| Sf. Gutt

Xabi Alonso kemur ekki

Af og til á síðasta ári gerðu fjölmiðlar á Englandi því skóna að möguleiki væri á því að Xabi Alonso myndi koma aftur til Englands og hugsanlega væri endurkoma til Liverpool í spilunum. Xabi hefur alltaf talað vel um Liverpool frá því hann yfirgaf félagið og þess vegna ekki talið ólíklegt að hann gæti hugsað sér að koma aftur.

En í gær var tilkynnt að Xabi væri búinn að framlengja samning sinn við Real Madrid um tvö ár. Eftir þetta er endurkoma til Liverpool úr sögunni. Reyndar er talið að bæði Chelsea og Manchester City hafi haft áhuga á að fá Xabi í sínar raðir en óvissa hefur verið um framtíð hans hjá Real. Þeirri óvissu hefur nú verið eytt.

Xabi Alonso lék 210 leiki með Liverpool á árunum 2004 til 2009. Xabi varð Evrópumeistari með Liverpool 2005 og eins og allir muna skoraði hann þá í úrslitaleiknum og jafnaði metin 3:3 eftir að hafa fylgt eftir varinni vítaspyrnu sinni. Xabi vann líka Stórbikar Evrópu 2005 og F.A. bikarinn og Skjöldinn 2006. Hann hefur orðið spænskur meistari og bikarmeistari með Real Madrid. Xabi hefur svo verið lykilmaður í spænska landsliðinu og orðið heims- og Evrópumeistari með því. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan