| Sf. Gutt

Loksins heimasigur

Loksins náðist að herja fram sigur á Anfield Road. Liverpool lagði Queens Park Rangers að velli með minnsta mun. Enn átti markmaður gesta stórleik og bjargaði liði sínu frá stórtapi.

Leikmen Liverpool mættu harðákveðnir til leiks og hófu strax mikla sókn. Á 3. mínútu spændi Luis Suarez inn á vítateiginn hægra megin og lagði boltann út á Maxi Rodriguez en varnarmaður henti sér fyrir og Liverpool fékk sitt þriðja horn!

Á 10. mínútu sendi Stewart Downing góða sendingu frá hægri beint á höfuðið á Luis en skalli hans fór beint á Radek Cerny í markinu. Þar hefði Luis átt að skora. Rétt á eftir var Luis enn á ferðinni. Hann fékk boltann hægra megin í vítateignum og skaut umsvifalaust að marki. Radek kom ekki vörnum við en boltinn smaug þvert framhjá markinu og alla leið í innkast hinu megin. Gestirnir komust varla fram fyrir miðju og Jose Reina hefði næstum getað verið heima hjá sér. 

Á 30. mínútu átti Dirk Kuyt frábæra stungusendingu á Maxi sem komst á auðan sjó vinstra megin inn í vítateiginn. Hann hugðist smella boltanum í fjærhornið en Radek sá við honum og varði glæsilega. Undir lok hálfleiksins komst Luis enn í færi inn á vítateiginn en náði ekki að lyfta boltanum yfir Radek sem var í stuði eins og svo margir markmenn sem hafa komið í heimsókn á þessari leiktíð. Tékkinn, sem er þriðji markmaður Q.P.R., lauk svo hálfleiknum með því að verja gott skot frá Stewart. 

Síðari hálfleikurinn hófst með stórsókn. Eftir horn frá vinstri sem Charlie Adam tók náði Q.P.R. að hreinsa en boltinn barst aftur á Skotann. Hann sneri laglega af sér varnarmann og sendi fyrir beint á Luis sem stökk upp einn og yfirgefinn fyrir framan mitt mark og skallaði í markið. Mikið var fagnað og ljóst að Luis var mikið létt enda ekki skorað síðan í október. Frábært mark en þáttur Charlie var magnaður og sendingin meira að segja með hægri. Glöggir töldu 69 sekúndur liðnar af hálfleiknum þegar Luis skoraði!

Yfirburðir Liverpool voru samir og á 60. mínútu virtist annað mark ætla að koma. Luis var kominn í þröngt færi upp við endamörk og sendi út á Maxi, sem var í upplögðu færi í markteignum, en Radek náði einhvern vegin að bjarga með því að slá boltann í stöngina. Ótrúlegt hjá Tékkanum! Sjö mínútum seinna eða svo voru sömu menn á ferðinni. Hröð sókn fram völlinn og þeir Luis og Maxi skiptust eldsnöggt á sendingum. Í þriðja sinn komst Maxi gegn Radek og sá tékkneski hafði enn einu sinni betur og varði. 

Craig Bellamy kom til leiks þegar ellefu mínútur voru eftir og sex mínútum seinna var hann nærri að skora. Hann tók þá aukaspyrnu rétt utan vítateigs en boltinn fór í hliðarnetið. Gestirnir höfðu legið í vörn allan tímann en síðustu tíu mínúturnar fóru þeir loksins að láta á sér kræla en náðu þó aldrei að skapa sér opið færi enda voru Daniel Agger og Martin Skrtel, sem hafa verið frábærir í vörninni upp á síðkastið, vel vakandi í hjarta varnarinnar. 

Á lokamínútunni slapp svo mark Q.P.R. enn einu sinni. Liverpool sneri vörn í sókn og boltinn gekk út til vinstri á Craig sem lék inn í vítateiginn og hugðist senda á Luis. Shaun Wright-Phillips kom í veg fyrir það og komst í boltann á undan Luis en þrumaði boltanum í þverslá og niður á eigin marki. Ótrúlegt atvik! Tvö í tréverkið í dag og mörkin urðu ekki fleiri en það náðist loks að herja fram sigur í Musterinu og það var tími til kominn!

Liverpool: Reina, Johnson, Skrtel, Agger, Jose Enrique, Rodriguez (Bellamy 79. mín.), Adam, Henderson, Downing (Shelvey 87. mín.), Suarez og Kuyt. Ónotaðir varamenn: Doni, Carroll, Coates, Carragher og Kelly.
 
Mark Liverpool: Luis Suarez (47. mín.).

Gul spjöld: Daniel Agger og Craig Bellamy.

Queens Park Rangers: Cerny, Young, Gabbidon, Ferdinand (Orr 50. mín.), Traore, Mackie (Hill 78. mín), Barton, Faurlin, Wright-Phillips, Smith (Campbell 66. mín.) og Bothroyd. Ónotaðir varamenn: Putnins, Connolly, Derry og Buzsaky.

Áhorfendur á Anfield Road: 45.016.

Maður leiksins: Charlie Adam. Afmælisbarnið lék stórvel á miðjunni. Hann barðist um boltann, spilaði honum vel frá sér og var mjög duglegur. Skotinn er búinn að standa sig mjög vel í síðustu leikjum og hefur sýnt að það var vel þess virði að fjárfesta í honum í sumar.

Kenny Dalglish: Við spiluðum stórgóða knattspyrnu á köflum í fyrri hálfleik. Við munum halda okkar striki og ætlum ekki að breyta því sem við höfum trú á. Leikmennirnir sýndu mikið hugrekki og trú á því að halda áfram á þann veg sem við höfum verið á. Spila boltanum, hreyfa okkur án hans, brjótast inn í vítateiginn og skapa okkur færi. Einn daginn munum við nýta þau.

                                                                           Fróðleikur:

- Liverpool vann sinn fyrsta leik á Anfield Road frá því þeir lögðu Wolves 24. september.

- Þeim fjórum heimaleikjum sem fylgdu leiknum við Wolves lauk öllum með jafntefli.  

- Charlie Adam átti góðan afmælisdag og lagði upp sigurmarkið. Hann átti 26 ára afmæli í dag.

- Jonjo Shelvey lék sinn fyrsta leik með Liverpool frá því gegn Exeter í lok ágúst. 

- Hann kom á dögunum úr láni hjá Blackpool þar sem hann stóð sig vel og skoraði sex mörk. 

- Þau eru nú orðin fimmtán skiptin sem stöng eða þverslá hefur komið í veg fyrir mark hjá Liverpool.

- Luis Suarez skoraði áttunda mark sitt á leiktíðinni.

- Þetta var fyrsta mark hans frá því í október.

- Jose Reina er eini leikmaður Liverpool sem hefur spilað alla leiki Liverpool á leiktíðinni.   

Hér eru
myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

Hér er viðtal við Kenny Dalglish sem tekið var eftir leik.


 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan