| Heimir Eyvindarson

Kolo Toure farinn að æfa aftur

Kolo Toure mætti í gær á sína fyrstu æfingu eftir leikinn gegn Notts County. Hann nær hugsanlega leiknum gegn Swansea um næstu helgi.

Hinn 32 ára gamli Toure var borinn út á sjukrabörum í framlengingu leiks Liverpool og Notts County í Deildabikarnum í lok ágúst. Í fyrstu var talið að meiðsl hans væru mjög alvarleg, en fljótlega kom nú í ljós að svo var ekki. Sem betur fer.

Hann er allur að braggast og tók þátt í æfingu á Melwood í gær, þar sem þeir leikmenn sem ekki eru í burtu með landsliðum þjóða sinna voru samankomnir.

Fregnir frá Melwood herma að miðað við framgöngu kappans í gær sé allt eins líklegt að hann verði orðinn leikfær um næstu helgi, þegar fyrrum lærisveinar Brendan Rodgers í Swansea taka á móti okkar mönnum á Liberty Stadium.

Brendan Rodgers mun því hugsanlega þurfa að glíma við hálfgert lúxusvandamál um helgina, þegar kemur að því að velja varnarlínuna - en Martin Skrtel kom gríðarlega sterkur inn í leiknum gegn Manchester United. Brendan fer þó ekki leynt með ánægju sína með Toure og af orðum hans að dæma virðist hann ekki verða í vandræðum með valið. Að minnsta kosti ekki á Toure.

„Toure er einmitt týpan sem maður vill hafa í öftustu línu. Hann er mikill leiðtogi og skipuleggur varnarlínuna vel. Hvort sem hann spilar með Skrtel eða Agger þá erum við í góðum málum."

Rodgers fer reyndar einnig fögrum orðum um Daniel Agger þannig að það verður teljast ansi líklegt að þeir tveir muni verða miðvarðarparið í Wales, að því gefnu að Toure verði orðinn leikfær.

„Daniel er frábær spilari. Hann er einn besti vinstri fótar maðurinn í boltanum, hann er landsliðsfyrirliði og hokinn af reynslu. Þeir tveir eru gríðarlega traustir og hafa bundið vörn okkar vel saman."
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan