Tvö töp í fyrstu þremur leikjum
Liverpool lá í valnum eftir að hafa tapað 1:3 fyrir Aston Villa á Anfield Road. Liverpool hefur nú tapað jafn mörgum deildarleikjum og á allri síðustu leiktíð. Útlitið er því ekki glæsilegt eftir slæma byrjun.
Liverpool hóf þó leikinn af krafti og eftir aðeins hálfa mínútu munaði litlu að liðið kæmist yfir. Fernando sendi þá fram á vítateiginn á Yossi Benayoun. Ísraelsmaðurinn skallaði aftur fyrir sig en boltinn fór rétt framhjá opnu markinu. Á 9. mínútu gerði Liverpool harða hríð að marki Aston Villa. Fernando og Yossi reyndu fyrst og loks Steven Gerrard, rétt við markið, en Brad Friedel varði í horn á ótrúlegan hátt. Fyrrum markmaður Liverpool átti eftir að verða gamla liðinu sínu erfiður ljár í þúfu.
Liverpool hafði góð tök á öllu en fátt gerðist þar til á 34. mínútu. Lucas Leiva braut þá klaufalega af sér og Villa fékk aukaspyrnu úti vinstra megin. Ashley Young tók aukaspyrnuna og sendi inn á vítateiginn. Ekki virtist vera mikil hætta á ferðum en Lucas ákvað að bægja hættu frá með því að skalla boltann en það tókst ekki betur til en svo að hann sneiddi boltann í eigið mark án þess að Jose Reina ætti neina möguleika að að verja. Fjórum mínútum seinna munaði litlu að Liverpool næði að jafna. Fernando náði þá föstu skoti, eftir góða rispu Glen Johnson, en Brad varði vel. Staða Liverpool versnaði enn þegar komið var fram í viðbótartíma. Villa fékk þá horn á silfufati að leikmönnum Liverpool fannst. Þeir mótmæltu harðlega og Jose var bókaður. Líklega misstu menn einbeitinguna því Curtis Davies náði að skalla óvaldaður í mark eftir hornið. Hroðalegur endir á hálfleiknum.
Liverpool byrjaði síðari hálfleikinn af miklum krafti og sótti án afláts. Strax í upphafi komst Steven inn á vítateig en Brad, sem lék frábærlega, varði vel. Á 58. mínútu var Brad enn vel á verði þegar hann sló skalla frá Dirk Kuyt yfir. Dirk náði aftur skalla eftir hornið en boltinn hafnaði í stönginni. Tíu mínútum seinna átti Steven fast langskot en Brad varði enn og aftur. Ekkert gekk!
Á 72. mínútu bar sókn Liverpool loks árangur. Varamaðurinn Andriy Voronin gaf góða sendingu á Emiliano Insúa. Hann kom boltanum fyrir markið af harðfylgi og Fernando skilaði sendingunni í markið af stuttu færi. Nú vonuðust stuðningsmenn Liverpool eftir kraftmikilli endurkomu sinna manna en sú von slokknaði þremur mínútum seinna. Nigel Reo-Coker komst þá inn á vítateig þar sem Steven sparkaði hann niður. Var það algjör óþarfi hjá fyrirliðanum sem ekki var sjálfum sér líkur í leiknum. Ashley Young tók vítið, sem réttilega var dæmt, og skoraði af öryggi. Staðan var aftur orðin slæm og allur vindur var úr leikmönnum Liverpool. Þeir máttu þola tap og hroðaleg byrjun liðsins á keppnistímabilinu versnar enn!
Liverpool: J M Reina — G Johnson, J Carragher, M Skrtel, E Insúa — J Mascherano, L Leiva (A Voronin, 66. mín) — D Kuyt, S Gerrard, Y Benayoun (R Babel 75. mín.) — F Torres. Ónotaðir varamenn: D Cavalieri, M Kelly, D Ayala, A Dossena og A Riera.
Mark Liverpool: Fernando Torres (72. mín.).
Gul spjöld: Jose Reina, Martin Skrtel og Fernando Torres.
Aston Villa: B Friedel — H Beye, C Cuéllar, C Davies, N Shorey — S Petrov — J Milner, S Sidwell, N Reo-Coker, A Young (E Heskey 80. mín.) — G Agbonlahor. Ónotaðir varamenn: B Guzan, S Lowry, C Gardner, M Albrighton, F Delph og N Delfounesco.
Mörk Aston Villa: Lucas Leiva, sm. (34. mín.), Curtis Davies (45. mín.) og Ashley Young, víti, (75. mín.).
Gul spjöld: Ashley Young og Nigel Reo-Coker.
Áhorfendur á Anfield Road: 43.667.
Maður leiksins: Jamie Carragher. Ekki spilaði nú Jamie neitt sérstaklega vel en hann sýndi í leiknum að honum var ekki sama hvernig allt var að ganga. Fleiri leikmenn Liverpool hefðu mátt gera það og berjast betur.
Rafael Benítez: Við spiluðum ekki vel og vorum að leika á móti liði sem beitir skyndisóknum vel. Við verðum að sitjast niður núna og fara yfir hvernig hver einasti leikmaður stóð sig. Við verðum að fara rétt að í næsta leik. Reyndustu leikmenn okkar verða að taka meiri ábyrgð.
Fróðleikur: Liverpool hefur nú tapað jafn mörgum deildarleikjum og það gerði á allri síðustu leiktíð. - Fernando Torres skoraði sitt annað mark á keppnistímabilinu. - Dirk Kuyt lék sinn 150. leik með Liverpool. Hann hefur skorað 41 mark í þeim leikjum. - Liverpool hafði fyrir þennan leik spilað 31 deildarleik á Anfield Road án þess að tapa. - Síðasti tapleikur liðsins í deildinni á heimavelli var í desember 2007. - Þetta var fyrsti sigur Aston Villa á Liverpool frá því á keppnistímabilinu 2001/2002. Villa vann þá 1:3 á Anfield.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!