| Sf. Gutt

Góður sigur í Osló

Liverpool vann góðan 2:0 sigur á Lyn í Osló í kvöld. Þetta var næst síðasti æfingaleikur liðsins í sumar áður en nýtt keppnistímabil hefst.

Liverpool var vel tekið eins og venjulega í Noregi og flestir áhorfendur á hinum fræga Bislett leikvangi fylgdu Liverpool að málum! Lyn hefur átt erfitt uppdráttar í norsku deildinni á þessari leiktíð og hafa miklir fjárhagsörðugleikar sniðið félaginu þröngan stakk. Á dögunum seldi félagið til dæmis Íslendinginn Indriða Sigurðsson til að afla fjár.

Lyn höf leikinn vel og Diego Cavalieri mátti tvívegis taka á honum stóra sínum á fyrstu tuttugu mínútunum. Um miðjan hálfleikinn átti Lucas Leiva hörkuskot sem Tyrell Lacey varði vel. Liverpool fór nú að ná betri tökum á leiknum og Tyrell þurfti að vera vel á verði nokkrum sinnum og þá sérstaklega þegar hann lokaði á Ryan Babel sem var kominn í gott færi. Heimamenn fengu þó upplagt færi á 36. mínútu þegar Jo Inge Berget átti skot í stöng. 

Liverpool herti tökin unfir lok hálfleiksins og það var vel varið frá Andriy Voronin. Dirk Kuyt skallaði svo framhjá eftir horn. En markið kom hjá Liverpool á lokamínútunni. Ryan tók þá góða rispu upp hægra megin og sendi fyrir markið á Andriy sem henti sér fram og skallaði í mark af stuttu færi.    

Síðari hálfleikur var tíðindalítill lengi vel þar til Liverpool skoraði á 58. mínútu. Andrea Dossena fékk þá sendingu út til vinstri. Hann lék inn á teiginn og sendi fyrir markið á David Ngog sem skoraði auðveldlega af stuttu færi. Ekki var mikið um færi það sem eftir lifði leiks. Martin Kelly, sem átti mjög góðan leik, komst næst því að skora en skot hans fór rétt framhjá. Sigur Liverpool var öruggur í kvöldsólinni í Olsó og gott var að komast aftur á sigurbraut eftir slæmt tap gegn Espanyol. Það eina sem skyggði á sigur Liverpool var að Albert Riera meiddist undir lok leiksins og var borinn til búningsherbergja.
 
Þess má geta að Íslendingurinn Arnar Darri Pétursson stóð í marki Lyn síðustu tuttugu mínútur leiksins. Honum gekk vel og hélt marki sínu hreinu. Eina skotið sem hann fékk á sig kom frá Yossi Benayoun og það var beint á hann.
 
Liverpool: Cavalieri (Gulacsi 79. mín.), Johnson (Degen 46. mín.), San Jose (Ayala 61. mín.), Kelly, Dossena (Insua 61. mín.), Kuyt (Benayoun 46. mín.), Spearing (Plessis 46. mín.), Lucas (Mascherano 46. mín.), Babel (Riera 46. mín.), Carragher 85. mín.), Voronin (Torres 61. mín.) og Ngog (Gerrard 61. mín.).

Maður leiksins samkvæmt Liverpoolfc.tv: Martin Kelly.

Áhorfendur á Bislett leikvanginum: 14.800.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu Verdens gang.

Hér má lesa um leik Liverpool og Espanyol.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan