| Sf. Gutt

Titlar fyrir norðan og sunnan

El Hadji Diouf, fyrrum leikmaður Liverpool, er ekki vinsæll leikmaður en hann náði samt að vinna athyglisvert afrek á dögunum. El Hadji er nú lánsmaður norður í Skotlandi hjá Rangers. Þar varð hann Deildarbikarmeistari með Rangers eftir að liðið lagði granna sína Celtic 2:1 í framlengdum úrslitaleik.
 
Þetta var í annað sinn sem Senegalinn verður Deildarbikarmeistari á Bretlandi. Fyrra skiptið var árið 2003 þegar hann var í liði Liverpool sem vann Manchester United 2:0 sællar minningar. El Hadji hefur því orðið Deildarbikarmeistari bæði norðan og sunnan landamæra á Bretlandi. Ekki hafa mjög margir leikið þetta eftir. Að minnsta kosti ekki núna á seinni árum.

El Hadji Diouf er enn leikmaður Blackburn en verður hjá Rangers til loka leiktíðar. Koma hans til Glasgow gladdi ekki þá græn hvítu þar í borg enda ávann hann sér fyrirlitningu þeirra þegar Liverpool lék gegn Celtic um árið. Hann hrækti þá í átt að stuðningsmönnum Celtic og það atvik er skiljanlega ekki gleymt. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan