| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur fer fram á Anfield laugardaginn 26. október.  Mótherjinn að þessu sinni er West Bromwich Albion sem eru eins og flestir þekkja undir stjórn Steve Clarke.  Flautað verður til leiks kl. 14:00 að íslenskum tíma.


Það verður að segjast að Liverpool hafa ekki riðið feitum hesti frá viðureignum sínum við W.B.A. undanfarið, síðustu þrír leikir hafa allir tapast og þar af eru tveir á Anfield.  W.B.A. hafa því farið með sigur af hólmi á Anfield síðustu tvær leiktíðir og þeirri þróun þarf að snúa við hið snarasta !

Flestir muna eftir leiknum á Anfield á síðasta tímabili, okkar menn virtust vera komnir á gott skrið eftir tvö góð jafntefli við Arsenal og Manchester City á útivelli.  Þann 11. febrúar mættu svo Steve Clarke og hans menn á Anfield og fóru með 0-2 sigur af hólmi í leik sem helst er minnst fyrir frábæra frammistöðu Ben Foster í markinu en hann varði oft á tíðum ótrúlega og kórónaði svo leik sinn með því að verja vítaspyrnu frá Steven Gerrard sjálfum !  Eins og svo oft áður skoruðu W.B.A. menn svo eftir fast leikatriði og Romelu Lukaku skoraði svo í blálokin.  En nóg af upprifjun af þessum hörmungaleik, það er óskandi að okkar menn láti þetta ekki koma fyrir aftur.  Þess ber þó að geta að Ben Foster er meiddur og verður ekki með að þessu sinni en Boaz Myhill varamarkvörður félagsins hefur komið sterkur inn og gert vel.


Brendan Rodgers hefur gefið það út að þeir Philippe Coutinho og José Enrique eru ekki klárir í slaginn en Lucas Leiva er það hinsvegar eftir að hafa misst af síðustu tveim leikjum vegna leikbanns annars vegar og fæðingu dóttur hins vegar.  Það er því spurning hvort Rodgers treysti ekki á Brasilíumanninn eins og svo oft áður og líklega verður það Victor Moses sem þarf að víkja úr byrjunarliðinu til að hleypa Lucas að.  Þetta er þó miðað við að sama uppstilling verði fyrir valinu en Rodgers gæti alveg stillt upp annari taktík að þessu sinni, það verður bara að koma í ljós.

Í síðustu sex leikjum liðanna hafa Liverpool unnið fjóra og W.B.A. tvo, eins og áður sagði eru það síðustu tveir leikir liðanna á þessum velli.  Ef litið er á leiki liðanna í Úrvalsdeildinni þá höfðu Liverpool unnið alla leiki liðanna fram til 22. apríl 2012 og W.B.A. aldrei skorað mark á Anfield.  Í raun hafa leikir þessara liða á Anfield alltaf endað með því að tapliðið gengur markalaust af velli við lokaflaut dómarans, við skulum því vona að sú saga haldi áfram á morgun en að þessu sinni komi mörkin réttu megin.


Talandi um mörk réttu megin þá hefur aldrei verið skorað í markið við Kop stúkuna í deildinni á tímabilinu. Það gerðist auðvitað í Deildarbikarleiknum við Notts County en í þeim fjórum leikjum sem hafa verið spilaðir í deild hafa öll mörkin komið á markið við Anfield Road endann.  Furðulegt nokk og ætli það sé ekki kominn tími á að Kop stúkan geti fagnað marki ,,réttu" megin á vellinum.

Þegar litið er á stöðu liðanna í deild má sjá að W.B.A. sitja í 12. sæti en okkar menn í því þriðja.  W.B.A. byrjuðu illa á tímabilinu en hafa verið að rétta úr kútnum og meðal annars sigrað á Old Trafford og gert jafntefli á heimavelli við topplið Arsenal.  Þeir eru vel skipulagðir varnarlega að hætti Steve Clarke og erfitt verður að brjóta þá á bak aftur.  Gestirnir eiga ekki við teljandi meiðslavandræði að stríða en þeir Scott Sinclair, sem er á láni frá Manchester City, Zoltan Gera, áðurnefndur Ben Foster og George Thorne eru allir meiddir og ná ekki þessum leik.

Undirritaður hefur áhyggjur af þessari viðureign enda hefur Steve Clarke sett saman gott lið sem kann að verjast og getur sótt hratt og nýtt þau færi sem skapast.  Það hlýtur þó að vera kominn tími á að liðið skori gegn W.B.A. en það hefur ekki gerst í síðustu þrem deildarleikjum, eins og svo oft áður er það samstarf Luis Suarez og Daniel Sturridge sem ætti að reynast mótherjanum erfitt að eiga við.

Liverpool bera því sigurorð úr býtum að þessu sinni en tæpt verður það, 2-1.  

Fróðleikur:

- Daniel Sturridge er sem fyrr markahæstur í deildinni með 7 mörk í 8 leikjum.

- Síðustu þrír leikir á milli þessara liða í Úrvalsdeild hafa endað með sigri W.BA..

- Liverpool hefur ekki skorað mark í þessum síðustu þrem leikjum gegn W.B.A..

- Alls hefur liðið skorað 13 mörk í deildinni í vetur og er það fjórði besti árangur deildarinnar.

- Liðið hefur svo fengið á sig 7 mörk og versnaði sá árangur eftir síðustu umferð, 6 lið eru með betri eða jafngóðan árangur í deildinni þegar þetta er skrifað.

- W.B.A. hafa skorað 7 mörk og fengið á sig 6 það sem af er.

- Eftir 8 umferðir á síðasta tímabili sat liðið í 12. sæti með 9 stig.








TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan