Mark spáir í spilin
Núna á laugardaginn gefst færi á öðrum titli Liverpool á þessu keppnistímabili þegar liðið leikur til úrslita um F.A. bikarinn við Chelsea á Wembley leikvanginum. Deildarbikarinn er á vísum stað á Anfield Road og vonandi næst að hýsa F.A. bikarinn á sama stað. Rauði herinn mætir á nýja Wembley í þriðja sinn á árinu og nú má ekkert fara úrskeiðis. Það er mikið í húfi og meira en margan gæti grunað. Titill í hús á þessum tímapunkti er ekki bara einn titill. Þessi titill gæti gert leiktíð sem margir telja mislukkaða að harla góðri. Þessi úrslitaleikur er því geysilega mikilvægur og vonandi fagna þeir Rauðu á Wembley eins og í febrúar og svo oft áður fyrr á árum!
Liverpool v Chelsea
Liverpool hefur unnið Chelsea í öllum þremur leikjunum frá því Kenny Dalglish kom aftur til að stjórna þeim Rauðu. Á fyrri valdatíma sínum á Anfield tapaði hann aldrei fyrir þeim Bláu í tíu leikjum. Það má því segja að Rauðliðar hafi tök á liðinu hans Roberto di Matteo. Liðinu virðist ganga heldur betur gegn liðum sem sækja meira á þá og Chelsea á eftir að gera það hvort sem Didier Drogba eða Fernando Torres verða í sókninni.
Chelsea þarf líka að leika í úrslitum Meistaradeildarinnar eftir tvær vikur eða svo. Eftir að liðinu fór að vegna betur í kjölfar þess að Roberto tók við er það aftur komið í sviðsljósið og orðið mikilvægur mótherji. Hvernig sem þeir fara að því þá held ég að Liverpool muni vinna og það gæti vel verið að framlengingu eða jafnvel vítaspyrnukeppni þurfi til. Þetta verður mjög jafn leikur.
Kenny Dalglish sagði í vikunni að það væri betra að vinna tvo bikara en að ná fimmta sæti í Úrvalsdeildinni. Ég er sammála honum því það gefur sæti í Evrópudeildinni og svo nást bikarar í hús að auki. Sigurinn í Deildarbikarnum og leiðin í úrslit F.A. bikarsins hefur án efa minnkað álagið á þeim eftir slakt gengi í deildinni. Margir telja þó að Kenny þurfi að vinna þennan leik til að tryggja sig í starfi.
Þrátt fyrir allt þá hefur maður séð að Liverpool hefur alltaf skapað sér fullt af færum í þeim leikjum á Anfield sem liðið gerði jafntefli í eða jafnvel tapaði. Það ætti því ekki að þurfa að laga liðið mikið til að koma því í eitt af sex efstu sætunum og ég held að John Henry, ameríski eigandi félagsins, geri sér grein fyrir því. Þó svo að Kenny Dalglish sé auðvitað undir álagi, reyndar eins og allir framkvæmdastjórar í Úrvalsdeildinni, þá held ég að pressan á honum sé ekki alveg eins mikil og fólk sem fylgist með úr fjarlægð heldur kannski.
Spá: 1:1. Liverpool vinnur í vítaspyrnukeppni.
Til minnis!
- Liverpool hefur unnið F.A. bikarinn sjö sinnum. 1965, 1974, 1986, 1989, 1992, 2001 og 2006.
- Chelsea hefur unnið F.A. bikarinn sex sinnum. 1970, 1997, 2000, 2007, 2009 og 2010.
- Kenny Dalglish var framkvæmdastjóri Liverpool þegar F.A. bikarinn vannst 1986 og 1989.
- Þeir Jose Reina, Jamie Carragher og Steven Gerrard voru bikarmeistarar með Liverpool árið 2006.
- Andy Carroll og Luis Suarez eru markahæstir leikmanna Liverpool í keppninni með þrjú mörk.
- Luis er búinn að skora í öllum leikjum sínum í F.A. bikarnum á leiktíðinni.
- Glen Johnson fyrrum leikmaður Chelsea leikur með Liverpool en þeir Fernando Torres og Raul Meireles sem áður voru hjá Liverpool eru nú leikmenn Chelsea.
- Liverpool og Chelsea hafa dregist níu sinnum saman í sögu þessarar keppni. Liverpool hefur fjórum sinnum haft betur en Chelsea í fimm skipti.
- Sömu lið mættust í Deildarbikarnum í september. Liverpool vann þá 1:2 á Stamford Bridge með mörkum Maxi Rodriguez og Martin Kelly.
Hér eru myndir af leikmönnum Liverpool æfa sig fyrir leikinn á Melwood í gær.
Hér má sjá Kenny Dalglish, Roberto di Matteo og nokkra leikmenn liðanna fjalla um leikinn.
Hér má sjá þá Ian Rush og Marcel Desailly ræða um leikinn.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!