| Sf. Gutt

Fjórða tapið í röð!

Liverpool tapaði fjórða leik sínum í röð þegar liðið lá á heimavelli 2:1 fyrir Lyon.

Liðið er nú í miklum vanda í riðli sínum í Meistaradeildinni. Eftir fjögur töp í röð er félaginu, Liverpool Football Club, reyndar mikill vandi á höndum!

Liðsuppstilling Liverpool kom nokkuð á óvart því ungliðarnir Martin Kelly og David Ngog komu inn í liðið. Ástæðan fyrir vali Martin fólst í meiðslum Glen Johnson. David fékk svo það hlutverk að leiða sóknina. Steven Gerrard kom þó inn í liði og hann ógnaði fyrst snemma leiks en skot hans fór í varnarmann og af honum í hliðarnetið. Franska liðið svaraði þessu fljótlega með skalla frá Lisandro Lopez. Hann fékk boltann í dauðafæri en skallaði beint á Jose Reina sem varði. Liverpool skoraði svo þegar Dirk Kuyt skallaði í mark en markið var dæmt af vegna þess að Hollendingurinn var talinn hafa stjakað við varnarmanni. Stuðningsmönnum Liverpool fannst sá dómur harður. Liverpool varð svo fyrir miklu áfalli um miðjan hálfleikinn þegar Steven Gerrard varð að fara af velli vegna meiðsla!

Leikur Liverpool versnaði ekki þótt Steven færi af velli enda var að sjá að hann væri vart leikfær. Liverpool komst svo yfir á 41. mínútu. Varamaðurinn Fabio Aurelio skaut þá að marki. Skotið var misheppnað en boltinn barst til Yossi Benayoun sem skoraði af yfirvegun við markteiginn. Nú leit allt vel út og aðeins frábær markvarsla kom í veg fyrir að Liverpool gerði út um leikinn á lokamínútu hálfleiksins. Martin Kelly, sem átti mjög góðan leik, sendi þá frábæra fyrirgjöf á höfuðið á Fabio sem skallaði fast að marki en Hugo Lloris varði ótrúlega með því að slá boltann yfir.

Upphaf síðari hálfleiks lofaði góðu. Yossi skallaði rétt framhjá og það virtist vera svo að Liverpool hefði nú öll ráð franska liðsins í hendi sér. Á 58. mínútu sendi Martin góða sendingu inn á David en hann hitti boltann illa í upplögðu færi og skot hans fór framhjá. Tveimur mínútum seinna sendi Fabio fyrir á Dirk en markmaður Lyon varði skalla hans með naumindum. Eftir þetta hallaði undan fæti hjá Liverpool og Lyon jafnaði á 72. mínútu. Boltinn barst þá yfir á fjærstöng eftir horn frá hægri. Þar náði leikmaður Lyon skoti. Jose varði en hélt ekki boltanum. Annar leikmaður Lyon náði skoti af stuttu færi. Jose varði aftur en nú varð mark ekki lengur umflúið því varamaðurinn Maxime Gonalons henti sér fram og skallaði frákastið í mark af stuttu færi. Martin var næstum búinn að bjarga á línu en meiddist í björgunartilraun sinni og varð að fara af velli. 

Strax í kjölfarið á markinu mátti vel greina vaxandi óöryggi í leik Liverpool. Leikmenn voru smeykir við að taka af skarið og lítið gerðist í leik liðsins. Þegar fimm mínútur voru eftir skipti Rafael Benítez Yossi af leikvelli og setti Andriy Voronin til leiks. Þessi skipting féll í mjög grýttan jarðveg hjá áhorfendum enda var Yossi búinn að vera einn af betri leikmönnum Liverpool. Rétt á eftir fékk Liverpool loks færi. Eftir horn skallaði Dirk á Martin Skrtel en Slóvakinn þrumaði yfir úr þokkalegu færi. Ekki virtist meira sögulegt ætla að gerast en þegar komið var fram í viðbótartíma dundi ógæfan yfir. Snögg sókn upp hægri kantinn endaði með fyrirgjöf sem rataði yfir á fjærstöng og þar sendi varamaðurinn Cesar Delgado boltann í markið. Það þyrmdi yfir alla á Anfield og víðar. Hvað skyldi Gerard Houllier hafa hugsað í stúkunni? Fjórða tap Liverpool í röð varð staðreynd!

Liverpool hefði aldrei tapað þessum leik á síðasta keppnistímabili og það segir sýna sögu um ástandið á liðinu að það skyldi tapa leik sem aldrei virtist í hættu. Liðið er einfaldlega óþekkjanlegt frá því síðustu keppnistímabilum og stóra spurningin er þessi. Hvað gerðist eiginlega á Anfield í sumar??? Þessi spurning er lögð fram vegna þess að liðið hefur verið óþekkjanlegt frá fyrsta leik á þessu keppnistímabili. Eitthvað þarf að gera til að koma liðinu í gang og það strax!!!    

Liverpool: Reina, Kelly (Skrtel 74. mín.), Agger, Carragher, Insua, Mascherano, Leiva, Kuyt, Gerrard (Aurelio 25. mín.), Benayoun (Voronin 85. mín.) og Ngog. Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Plessis, Spearing og Babel.

Mark Liverpool: Yossi Benaoyn (41. mín.).

Gult spjald: David Ngog.

Lyon: Lloris, Réveillère, Cris (Gonalons 43. mín.), Toulalan, Cissokho, Makoun, Pjanic, Källström, Govou, Ederson (Gomis 61. mín.) og Lopez (Delgado 86. mín.). Ónotaðir varamenn: Vercoutre, Clerc, Bastos og Belfodil.

Mörk Lyon: Maxime Gonalons (72. mín.) og Delgado (90. mín.)

Gul spjöld: Cris, Govou og Réveillère.
 
Áhorfendur á Anfield Road: 41.562.
 
Maður leiksins: Martin Kelly. Þessi ungi strákur sýndi að hann er stórefnilegur. Hann átti ekki fullkominn leik frekar en aðrir en hann var óhræddur og sýndi mikla baráttu. Sem sagt fyrirmyndar leikur hjá svo óreyndum leikmanni!

Rafael Benítez: Við munum undirbúa okkur undir næsta leik eins og venjulega og halda okkar striki. Þetta snýst um að gera hlutina almennilega og hafa trú á sér. Við fengum fleiri færi og leikurinn hefði getað farið á annan veg ef þau hefðu skilað sér. Það er okkar verk að undirbúa okkur fyrir næsta leik og við munum byrja á því um leið og ég klára þennan blaðamannafund. 

                                                                           Fróðleikur.

- Liverpool tapaði fjórða leik sínum í röð og slíkt hefur ekki gerst frá því á síðustu öld.

- Nánar tiltekið gerðist það síðast vorið 1987.

- Liverpool hefur nú tapað tveimur af þremur leikjum í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

- Yossi Benayoun skoraði fjórða mark sitt á keppnistímabilinu.

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu BBC. 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan