| Sf. Gutt

Minningarleikur um Bill Shankly

Liverpool leikur sinn fyrsta æfingaleik í sumar í dag. Leikurinn, sem er við Preston North End, er minningarleikur um Bill Shankly. Bill er auðvitað þekktastur fyrir að vera einn magnaðasti framkvæmdastjóri í knattspyrnusögunni. Hann tók við Liverpool í desember 1959. Liðið var þá í annarri deild en Bill kom því upp vorið 1962 og gerði það að enskum meisturum 1964, 1966 og 1973. Liðið vann F.A. bikarinn undir stjórn hans 1965 og 1974. Hann vann svo fyrsta Evróputitil félagsins þegar það vann Evrópukeppni félagsliða 1973. Bill sagði af sér sem framkvæmdastjori Liverpool sumarið 1974.

Bill er þó ekki einungis hafður í hávegum hjá Liverpool. Hann er líka goðsögn hjá Preston og það segir sína sögu að ein stúkan á Deepdale leikvanginum heitir í höfuðið á Bill. Hann lék 340 leiki með Preston á árunum 1933 til 1949 og varð F.A. bikarmeistari með liðinu 1938. Bill þótti mjög góður leikmaður þegar hann var upp á sitt besta og lék 12 leiki með skoska landsliðinu.

Leikurinn í dag er minningarleikur í tilefni þess að í ár verður öld liðin frá því Bill fæddist. Hann fæddist þann 2. september 1913. Bill lést 29. september 1981. Eftir leikinn í dag fær sigurliðið sérstakan ,,Shankly skjöld" sem sérstaklega var gerður í tilefni leiksins.

Hér má skoða nokkrar myndir frá ferli Bill Shankly á vefsíðu Daily Mail.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan