| Sf. Gutt

Áfram rignir mörkum á Anfield!

Liverpool vann góðan 4:1 sigur á West Ham United í dag og lyfti sér upp í annað sæti deildarinnar. Alls konar furðuleg mörk litu dagsins ljós í Musterinu að þessu sinni. Steven Gerrard fór meiddur af velli.

Stuðningsmenn Liverpool voru enn að tala um fernuna hans Luis Suarez þegar þeir flyktust aftur í Musterið og nú til að horfa á Rauðliða berjast við Hamrana. Eina breytingu varð Brendan Rodgers að gera á liðinu en Daniel Agger var meiddur og Frakkinn Mamadou Sakho kom inn.

Fyrir leikinn var minning Nelson Mandela sem lést á fimmtudaginn heiðruð. Viðstaddir klöppuðu fyrir þessum magnaða baráttumanni í eina mínútu.

Liverpool var ekki sannfærandi á upphafskafla leiksins og það voru gestirnir sem áttu fyrstu hættulegu sóknina eftir 10 mínútur en Modibo Maiga náði ekki til boltans eftir hættulega sendingu fyrir markið. Liverpool fór fram í næstu sókn og Philippe Coutinho sendi frábæra sendingu á Luis Suarez sem komst í góða skotstöðu en skot hans fór beint á Jussi Jaaskelainen. Fimm mínútum seinna náði Liverpool eldsnöggri sókn. Raheem Sterling sendi fyrir á Jordan Henderson en skoti hans var bjargað í horn.
 
Á 21. mínútu sendi Matt Jarvis góða sendingu fyrir frá hægri og hitti beint á höfuðið á Modibo sem náði föstum skalla en Simon Mignolet varði frábærlega með því að slá boltann yfir. Liverpool gekk ekki jafn vel að opna vörn West Ham og Norwich og Luis virtist svolítið þreyttur. En á 41. mínútu sendi Philippe frábæra sendingu á Raheem sem kom boltanum framhjá Jussi en hann rúllaði framhjá. Mínútu síðar skoraði Liverpool loksins. 

Liverpool vann boltann við vítateig West Ham. Glen Johnson skallaði boltann inn í vítateiginn á Luis sem náði skoti sem Jussi varði en heppnin var með Liverpool því boltinn hrökk beint í Guy Demel og í markið. Rétt á eftir náði Liverpool skyndisókn. Raheem, sem var mjög góður, slapp í gegn og skallaði boltann á Luis sem var í upplögðu færi í vítateignum en skaut hátt yfir. Þar fór gott færi. Gestirnir enduðu hálfleikinn með látum en náðu ekki að jafna.
 
Síðari hálfleikurinn gat ekki byrjað betur og eftir tvær mínútur var komið annað mark fyrir Rauðliða. Steven Gerrard tók aukaspyrnu frá hægri og Mamadou Sakho náði að snerta boltann við fjærstöngina og af honum sveif boltinn yfir alla í markið. Furðulegt mark en vel þegið. Á 56. mínútu fór Steven af velli og ljóst var að hann hafði tognað aftan í læri. Hið versta mál!

Í kjölfarið má segja að hver sókn Liverpool hafi rekið aðra og greinilegt var að nú átti að gera út um leikinn. Jordan lagði upp færi fyrir Raheem en hann náði ekki að hitta boltann. Rétt á eftir hitti hann boltann vel úr miðjum teig, eftir sendingu frá Joe Allen en Jussi varði meistaralega í horn. Það kom svo allt í einu mark hinu megin. Sending frá hægri var skölluð til baka og í hamagangi uppi í við markið stýrði Martin Skrtel boltanum í eigið mark. Annað mark hans fyrir mótherja á sex dögum!

Heldur braggaðist West Ham við þetta og eitt skipti munaði litlu uppi við mark Liverpool en Modibo náði ekki að hitta boltann rétt við markið. En þegar níu mínútur voru eftir sendi Glen Johnson frábæra sendingu fyrir af hægri kanti og Luis stangaði boltann í markið úr markteignum. Fallegt samspil áður en Glen gaf fyrir og frábært mark! 

Gestunum féll allur ketill í eld og í næstu andrá lét Kevin Nolan reka sig út af eftir að hafa sparkað Jordan niður. Á 84. mínútu kom svo fjórða markið. Luis fór illa með einn mótherja við vítateiginn og skaut að marki. Heppnin var með honum því boltinn fór í Joey O´Brien í slá og inn. Allt gekk upp og þótt Liverpool hafi þurft að hafa fyrir sigrinum var hann stór og öruggur þegar upp var staðið. Það var nauðsynlegt að vinna þessa tvo síðustu heimaleiki eftir tapið um síðustu helgi og önnur úrslit voru hagstæð þannig að Liverpool endaði daginn í öðru sæti. 

Liverpool: Mignolet, Johnson, Skrtel, Sakho, Flanagan (Kelly 79. mín.), Gerrard (Leiva 56. mín.), Allen, Henderson, Coutinho, Sterling (Moses 72. mín.) og Suarez. Ónotaðir varamenn: Jones, Alberto, Aspas og Cissokho.

Mörk Liverpool: Guy Demel, sm, (42. mín.), Mamadou Sakho (47. mín.), Luis Suarez (81. mín.) og Joey O´Brien, sm, (84. mín.).
 
West Ham United: Jaaskelainen, Demel, Collins, Tomkins (O´Brien 56. mín.), McCartney, Noble, Diame, Downing (J. Cole 46. mín.), Nolan, Jarvis (Taylor 84. mín.) og Maiga. Ónotaðir varamenn: Collison, Adrian, Diarra og C. Cole.


Mark West Ham United: Martin Skrtel, sm, (66. mín.)

Gult spjald: Joe Cole, Guy Demel og James Collins.
 
Rautt spjald: Kevin Nolan (82. mín.).

Áhorfendur á Anfield Road: 44.781.
 
Maður leiksins: Jordan Henderson. Jordan hefur oft leikið vel á leiktíðinn og það gerði hann sannarlega í þessum leik. Hann sýndi líka hversu harður hann er af sér því tvívegis lá hann eftir en reif sig upp í bæði skiptin og hélt áfram.

Brendan Rodgers: Svona leikir reyndust okkur erfiðir á síðasta keppnistímabili. Leikmennirnir eiga hrós skilda því leikirnir virðast núna vera frekar auðveldir. Þetta var góður dagur fyrir okkur. Önnur úrslit voru okkur hagstæð og þegar svo skipast verður maður að reyna að færa sér það í nyt. Við náðum sannarlega að gera það. Stuðningsmennirnir eiga líka hrós skilið því þeir áttu stóran þátt í að hvetja okkur áfram og ná mörkunum inn. Hvatning þeirra var okkur mikils virði. 

                                                                       Fróðleikur.

- Mamadou Sakho skoraði fyrsta mark sitt fyrir Liverpool. 

- Luis Suarez skoraði 14. mark sitt á leiktíðinni.

- Luis er markahæstur í deildinni sem stendur.

- Gestirnir hjálpuðu svo til með tveimur sjálfsmörkum.
 
- Liverpool skoraði fjögur mörk fjórða heimaleikinn í röð.

- Liverpool hefur nú skorað 19 mörk í síðustu fimm leikjum sínum á Anfield.
 
- Luis Suarez hefur nú skorað 29 mörk í síðustu 28 deildarleikjum. 

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér er viðtal sem tekið var við Brendan Rodgers eftir leikinn.

Hér má sjá minningu Nelson Mandela heiðraða fyrir leikinn.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan