| Sf. Gutt

Mark spáir í spilin

Fyrsta kertið á aðventukransinum er kennt við spádóma. Ekki veit ég hvort Mark Lawrenson hefur haft kveikt á því þegar hann gerði spá sína því hún er sú lengsta sem ég hef séð frá honum. Hún er að minnsta kosti sú lengsta sem þýðandi hefur fengist við og hefur þó verið lengi að við að þýða spár hans.

Venjulega eru spádómar Mark stuttir og hnitmiðaðir en nú ber svo við að hann gjörir langa spá um leik Liverpool og Arsenal. Trúlega er staða gamla liðsins hans honum ofarlega í huga. Það eru teikn á lofti um að þar á bæ sé ekki allt sem skyldi bæði innan vallar sem utan. Kannski er lengd spádómsins til merkis um að Mark sé venju fremur að hugsa til gamla liðsins. Giljagaur er jólaveinn sunnudagsins. Við, stuðningsmenn Liverpool, óskum eftir því að hann færi okkur þrjú stig í skóinn. Þá er bara að muna eftir að setja skóinn út í glugga. Stekkjarstaur kemur í nótt.
 
Fróðleiksmolar...

- Liverpool hefur ekki tapað í síðustu fjórum deildarleikjum.
 
- Liðið hefur á hinn bóginn ekki unnið nema þrjá af síðustu 14 leikjum í öllum keppnum.

- Arsenal hefur tapað þremur af síðustu fjórum leikjum í öllum keppnum.

- Það verður að reikna með mörkum í leiknum því liðin hafa ekki skilið jöfn án marka í síðustu 28 leikjum.

- Arsenal hefur skorað flest mörk í deildinni eða 38 talsins.

- Þetta er önnur viðureign liðanna á þessu keppnistímabili. Arsenal vann þá fyrstu 2:1 í Deildarbikarnum. 

- Fernando Torres hefur skorað flest mörk Liverpool á keppnistímabilinu eða tíu talsins.

Spá Mark Lawrenson

Liverpool v Arsenal

Ég held að Fernando Torres muni koma aftur í lið Liverpool en ég er ekki viss hvort Alberto Aquilani komi við sögu. Hann lék 76 mínútur á móti Fiorentina á miðvikudaginn svo Rafael Benítez mun líklega ákveða telja að hann þurfi svo sem 23 vikur til að jafna sig! Rafael mun örugglega breyta liði sínu mikið. Trúlega verður hann með tvo varnarsinnaða miðjumenn og ekki er útilokað að í liði Arsenal verði enginn hreinræktaður sóknarmaður.

Núna er staðan sú með Rafael að enginn getur getið sér til um hvaða mönnum hann muni tefla fram í leikjum. Svo veit enginn hvað hann leggur upp með til loka keppnistímabilsins. Hann er samt frekar vinsæll og í heildina hafa áhorfendur á Anfield sýnt honum þolinmæði. Ég hef þó velt því fyrir mér hvort hann sé nú lengra frá því að vinna kaleikinn heilaga, enska meistaratitilinn, en þegar hann kom í júní 2004. Sé staðreyndin sú er það mikið áhyggjuefni.

Arsenal mun ekki eiga í neinum vandræðum með að halda sér meðal fjögurra efstu liða því það er fullt af góðum leikmönnum í liðinu. Ég er ekki eins viss um Liverpool en ég held samt að liðið muni ná einu af þessum sætum sem í húfi eru. Liðið hefur verið slakt síðustu mánuðina í Úrvalsdeildinni en liðið er samt ekki langt frá toppliðunum. Liverpool á eftir að vinna marga leiki þegar Fernando Torres snýr aftur og Steven Gerrard verður farinn að leika aftur eins og maður í heimsklassa sem hann er. Þetta felur þó ekki þá staðreynd að félagið virðist ekki eiga neina vara áætlun.

Þegar maður skoðar aftan á leikskrána á Anfield þá sér maður ótrúlega langan lista af atvinnumönnum sem eru á mála hjá félaginu. En hversu margir af þeim eru virkilega góðir? Þeir eru ekki mjög margir og það er mikið af meðalmönnum í liðshópnum.

Þetta verður skemmtilegur leikur eins og alltaf þegar Arsenal er annars vegar. Það er mjög gaman að horfa á liðið og líklega finnst þeim hlutlausu þetta lið það skemmtilegasta. 

Úrskurður:  Liverpool v Arsenal 1:1.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan