| Sf. Gutt

Af umdeildum vistaskiptum

Því er spáð að stuðningsmenn Liverpool muni senda Michael Owen kaldar kveðjur þegar hann snýr á Anfield Road á morgun með nýja félaginu sínu Manchester United. Jamie Carragher, fyrrum félagi hans hjá Liverpool, er einn þeirra sem á von á að margir stuðningsmenn Liverpool muni ekki taka Michael opnum örmum. Jamie segir að það hafi komið sér á óvart að Michael skyldi ganga til liðs við Manchester United í sumar.

“Mér kom þetta svolítið á óvart. Ég hef aldrei efast um hæfileika hans en þessi vistaskipti komu öllum á óvart og þau gengu svo hratt fyrir sig. Maður var að velta því fyrir sér hvert hann ætlaði en svo var hann bara allt í einu kominn á Old Trafford."

"Stuðningsmenn okkar eru vanir að taka mjög vel á móti fyrrum leikmönnum félagsins en hann gæti fengið kaldar kveðjur. Hann á þó ekki eftir að taka það nærri sér. Ég skil sjónarmið stuðningsmanna okkar því hann spilaði fyrir okkur og núna er hann allt í einu kominn í raðir mikilla keppinauta okkar. Þetta mun kalla á einhver viðbrögð en svona er knattspyrnan og Michael veit það. Á sama tíma varð Michael að hugsa um sinn eigin feril. Hann langar að spila í Meistaradeildinni og komast í landsliðshópinn fyrir Heimsmeistarakeppnina. Þessi vistaskipti hans munu gefa honum tækifæri á að uppfylla þetta. Þetta mun ergja einhverja stuðningsmenn en svona ganga kaupin á eyrinni fyrir sig í knattspyrnunni. Hann er félagi minn svo ég verð að óska honum góðs gengis en bara upp að vissu marki."

En af hverju er þessi endurkoma Michael Owen svo mjög til umræðu? Hann hefur jú leikið á Anfield Road eftir að hann yfirgaf Liverpool árið 2004. Auðvitað er ástæðan sú að Michael Owen er nú leikmaður Manchester United. Það er ekki það sama í augum stuðningsmanna Liverpool að fyrrum leikmaður félagsins þeirra spili með Newcastle United eða Manchester United.

Michael hefur líka sagt eitt og annað sem fallið hefur í grýttan jarðveg, hjá sínum gömlu aðdáendum, eftir að hann fór til Manchester. Hann sagði til dæmis að hann hefði ekki þurft að hugsa sig um þegar honum var boðið að spila með Manchester United. Svo sagði hann að Manchester United væri mesta félag í heimi. Hann dró reyndar síðar um þeim ummælum sínum.

meistari með unglingaliðinu“Ég ætlaði ekki að móðga neinn. Ég var bara að meina að miðað við fjölda stuðningsmanna, fjármagn og stærð leikvangs þá væri Manchester United líklega stærsta félag í heimi. En á öðrum sviðum jafnast Madrid, Barcelona og Liverpool á við félagið."

Michael segist vita að stuðningsmenn Liverpool séu ekki ánægðir með að hann skyldi fara til Manchester United. Hann biður um að sér sé sýndur skilningur.

"Ég er bara mannlegur. Þess vegna myndi ég vilja að stuðningsmennirnir myndu hugleiða hvað ég gerði fyrir þá og liðið í gegnum árin. En ég lít líka raunsætt á málið. Núna spila ég fyrir granna og keppinauta liðsins þeirra. Ég held því að ég viti hvað ég á í vændum. Fólk talar oft um hollustu í knattspyrnunni. Það er auðvelt fyrir knattspyrnuáhugamenn að gera það. Ég tel að ég sé mjög trúr því hlutverki að vera faðir, bróðir og sonur. Maður getur ekki haldið með einhverju öðru liði en maður spilar með. Ég verð að afla tekna og draga björg í bú fyrir fjölskylduna mína. Þegar ég var lítill þá hélt ég með Everton. Ég hélt aldrei með Real Madrid en ég lék fyrir hönd félagsins. Það var bara atvinnutækifæri eins og annað fólk fær í öðrum starfsgreinum."
 
"Ég hef snúið aftur og leikið þar nokkrum sinnum með Newcastle. Ég hef því spilað þar með öðru liði. Þrátt fyrir allt hlakka ég til þessa leiks. Hann verður öðruvísi og líklega verður andrúmloftið svolítið rafmagnaðra. Untied og Liverpool eru tvö af stærstu félögum í heimi og það verður hart barist eins og alltaf þegar þessi lið leiða saman hesta sína."

Þetta er skoðun Michael Owen en líklega eru fáir stuðningsmenn Liverpool sáttir við að hann skyldi láta sig hafa það að ganga til liðs það lið sem hann leikur með í dag.

Michael Owen lék með Liverpool frá 1997 til 2004. Hann lék 297 leiki og skoraði 158 mörk.

Hér eru myndir frá ferli Michael Owen af vefsíðu Guardian.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan