nýja þriggja ára samninga við félagið.  Rafa Benítez hefur því haft nóg að gera í því að tryggja sér þjónustu helstu lykilmanna sem og efnilegra leikmanna undanfarna mánuði.

Hann hafði þetta að segja:  ,,Við þurftum að tryggja framtíð félagsins fyrst og ef við getum bætt okkur þá munum við reyna að gera það.  Þetta þýddi það að mikilvægast var að tryggja framtíð leikmanna sem eru nú þegar að spila fyrir félagið og við erum ánægðir með hversu vel hefur til tekist."

Framtíð þeirra Xabi Alonso og Javier Mascherano er enn ekki ljós þó svo að engin formleg tilboð hafi borist í þá félaga.  Real Madrid og Barcelona hafa hinsvegar opinberlega sýnt þeim áhuga og því er það aðeins tímaspursmál hvenær tilboð berst.

Einu kaup sumarsins til þessa voru kaupin á Glen Johnson og mun hann hitta nýja liðsfélaga sína á miðvikudaginn eins og Steven Gerrard en þeir fengu aðeins lengra frí vegna leikja enska landsliðsins í byrjun júní.  Spænsku leikmennirnir sem voru með Spánverjum í Álfukeppninni koma svo aftur til starfa í kringum 19. júlí.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan