| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool á fjóra leiki eftir í Úrvalsdeild. Hver einasti þeirra verður sannkallaður úrslitaleikur. Á páskadagsmorgun mætir liðið Norwich og má alls ekki misstíga sig. Sjálfur titilinn er í húfi!
Liverpool hefur gengið fáránlega vel með Norwich að undanförnu. Í síðustu þremur leikjum gegn kanarífuglunum hefur liðið alltaf náð að skora heil 5 mörk. Þar hefur munað mestu um Luis Suarez, því í síðustu fjórum leikjum sínum gegn Norwich hefur hann skorað 11 mörk! Það er fáheyrð tölfræði. 

Það er kannski ennþá magnaðra að Suarez mætir ekki á Carrow Road öðruvísi en að setja þrennu! Hann hefur einungis spilað tvo leiki á heimavelli Norwich og í bæði skiptin hefur hann farið algjörlega á kostum. Fyrra skiptið var í apríl 2012, en þá sigraði Liverpool 3-0 með þremur glæsimörkum frá Suarez. Seinni heimsókn Suarez á Carrow Road var síðan í september sama ár, en þá sigraði Liverpool 5-2 og Suarez gerði aftur þrennu! Maður getur þess vegna ímyndað sér að varnarmenn Norwich séu ekkert sérstaklega spenntir fyrir því að fá hann í heimsókn.

Fyrri leikur liðanna á þessari leiktíð fór fram á Anfield í desember og þann leik sigraði Liverpool 5-1. Luis Suarez skoraði 4 mörk í leiknum og lagði upp það fimmta fyrir Raheem Sterling. Eftir leikinn tweetaði Anthony Pilkington leikmaður Norwich eftirfarandi skilaboðum: „ I wish Suarez would just leave us alone. Big Bully!" 

Í ljósi sögunnar og tölfræðinnar myndu því sjálfsagt fáir tippa á það að Liverpool tapaði stigum á Carrow Road á sunnudaginn, en það er kannski einmitt það sem okkar menn þurfa að varast að hugsa of mikið um. Vanmat er alls ekki í boði og sagan hjálpar ekki neitt þegar á hólminn er komið. 

Eftir slakt gengi Norwich liðsins í vetur var Chris Hughton látinn taka pokann sinn, nú í byrjun apríl. Við starfi hans tók Neil Adams. Hann stjórnaði liðinu í fyrsta skipti gegn Fulham um liðna helgi og tókst ekki að færa gengi liðsins til betri vegar. Norwich tapaði leiknum 1-0 og er áfram í bullandi fallbaráttu.

Norwich og Liverpool eru því í sömu stöðu að því leyti að næstu fjórir leikir eru hreinir úrslitaleikir. Norwich liðið á reyndar hrikalegt prógramm það sem eftir er, því eftir viðureignina við okkar menn á páskadag mætir liðið Manchester United, Chelsea og Arsenal! Það er því alveg morgunljóst að kanarífuglarnir selja sig dýrt á sunnudaginn og þeir munu ekki gefa tommu eftir.

Það sást glögglega s.l. miðvikudagskvöld hversu skeinuhætt lið í fallbaráttu geta verið, þegar Manchester City tapaði stigum gegn Sunderland á sínum eigin heimavelli og Crystal Palace hirti öll 3 stigin af Everton. Það væri örugglega mun þægilegra að mæta Norwich og Crystal Palace (sem við mætum í næst síðasta leiknum á leiktíðinni) ef þau sigldu lygnan sjó um miðja deild og hefðu ekki að neinu að keppa.  

Eftir frábæra 10 leikja sigurhrinu er liðið okkar allt í einu í þeirri mögnuðu stöðu að sitja eitt á toppnum með tveggja stiga forystu á næsta lið. Það er því undir okkar eigin leikmönnum komið hvort Captain Fantastic lyftir langþráðum Englandsmeistaratitli á Anfield þann 11. maí.

Strax eftir sigurleikinn magnaða gegn Manchester City s.l. sunnudag safnaði hann liðsfélögum sínum saman og brýndi fyrir þeim mikilvægi þess að vanmeta ekki Norwich. „Næsti leikur er einn af fjórum úrslitaleikjum sem eftir eru", svo vitnað sé beint í fyrirliðann. Það er þetta hugarfar sem verður að vera til staðar, hjá hverjum einasta leikmanni. Þá getur draumurinn ræst! Eða eins og Brendan Rodgers segir; „Ekkert kemur af sjálfu sér, þú verður að láta hlutina gerast".
Það eru hrein og klár forréttindi að vera Liverpool aðdáandi þessa dagana. Eftir 24 ára bið er liðið í fyrsta skipti í alvöru titilbaráttu. Liðið spilar skemmtilegasta fótboltann í deildinni og stjórinn okkar er sá langsvalasti. Sjálfstraust Brendan Rodgers og óbilandi trú hans á að hann sé að gera rétta hluti hefur greinilega smitað út frá sér. Leikmennirnir trúa því að þeir geti unnið hvaða lið sem er. Að þeir geti unnið deildina. Eftir sigurleikinn gegn Southampton 1. mars s.l. sagði hann til að mynda, stútfullur af sjálfstrausti, að hans lið væru alltaf betri á seinni hluta leiktíðar. Þannig yrði það líka núna. Við höfum unnið alla leiki okkar síðan.

Brendan Rodgers hefur svo sannarlega sannað sig í starfi hjá okkar ástsæla félagi, en það er annar maður sem við stuðningsmennirnir elskum jafnvel enn meira. Það er Steven Gerrard. Eftir 16 ára tryggð við félagið, þar sem hann hefur heldur betur gengið í gegnum sætt og súrt, er nú loksins alvöru möguleiki á því að þessi stórkostlegi leikmaður fái að lyfta Englandsmeistaratitlinum langþráða. Hver einasti leikmaður liðsins mun alveg örugglega leggja eitthvað extra á sig í síðustu leikjunum til þess að hann fái að upplifa það móment.
Ég ætla að leyfa mér að trúa því að Liverpool liðið muni fylkja sér bak fyrirliðanum á sunnudaginn og að menn mæti fullir einbeitingar til leiks. Ef það gerist þá hef ég ekki nokkrar áhyggjur af úrslitunum. Liverpool liðið er einfaldlega miklu betra en Norwich. 

Ég spái 3-1 sigri og eigum við ekki bara að segja að Suarez setji enn eina þrennuna á Carrow Road.

YNWA!







TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan