| Grétar Magnússon

Skyldusigur

Liverpool báru sigurorð af Bolton Wanderers 2-0.  Hollendingurinn Dirk Kuyt skoraði fyrsta mark leiksins og það síðara var sjálfsmark sóknarmannsins Kevin Davies eftir skot frá Emiliano Insua.

Þeir Davig Ngog og Alberto Aquilani komu inn í liðið í stað Maxi Rodriguez og Lucas frá leiknum við Úlfana.  Ljóst var á uppstillingu Benítez að nú skyldi blásið til sóknar á heimavelli.

Owen Coyle var að mæta í annað sinn á leiktíðinni með lið sitt á Anfield en hann mætti með Burnley til leiks í september og lauk leiknum með 4-0 sigri Liverpool.  Ekki var tölfræðin Coyle í hag því Bolton hefur ekki sigrað á Anfield síðan í janúar árið 1954 !  Auk þess höfðu leikmenn Bolton aðeins haldið markinu hreinu einu sinni í síðustu 21 leik á útivelli.

Þegar flautað var til leiks kom mörgum á óvart að sjá Steven Gerrard úti á hægri kanti en þar hefur Dirk Kuyt spilað að mestu undanfarin ár.  Það voru þó ekki heimamenn sem byrjuðu betur því Tamir Cohen náði skoti á markið eftir mistök Martin Skrtel en eins og svo oft áður kom Pepe Reina til varnar og varði skot Ísraelsmannsins.

Mikil barátta einkenndi leikinn í upphafi og voru marktækifæri fá fyrsta hálftímann.  Heimamenn voru mikið meira með boltann án þess að skapa sér neitt markvert og Dirk Kuyt hefði átt að gera betur þegar hann fékk sendingu fyrir markið frá Insua en hann hafði ekki stjórn á boltanum.

Kóreubúinn Lee Chung-Yong skeiðaði svo í átt að marki Liverpool og lék framhjá hverjum leikmanninum á fætur öðrum, fyrr en varði var hann kominn framhjá Reina inní vítateignum, hann skaut að marki en þar bjargaði Sotirios Kyrgiakos glæsilega er hann náði að slengja fætinum í boltann.  Hefði boltinn farið í netið hefði þetta áreiðanlega verið eitt af mörkum tímabilsins, en Lee var sem betur fer búin að leika sig í þröngt færi eftir að hann hafði komist framhjá Reina.

Heimamenn héldu áfram að reyna hvað þeir gátu til að skapa færi og á 37. mínútu kom markið sem braut ísinn.  Albert Riera sendi boltann út til vinstri á Emiliano Insua og Argentínumaðurinn sendi boltann hátt á fjærstöngina þar sem Alberto Aquilani stökk manna hæst og skallaði boltann fyrir markið.  Þar var Dirk Kuyt óvaldaður og hann náði að koma boltanum yfir línuna framhjá varnarmanni Bolton sem stóð þar.  Markinu var vel fagnað og mikinn létti mátti finna á andrúmsloftinu á Anfield við þetta.

Eins og í byrjun fyrri hálfleiks voru það gestirnir sem byrjuðu betur í upphafi síðari hálfleiks.  Beittu þeir löngum innköstum og hvert tækifæri sem gafst til að senda háa bolta inná vítateig þar sem Sotirios Kyrgiakos átti fullt í fangi með Kevin Davies, sem jafnan er erfiður við að eiga.  Heimamenn þurftu að beita skyndisóknum þegar þeir fengu boltann og David Ngog klúðraði góðu færi á 53. mínútu.

Riera komst upp vinstri kantinn og sendi á Steven Gerrard sem skaut að marki.  Jaaskelainen varði og boltinn barst til Frakkans unga sem átti nokkuð auðvelt verkefni eftir en einhverra hluta vegna hitti hann ekki markið !

Heimaliðið sótti í sig veðrið eftir því sem leið á leikinn og Ngog átti skot að marki sem varnarmenn komust fyrir og Jamie Carragher hefði jafnvel getað skorað er hann átti skot eftir hornspyrnu sem þvældist næstum því í gegnum varnarmúr Bolton manna.

Næsta mark leiksins leit dagsins ljós 20 mínútum fyrir leikslok.  Hornspyrna var send fyrir markið þar sem tveir leikmenn voru í baráttunni um að vinna skallann, boltinn barst út í teiginn og David Ngog lagði boltann út á Insua sem skaut viðstöðulaust að marki.  Kevin Davies slæmdi fæti í boltann sem breytti um stefnu og Jaaskelainen kom engum vörnum við.

Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði leiks, þeir Maxi Rodriguex, Lucas og Ryan Babel komu inná sem varamenn fyrir þá Aquilani, Riera og Ngog.  Skyldusigri var því fagnað á Anfield í baráttunni um fjórða sætið.  Liðið situr nú í fimmta sæti deildarinnar, stigi á eftir Tottenham í því fjórða en fyrir neðan bíða Aston Villa og Manchester City með leiki til góða.  Baráttan mun því sennilega vara allt fram til lokadags tímabilsins.

Liverpool:  Reina, Carragher, Skrtel, Kyrgiakos, Insua, Riera (Rodriguez 74. mín.), Mascherano, Aquilani (Lucas 66. mín.), Gerrard, Ngog (Babel 84. mín.) og Kuyt.  Ónotaðir varamenn:  Cavalieri, Agger, Kelly og Pacheco.

Mörk Liverpool:  Dirk Kuyt (37. mín.) og Kevin Davies sjálfsmark (70. mín.).

Gult spjald: Javier Mascherano.

Bolton:  Jaaskelainen, Knight, Cahill, Ricketts, Steinsson, Davies, Muamba (Elmander, 78. mín.), Cohen (Gardner 60. mín.), Taylor (Weiss, 66. mín.), Lee og Davies.  Ónotaðir varamenn:  Al Habsi, Robinson, O'Brien og Wilshere.

Gul spjöld:  Mark Davies, Lee og Knight.

Áhorfendur á Anfield Road:  43.413.

Maður leiksins:  Emiliano Insua.  Argentínumaðurinn átti einn sinn besta leik á tímabilinu.  Hann var tryggur í vörninni og duglegur að koma upp vinstri kantinn til að senda boltann fyrir markið, svo átti hann auðvitað þátt í báðum mörkum leiksins.

Rafael Benítez:  Ég er ánægður með úrslitin, ánægður með seinni hálfleikinn en ekki svo mjög ánægður með þann fyrri.  Þegar upp er staðið þá þurftum við sigur og við náðum honum.  Í fyrri hálfleik fengu Bolton menn færi og við vorum heppnir, Reina og Kyrgiakos gerðu vel í vörninni en í síðari hálfleik var annað uppá teningnum.  Við stjórnuðum leiknum betur og fengum fleiri færi.  Við hefðum getað skorað fleiri mörk.

Fróðleikur:

- Dirk Kuyt skoraði sitt níunda mark á leiktíðinni og það áttunda í deildinni.

- Markið hans Kuyt var það 50. á tímabilinu hjá liðinu.

- Liðið hefur nú ekki tapað í síðustu sex leikjum í deildinni og haldið markinu hreinu í síðustu þremur.

- Sotirios Kyrgiakos spilaði sinn 10. leik fyrir félagið og Emiliano Insua þann 50. Emiliano hefur skorað eitt mark. Hann fær ekki seinna markið í þessum leik þrátt fyrir að hafa átt markskotið sem leiddi til þess.

- Javier Mascherano spilaði sinn 80. deildarleik fyrir Liverpool og Albert Riera sinn 40.

- Owen Coyle stýrði liði í annað sinn á Anfield á leiktíðinni. Hann kom til Liverpool í haust sem framkvæmdastjóri Burnley.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan