| Sf. Gutt

Jerome Sinclair yngstur allra!

Jerome Sinclair varð í gærkvöldi yngsti leikmaðurinn í allri sögu Liverpool til að spila fyrir hönd félagsins! Hann var aðeins 16 ára og sex daga gamall þegar hann kom inn á sem varamaður í Deildarbikarleiknum gegn West Bromwich Albion en svo skemmtilega vill til að hjá því félagi hóf hann feril sinn.

Jerome stórbætti gamla metið sem Jack Robinson átti. Hann var 16 ára og 250 daga gamall þegar hann lék sinn fyrsta leik með Liverpool gegn Hull City 9. maí 2010. Leiknum lauk með 0:0 jafntefli. Jack var í liði Liverpool í gærkvöldi og lék sinn sjöunda leik fyrir félagið.

Það á eftir að koma í ljós hvort Jerome, sem er fæddur 20. september 1996, á eftir að láta að sér kveða með Liverpool þegar fram líða stundir en það var sannarlega söguleg og skemmtileg stund þegar unglingurinn setti þetta nýja félagsmet.  

Næsta víst er að þetta nýja met Jerome á eftir að standa lengi því pilturinn er svo kornungur. Til að setja aldur hans í samhengi þá væri hann hér á Íslandi á fyrsta ári í framhaldsskóla. Svo ætti hann ár í bílprófið! Sannarlega magnað!
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan