| Sf. Gutt

Steven 400 sinnum fyrirliði!

Leikur Liverpool og Swansea City var tímamótaleikur fyrir Steven Gerrard. Hann leiddi þá Liverpool til leiks í 400. sinn. Hann hefur verið fyrirliði Liverpool frá því í október 2003 en þá skipaði Gerard Houllier hann fyrirliða í stað Sami Hyypia. Liverpool vann Olimpija Ljubljana 3:0 í fyrsta leiknum sem Steven leiddi liðið sem opinber fyrirliði. Leikurinn fór fram 15. október og skoruðu Anthony Le Tallec, Emile Heskey og Harry Kewell mörkin.

Steven hafði áður leitt Liverpool nokkrum sinnum og hann bar fyrirliðabandið fyrst í nóvember 2002 þegar Liverpool vann Southampton 3:1 í Deildarbikarleik á Anfield Road. Þeir Patrik Berger, El Hadji Diouf og Milan Baros skoruðu fyrir Liverpool í leiknum. En nú eru fyrirliðaleikirnir orðnir 400 allt í allt. 

Alls hefur Steven leikið 635 leiki með Liverpool og mörkin eru nú 159. Á þssum tölum má sjá hversu mikill leiðtogi Steven er og það segir sína sögu að hann hafi verið fyrirliði í 400 leikjum af þeim 635 sem hann hefur leikið. Hann hefur líka núna verið fyrirliði enska landsliðsins í rúmt ár eftir að Roy Hodgson skipaði hann landsliðsfyrirliða í maí í fyrra.

Hér má sjá myndir frá ferli Steven Gerrard af vefsíðu Liverpool Echo.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan