| Heimir Eyvindarson

Grannaslagur eins og hann gerist bestur!

Rafael Benítez segir að viðureignir Liverpool og Everton séu stærstu grannaslagirnir í enska boltanum.
Benítez segir í viðtali við opinbera heimasíðu Liverpool að þessar viðureignir séu enn stærri en uppgjörin milli Manchester United og Manchester City og Lundúnaliðanna Arsenal og Tottenham.

,,Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt og það er stórkostlegt að fá að upplifa stemmninguna í borginni fyrir þessa leiki. Það er ótrúlegt að sjá og finna hversu mikla þýðingu þessir leikir hafa fyrir borgarbúa."

,,Það tekur hver einasti maður í borginni þátt í stemmningunni og fyrir mig sem framkvæmdastjóra þá er þetta mikil ögrun því það er afar mikilvægt að vinna þessa leiki. Maður vill auðvitað vinna alla leiki, en alveg sérstaklega þessa."

Rafael Benítez og fjölskylda hans hafa komið sér vel fyrir í Liverpool og þekkja orðið marga í borginni eftir fimm ára veru þar og Benítez segir að það sé ótrúlegt að fylgjast með tilfinningasveiflum fólks í tengslum við leiki nágrannaliðanna. Hann segist heldur ekki fara varhluta af þeim sjálfur.

,,Mér finnst ég vera orðinn ,,Scouser" í gegn og þá er þetta partur af prógramminu. Maður gírast allur upp þegar viðureignir við Everton nálgast. Það er ekki annað hægt en að smitast af fólkinu í kringum mann."

,,Ég og fjölskylda mín þekkjum orðið ágætlega til hér í borginni og þekkjum meðal annars nokkra stuðningsmenn Everton, ekki marga, en nokkra, og spennan er ekki minni þeim megin. Þetta er einfaldlega engu líkt. Löngu fyrir leikina byrjar fólk að spennast upp og eftir leikina eru menn ýmist upp í skýjunum eða ósáttir og margir eru ansi lengi að ná sér. Það er ekki hægt annað en að leggja sig 100% fram í leiki sem þessa."
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan