| Sf. Gutt

Steingelt jafntefli

Það var ekkert um fína drætti á Manchester leikvanginum í dag þegar Liverpool og heimamenn skildu jafnir án marka. Skemmtanagildi leikja Liverpool er lítið um þessar mundir en baráttan um fjórða sætið er harðari en nokkru sinni fyrr. Auk þessara lið eru Aston Villa og Tottenham með í slagnum.

Stuðningsmenn Liverpool fengu óvæntar gleðifregnir þegar spurðist fyrir leik að Fernando Torres væri kominn í liðshóp Liverpool eftir hnéaðgerð sína. Hann var meðal varamanna og þótti mörgum skref í rétta átt. Yossi Benayoun kom líka inn í liðshópinn eftir að hafa verið jafn lengi frá og Fernando.

Liverpool byrjaði bara vel og snemma leiks átti Steven Gerrard hættulega fyrirgjöf. Menn hentu sér fram fyrir framan markið og Maxi Rodriguez var mjög nærri að ná til boltans. Fátt gerðist þar til litlu fyrir hálfleik þegar Steven tók hornspyrnu. Martin Skrtel stökk manna hæst en skallaði yfir. Þar hefði Slóvakinn átt að gera betur og líklega hefði boltinn legið inn ef hann hefði hitt á rammann.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill svo ekki sé meira sagt en sá síðari var ekkert skárri. Eftir klukkutíma kom loksins færi þegar Emmanuel Adebayor átti fast skot utan teigs en Jose Reina henti sér niður og sló boltann í horn. Tíðindaleysið hélt áfram og einu tíðindin fólust í spjaldasöfnun leikmanna Liverpool og alls urðu þau sex! Sum reyndar fyrir litlar sem engar sakir. City fékk aðeins eitt spjald. 

Yossi og Fernando komu til leiks og gladdi það stuðningsmenn Liverpool. Á lokakaflanum vildu bæði liði fá víti. Fyrst stjakaði Daniel Agger óskiljanlega við einum leikmanni City og hefði verið hægt að flauta á það. Yossi var truflaður hinu megin en féll ekki og því var ekki dæmt. Einhver hefði látið sig detta í hans stöðu. Þegar tíu mínútur voru eftir slapp Emmanuel upp að vítateig Liverpool og virðist vera kominn í dauðafæri en Martin náði að bjarga málum í horn með frábærri tæklingu. Eftir hornið skallaði Emmanuel rétt yfir. Javier Mascherano, sem var mjög kraftmikill á miðjunni, hefði átt að vera rekinn af velli þegar um fimm mínútur voru eftir að hann sparkaði Gareth Barry niður. Hann slapp við brottrekstur og var heppinn. Leikurinn endaði án marka og reyndar var aldrei mjög líklegt að mark yrði skorað. Þetta var einfaldlega þrátefli frá upphafi til enda.     

Manchester City: Given, Bridge, Zabaleta, Lescott, Kompany, Ireland (Ibrahim 75. mín.), Wright-Phillips (Bellamy 68. mín.), A. Johnson, Barry, De Jong og Adebayor. Ónotaðir varamenn: Taylor, Richards, Sylvinho, Toure og Santa Cruz.

Gult spjald: Gareth Barry. 

Liverpool: Reina, Carragher, Skrtel, Agger, Insua, Kuyt (Aquilani 86. mín.), Leiva, Mascherano, Rodriguez (Benayoun 63. mín.), Gerrard og Babel (Torres 75. mín.). Ónotaðir varamenn: Cavalieri, Riera, Aurelio og Kelly.
 
Gul spjöld: Javier Mascherano, Steven Gerrard, Ryan Babel, Yossi Benayoun, Dirk Kuyt og Fernando Torres. 

Áhorfendur á Manchester leikvanginum: 47.203.

Maður leiksins: Martin Skrtel. Slóvakinn lék líklega sinn besta leik á keppnistímabilinu og hann hefur verið að styrkjast á nýja árinu. Hann átti reyndar að skora í fyrri hálfleik en frábær tækling hans í þeim síðari bjargaði hugsanlega marki.

Rafael Benítez: Það var gremjulegt að við skyldum ekki geta skorað sigurmarkið. Hvorugt liðið náði reyndar að skapa opin færi. Við áttum von á erfiðum leik og sú varð raunin. Við verðum núna að halda baráttunni til loka leiktíðarinnar. 

                                                                               Fróðleikur

- Liverpool og Manchester City gerðu jafntefli í báðum leikjum sínum á leiktíðinni. 

- Þau undur gerðust að sex leikmenn Liverpool voru bókaðir.
 
- Manchester City hefur ekki unnið Liverpool frá því á leiktíðinni 2004/05.

- Jose Reina hélt marki sínu hreinu í sjötta sinn í síðustu sjö leikjum.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan