Döpur frammistaða gegn Fulham
Liverpool tapaði enn einum leiknum á heimavelli í gærkvöldi, þegar liðið lá 0-1 fyrir Fulham. Eina mark leiksins var sjálfsmark Martin Skrtel.
Kenny Dalglish gerði alls níu breytingar á liðinu frá síðasta leik og hvíldi marga lykilmenn fyrir bikarúrslitin gegn Chelsea á laugardaginn. Luis Suarez, Daniel Agger, Craig Bellamy, Glen Johnson, Pepe Reina og Steven Gerrard voru allir hvíldir og Jamie Carragher, Stewart Downing og Jose Enrique hófu allir leik á bekknum.
Alexander Doni stóð í markinu og Fabio Aurelio byrjaði í vinstri bakvarðarstöðunni, en langt er liðið síðan hann var í byrjunarliði. Þá var hinn stórefnilegi Raheem Sterling á bekknum.
Strax á fimmtu mínútu skoraði Fulham eina mark leiksins. Reyndar var það Martin Skrtel sem skoraði markið fyrir gestina. Föst föst fyrirgjöf John Arne Riise, frá vinstri, hafnaði í Alex Kacaniklic svo í Martin og spýttist framhjá varnarlausum Doni í markinu. Furðulegt mark og staðan 0-1. Þess má geta að Alex var um tíma í unglingaliði Liverpool!
Eftir markið reyndu heimamenn að komast meira inn í leikinn og laga stöðuna. Liverpool liðið var vissulega betri aðilinn í fyrri hálfleiknum, en lítið var um mjög hættuleg færi. Um miðjan hálfleikinn átti Dirk viðstöðulaust skot, eftir gott samspil, við vítateiginn en boltinn fór rétt framhjá. Á 28. mínútu munaði svo engu að Liverpool jafnaði. Eftir harða sókn lagði Maxi Rodriguez boltann fyrir fætur Jonjo Shelvey sem skaut að marki. Mark Schwarzer missti boltann undir sig og hann stefndi í markið en Brede Hangeland var staddur á marklínunni og bjargaði.
Á 36. mínútu fékk Liverpool horn frá hægri. Eftir hana skallaði Andy Carroll til baka fyrir markið á Maxi en hann skallaði yfir. Á lokamínútu hálfleiksins sendi Fabio Aurelio frábæra sendingu fyrir á Andy sem náði góðum skalla en því miður beint á Mark í markinu. Hann hélt ekki boltanum en enginn var til að fylgja á eftir. Liverpool hefði því vel getað jafnað ef heppnin hefði verið með þeim, en svo var ekki í þetta sinn. Eins og oft áður.
Leikmenn Fulham hafa vafalítið verið fegnir að hafa forystu þegar haldið var til búningsherbergja því Liverpool var eins og áður segir sterkara liðið í fyrri hálfleik. Fyrsta skipting Liverpool í leiknum kom strax í leikhléi, en þá kom Downing inn á fyrir Henderson sem hafði verið ansi rólegur í leiknum.
Síðari hálfleikur var um margt svipaður og hinn fyrri. Liverpool var heldur meira með boltann en Fulham átti kannski hættulegri færi. Liverpool komst reyndar mjög nærri því að jafna á 58. mínútu þegar Maxi komst inn í vítateiginn en Brede komst fyrir og bjargaði í horn. Nokkrum mínútum seinna átti varamaðurinn Frei skot að marki Liverpool sem strauk stöngina og fór framhjá. Rétt á eftir komst John Arne inn fyrir vinstra megin en Alexander kom vel út á móti og bjargaði vel.
Á 66. mínútu kom Enrique inn á fyrir Aurelio sem hafði reyndar átt fínan leik, en innkoma Spánverjans breytti engu fyrir leikinn. Sjálfsagt hefur Dalglish viljað láta Enrique svitna aðeins fyrir laugardaginn og eins hefur hann ekki viljað taka óþarfa áhættu með Aurelio sem er ekki í mikilli leikæfingu.
Það eina sem virkilega gladdi augað hjá okkar mönnum í síðari hálfleik var innkoma hins unga Raheem Sterling, en hann kom inn á fyrir Kuyt á 76. mínútu. Hann sýndi ágæt tilþrif og er mjög ógnandi með hraða sínum og tækni. Clint komst tvívegi í færi á lokakaflanum en Alexander varði í bæði skiptin og þá sérstaklega í það fyrra þegar Clint komst inn í vítateig eftir gott spil. Leiktíminn rann síðan út án þess að okkar menn gætu lagað stöðuna. Niðurstaðan 0-1 tap og frammistaða Liverpool alls ekki ásættanleg.
Liverpool: Doni, Kelly, Coates, Skrtel, Aurelio (Enrique 66. mín.), Henderson (Downing 46. mín.), Shelvey, Spearing, Kuyt (Sterling 76. mín.), Carroll og Rodriguez. Ónotaðir varamenn: Jones, Carragher, Robinson og Flanagan
Fulham: Schwarzer, Riise, Hangeland, Kelly, Hughes, Duff, Dempsey, Murphy, Pogrebnyak (Etuhu 81. mín.), Kacaniklic (Frei 58. mín.) og Dembele (Baird 87. mín.). Ónotaðir varamenn: Stockdale, Briggs, Kasami og Sa.
Mark Fulham: Martin Skrtel, sm. (5. mín.).
Áhorfendur á Anfield Road: 40.106.
Maður leiksins: Alexander Doni. Það er ekki hægt að saka Brasilíumanninn um markið sem Liverpool fékk á sig. Hann átti traustan leik í markinu og varði nokkrum sinnum mjög vel. Andy Carroll stóð sig einnig ágætlega, en Doni hlýtur hnossið að þessu sinni.
Kenny Dalglish: Þetta var óásættanleg frammistaða af okkar hálfu. Hugarfar leikmanna var ekki gott. Að vissu leyti var frammistaðan í kvöld mér að kenna. Ég gerði miklar breytingar á liðinu og hélt að þeir sem fengu tækifæri myndu nota það til að freista þess að vinna sér sæti í liðinu á laugardaginn. Það gekk ekki eftir.
Fróðleikur
- Liverpool hefur nú tapað sex sinnum fyrir Fulham í Úrvalsdeildinni. Fimmta tapið kom á Craven Cottage fyrir fimm mánuðum.
- Fulham hefur ekki áður unnið Liverpool heima og úti á sömu leiktíðinni.
- Í fyrra fór leikur liðanna á Anfield 1-0 fyrir okkar menn. Það var fyrsti heimasigur liðsins eftir að Kenny Dalglish tók við á ný. Þá var úrslitamarkið líka sjálfsmarkið, en bara úr réttri átt!
Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.
Hér má sjá viðtal við Kenny Dalglish sem var tekið eftir leikinn.
-
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur! -
| Sf. Gutt
Sigur á Spáni