| Heimir Eyvindarson

Tap á Emirates

Heppnin var ekki með okkar mönnum á Emirates Stadium í kvöld, og 2-1 tap fyrir Arsenal var niðurstaðan í nokkuð fjörugum leik.

Leikurinn byrjaði fjörlega og strax á upphafsmínútunum fékk Philipp Degen dauðafæri eftir magnað samspil Andryi Voronin og David Ngog, en Svisslendingurinn sókndjarfi þrumaði boltanum framhjá.

Liðin skiptust síðan á sæmilega efnilegum sóknum, án þess að mikil hætta skapaðist, allt þar til Arsenal náði forystunni á 19. mínútu, svo að segja upp úr engu. Leikmenn Liverpool áttu þá í basli við að koma boltanum frá á vinstri vængnum og það klafs endaði með því að Arsenal menn komust inn í kæruleysislega sendingu Andryi Voronin og áður en við var litið var hinn ungi Fran Merida búinn að þruma boltanum í nærhornið, stöngin inn. Óverjandi fyrir Cavalieri í markinu.

Liverpool liðið gafst auðvitað ekki upp og einungis 7 mínútum síðar var Emilio Insua búinn að jafna metin, með glæsilegu skoti fyrir utan teig. Insua fékk boltann frá Ryan Babel, tók hann á kassann og þrumaði honum yfir Fabianski í marki Arsenal. Einkar laglegt mark og hið fyrsta sem Insua gerir fyrir Liverpool.

Varnir beggja liða voru frekar óöruggar, enda vantaði marga byrjunarliðsmenn í bæði lið, og það gerði það að verkum að leikmenn liðanna komust nokkrum sinnum í óvænt færi. Einkum áttu þeir Kyrgiakos og Skrtel í bullandi vandræðum í miðvarðarstöðunum og réðu þeir oft illa við hina léttleikandi unglinga í liði Arsenal. Ekki bætti það ástandið að Skrtel þurfti æði oft að fara út til hægri, til bjargar hinum sókndjarfa hægri bakverði Degen. En það verður að segjast um þann ágæta pilt að hann er talsvert sprækari fram á við en til baka.

Diego Cavalieri, sem jafnan stendur milli stanganna í deildarbikarleikjum Liverpool, virkaði einnig ansi óöruggur á köflum. Í seinni hluta fyrri hálfleik var hann t.d. stálheppinni að ekki skyldi fara illa, þegar hann missti af fyrirgjöf inn í teiginn og stóð síðan ráðvilltur og bjargarlaus inn í miðri þvögunni þar til einhverjum varnarmanninum tókst loks að bægja hættunni frá.

Daninn Nicklas Bendtner gerði sig tvisvar sinnum líklegan við mark Liverpool í lok fyrri hálfleik, en var ekki á skotskónum að sinni. Snemma í síðari halfleik, eða á 49. mínútu hafði hann hinsvegar heppnina með sér þegar hann sneri Martin Skrtel af sér og skoraði sigurmark leiksins með bylmingsskoti upp í markhornið. Bæði Kyrgiakos og kannski sérstaklega Skrtel voru úti á túni í aðdraganda marksins og eftirleikurinn var tiltölulega auðveldur fyrir Bendtner.

Mark Danans unga efldi Arsenal mönnum þrótt og framan af hálfleiknum verður að segjast eins og er að þeir voru líklegri til að bæta við þriðja markinu, en Liverpool að jafna.

Þegar leið á hálfleikinn komst Liverpool þó meira og meira inn í leikinn og sóknirnar fóru að þyngjast. Bæði Babel og Voronin komust í hálffæri sem lítið varð úr og Jay Spearing átti skot fram hjá. Þá átti Babel ágætis skot eftir aukaspyrnu, sem Fabianski varði vel.

Á 73. mínútu leit fyrsta skiptingin hjá Liverpool dagsins ljós, þegar Yossi Benayoun kom inn á fyrir David Ngog. Nokkrum mínútum síðar var svo komið að því sem allir stuðningsmenn Liverpool höfðu beðið eftir, að Alberto Aquilani kæmi inn á. Ítalinn kom inn á fyrir Damien Plessis, sem hafði raunar átt ágætan leik á miðjunni.

Aquilani lét nokkuð að sér kveða það sem eftir lifði leiks og virkaði ansi sprækur. Hann átti t.a.m. skemmtilega bakfallsspyrnu undir lok leiksins, en Arsenal mönnum tókst að bjarga marki. Það gerði einn varnarmaður reyndar á þann hátt að hann varði boltann með báðum höndum frekar en annarri. Dómarinn sá á hinn bógin ekkert athugavert og framkallaði það mótmæli leikmanna Liverpool. Þetta var eiginlega síðasta færi Liverpool í leiknum og Arsenal fagnaði enn einum sigrinum á okkar mönnum í Lundúnaborg.

Það er auðvitað ekki hægt að segja mikið til um hæfni Aquilani eftir þessar fyrstu 15 mínútur sem hann spilar í Liverpool búningnum, en innkoman lofaði góðu og það verður spennandi að fylgjast með honum í næstu leikjum.

Arsenal: Fabianski, Senderos, Silvestre, Gibbs, Gilbert, Ramsey, Eastmond (Randall 76. mín.), Nasri, Merida (Coquelin 87. mín.) Bendtner (Watt 76. mín.) og Eduardo. Ónotaðir varamenn: Szczesny, Bartley, Frimpong og Sunu.

Mörk Arsenal: Fran Merida (18.mín.) og Nicklas Bendtner (49.mín.).

Liverpool: Cavalieri, Degen (Eccleston 88. mín.), Skrtel, Kyrgiakos, Insua, Babel, Plessis (Aquilani 77. mín.), Spearing, Kuyt, Voronin og Ngog (Benayoun 75. mín.) Ónotaðir varamenn: Reina, Darby, Ayala og Dossena.

Mark Liverpool: Emilio Insua (26. mín.).

Maður leiksins: Emilio Insua. Argentínumaðurinn fær einn heilan bara fyrir markið sem hann skoraði og hann var oft sprækur á vinstri vængnum og skapaði usla með hraða sínum og áræðni. Auk þess skilaði hann varnarhlutverkinu ágætlega.

Rafael Benítez: Það súrasta við kvöldið í kvöld var vitanlega að tapa leiknum, en það má ekki líta fram hjá því að það var margt jákvætt í okkar leik og ungu strákarnir sýndu margir góða takta. Ég var sérstaklega ánægður með innkomu Alberto Aquilani, en við höfum beðið lengi eftir honum. Það sást vel í kvöld að hann er góður leikmaður sem skilar boltanum vel frá sér og skapar usla. Við hlökkum til að fá hann í fullt form, en við verðum að gefa honum tíma.
                                                                                   
                                                                                Fróðleikur.

- Liverpool hefur fallið úr leik í Deildarbikarnum fyrir liðum frá London síðustu sex leiktíðir.

- Liverpool hefur ekki sigrað Arsenal á útivelli síðan í febrúar árið 2000.

- Liverpool og Arsenal hafa tíu sinnum mæst í þessari keppni. Bæði lið hafa fimm sinnum komist áfram. 

- Markið sem Emilio Insua skoraði var fyrsta mark hans fyrir Liverpool.

- Unglingurinn Nathan Eccleston spilaði sinn fyrsta leik fyrir aðallið Liverpool, rétt eins og Alberto Aquilani. 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan