| Sf. Gutt

Draumabyrjun

Luis Suarez gat ekki byrjað betur í sínum fyrsta leik með Liverpool. Sextán mínútum eftir að hann kom til leiks í stað Fabio Aurelio lá boltinn í marki Stoke. Luis fagnaði þó svo að Andy Wilkinson, varnarmaður Stoke, hafi átt síðustu snertinguna áður en boltinn fór í markið. Luis var skiljanlega í skýjunum eftir leikinn.

,,Mér fannst þetta vera draumabyrjun og líklega finnst öllum það. Reyndar var það, algjör draumur í sjálfu sér, að vera inni á vellinum í nokkrar mínútur og ná að skora fyrir framan Kop."
 
Margir veltu því fyrir sér eftir leikinn hvort Luis fengi markið á sinn markareikning eða hvort það yrði skráð sem sjálfsmark.

,,Ég fagnaði eins og ég ætti markið! Ég vona að ég eigi markið. Vonandi skrá þeir, sem ákveða þessa hluti, markið á mig."

Luis Suarez þarf varla að hafa nokkrar áhyggjur af því að fá ekki markið skráð á sig. Kóngurinn sjálfur er búinn að gefa honum markið og menn mótmæla ekki úrskurði kónga. Kóngurinn er meira að segja til í að gefa honum hitt markið líka! Kenny Dalglish sagði þetta eftir leikinn og eins og venjulega sló hann á létta strengi! 

,,Ég gaf honum markið. Boltinn var á leiðinni í markið ekki satt? Hann má líka eiga fyrsta markið ef hann vill!"

Það er óhætt að segja að Luis Suarez hafi fengið óskabyrjun í sínum fyrsta leik. Mark og það án þess að hafa farið á eina einustu æfingu með Liverpool!



 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan