| Heimir Eyvindarson

Benítez: Torres er ekki 100% leikfær

Það vakti nokkra furðu í gær þegar Fernando Torres var skipt út af á 63. mínútu í stöðunni 1-1 og Rafa Benítez þurfti að verja þá ákvörðun á blaðamannafundi eftir leikinn.

,,Það kom aldrei til greina að láta Torres spila fullar 90 mínútur gegn Fulham. Hann er ekki 100% leikfær."

,,Við ákváðum að nota Fernando gegn Manchester United þrátt fyrir að hann væri ekki 100% heill og hann þurfti 4 daga til að jafna sig eftir það. Við getum ekki tekið óþarfa áhættu þegar svo mikilvægur leikmaður er annars vegar."

,,Við stóðum einfaldlega frammi fyrir því að velja hvort við myndum láta hann byrja og skipta honum síðan út af, eða hvort við myndum skipta honum inn á í seinni hálfleik. Það varð úr að ég ákvað að láta hann spila í klukkutíma, við höfðum aðra kosti í hans stöðu og þetta var ákvörðun sem ég tók fyrst og fremst með hag leikmannsins fyrir brjósti."

Aðspurður um það hvernig honum gangi að sætta sig við fimmta tapið í deildinni svarar Benítez: ,,Það er alltaf erfitt að sætta sig við tap, en það var sérstaklega erfitt eftir þennan leik því við vorum betri aðilinn og stjórnuðum leiknum."

,,Tapið kom mér satt að segja mjög á óvart því í fyrri hálfleik réðum við lögum og lofum á vellinum. Við gerðum slæm mistök þegar Fulham skoraði fyrsta markið, en eftir að Fernando skoraði þá vorum við aftur komnir með öll völd á vellinum."

,,Í seinni hálfleik komst Fulham meira inn í leikinn og við gerðum aftur mistök í öðru marki þeirra, síðan misstum við tvo menn af velli og þá var þetta búið."

,,Allir framkvæmdastjórar vilja vinna alla leiki. Þegar maður vinnur ekki þá verður maður að greina hvað fór úrskeiðis og það munum við gera. Það sáu allir í leiknum gegn Manchester United að við getum unnið hvaða lið sem er, en við megum ekki gera eins afdrifarík mistök og við gerðum í dag."

,,Við verðum að halda ró okkar og halda áfram að vinna vel og finna lausnir. Næsti leikur í deildinni er gegn Birmingham og við verðum að ná okkur í 3 stig úr honum", segir vonsvikinn Benítez að lokum.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan