| Heimir Eyvindarson

Góður sigur á Villa Park

Liverpool vann góðan útisigur á Aston Villa í dag. 2-0 urðu lokatölurnar, en eins og venjulega hefðu okkar menn getað skorað miklu fleiri mörk.

Kenny Dalglish kom nokkuð á óvart með því að stilla Jonjo Shelvey upp í byrjunarliðinu, á kostnað reyndari manna eins og Maxi Rodriguez og Dirk Kuyt. Craig Bellamy var á vinstri kanti og Stewart Downing hóf leikinn gegn sínum gömlu félögum á hægri kantinum. Stuðningsmenn Villa voru duglegir að púa á Downing, sérstaklega í upphafi leiks, en hann lét það ekki á sig fá.

Downing lét líka talsvert til sín taka í byrjun leiksins og strax á 7. mínútu átti hann ágætis skot að marki Villa eftir að hafa farið illa með varnarmenn heimamanna. Brad Guzan í marki Villa sá þó við honum og varði skotið í horn.

Mínútu síðar átti Emile Heskey ágætan skalla á markið hinum megin, en beint á Reina.

Liverpool menn voru mjög sprækir á fyrstu mínútum leiksins og á 11. mínútu kom fyrsta markið. Þar var að verki Craig Bellamy, en boltinn barst til hans eftir að Guzan hafði varið hælspyrnur frá Suarez og Shelvey!

Aðeins fjórum mínútum síðar kom annað markið. Það skoraði Martin Skrtel með góðum skalla eftir hornspyrnu Craig Bellamy. Staðan orðin 2-0 fyrir gestina á Villa Park.

Það sem eftir lifði hálfleiksins hafði Liverpool undirtökin án þess að skapa sér hættuleg færi. Heimamenn áttu nokkur hálffæri, en ollu hvorki varnarmönnum okkar manna, né Pepe Reina, neinum vandræðum. Leikmenn Liverpool héldu því til búningsherbergjanna í Birmingham með þægilega forystu.

Seinni hálfleikur hófst síðan með svakalegum látum. Frábært upphlaup Bellamy og Suarez á 47. mínútu endaði með því að Suarez þrumaði boltanum í slána og naumlega út. Næstu mínúturnar var eins og Liverpool væri eina liðið á vellinum, þvílíkur var krafturinn í okkar mönnum. 

Sérstaklega var Bellamy duglegur að stríða heimamönnum með hraða sínum og endalausum dugnaði. Á 51. mínútu átti Johnson góða syrpu sem endaði með þrumuskoti sem Guzan varði vel.

Á 56. mínútu komst Downing í ágætt skotfæri, en skot hans fór hátt yfir, við mikinn fögnuð heimamanna. Þreumur mínútum síðar kom Suarez sér síðan í góða stöðu og skaut að marki. Boltinn lenti í innanverðri stönginni og rúllaði út í teig. Þar var varnarmaður Villa hársbreidd á undan Bellamy að ná til knattarins. 17. stangarskot okkar manna á tímabilinu staðreynd!

Tveimur mínútum síðar geystist Charlie Adam fram og kom sér í gott færi. Skot hans fór hinsvegar naumlega framhjá. Fimm mínútum síðar fékk Shelvey síðan ákjósanlegt færi eftir góðan undirbúning Enrique og Suarez, en skot hans fór yfir og framhjá.

Þegar hér var komið sögu fóru heimamenn að komast aðeins betur inn í leikinn. Þeir náðu þó aldrei að valda okkar mönnum verulegum vandræðum.

Á 74. mínútu fór Suarez af velli og í stað hans kom Andy Carroll. Tíu mínútum síðar kom Jamie Carragher inn á fyrir Jonjo Shelvey. Greinilegt að Dalglish ætlaði sér að halda fengnum hlut, enda nokkuð farið að draga af okkar mönnum eftir mikinn baráttuleik. Dirk Kuyt kom síðan inn á fyrir Bellamy á 89. mínútu.

Eftir rúmlega þriggja mínútna uppbótartíma flautaði ágætur dómari leiksins, Peter Walton, til leiksloka. Góður útisigur á Villa Park staðreynd og þrjú dýrmæt stig í húsi.

Liverpool: Reina, Johnson, Skrtel, Agger, Enrique, Adam, Henderson, Downing, Shelvey (Carragher á 84. mín.), Suarez (Carroll á 74. mín.) og Bellamy (Kuyt á 89. mín.). Ónotaðir varamenn: Doni, Coates, Rodriguez og Kelly.
 
Mörk Liverpool: Bellamy á 11. mínútu og Skrtel á 15. mínútu.

Gul spjöld: Charlie Adam og Craig Bellamy.

Aston Villa: Guzan, Dunne, Hutton, Collins, Warnock, Albrighton, N'Zogbia, Petrov, Heskey, Delph og Delfouneso.

Áhorfendur á Villa Park: 37.460.

Maður leiksins: Valið að þessu sinni stóð á milli Glen Johnson sem átti stórgóðan leik í hægri bakverðinum og Craig Bellamy sem var gríðarlega sprækur á vinstri kantinum. Sú staðreynd að Bellamy skoraði fyrsta markið og átti stoðsendinguna í seinna markinu gerir það að verkum að ekki er hægt annað en að útnefna hann mann leiksins. Bellamy var hrikalega duglegur, sívinnandi, símalandi og alltaf að búa eitthvað til. Frábær leikur hjá þessum kraftmikla karakter.

Kenny Dalglish: Við vorum góðir í dag. Við héldum markinu hreinu, náðum að skora tvö ágæt mörk og bættum enn við sláar og stangarskotum! Það mætti halda að við æfðum það sérstaklega að reyna að hitta í tréverkið, en það er ekki svo. Við reynum að bæta okkar leik jafnt og þétt. Ég er ánægður með frammistöðuna í dag.

                                                                           Fróðleikur:

- Þetta var í fyrsta sinn sem Kenny Dalglish stýrir liði til sigurs á Villa Park.

- Craig Bellamy skoraði í þriðja sinn á keppnistímabilinu.

- Martin Skrtel skoraði í annan gang.

- Síðustu þrjú árin hafa einungis tvö mörk verið skoruð í viðureignum Aston Villa og Liverpool á Villa Park. Sú markatala var sem sagt tvöfölduð í dag. 

- Sigurinn í dag 81. sigur Liverpool á Aston Villa. Liðin hafa alls mæst 171 sinni.

- Luis Suarez átti eitt skot í slána í dag og annað í stöng. Þar með hafa leikmenn Liverpool hitt tréverkið 17. sinnum í vetur!  

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.

Hér er viðtal við Kenny Dalglish sem tekið var eftir leik.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan