| Heimir Eyvindarson

Þetta er minn möguleiki

Steven Gerrard fer ekki lengur í neinar grafgötur með það að hann mun hugsanlega ekki komast nær því á sínum ferli en einmitt núna, að eiga möguleika á bikarnum langþráða.

„Maður hefur barist áfram í gegnum árin með þá von í brjósti að kannski, einhvern daginn muni maður eiga möguleika á að vinna deildina. Nú fer að líða að lokum á mínum ferli og það er frábært að vera í þessari stöðu."

„Tilfinningarnar og taugastríðið sem fylgir því að vera í þessari stöðu eru forréttindi. Maður veit það að maður hefur sjálfur komið sér í þá stöðu að þurfa að glíma við þessa spennu. Það sem skiptir mestu máli fyrir mig á lokametrunum er hvernig ég höndla tilfinningarnar og spennuna sem fylgir okkar stöðu."

„Þetta hefur oft verið erfitt og ég viðurkenni það að stundum hef ég verið nálægt því að gefast upp. Gefa vonina endanlega upp á bátinn. Það er erfitt að lenda í 7. og 8. sæti í deildinni og horfa upp á bilið milli okkar og efstu liðanna halda áfram að breikka. Ríkustu liðin héldu áfram að kaupa dýra leikmenn og styrkja hópana meðan við sátum eftir."

„En stjórinn hefur alltaf haft trú á því sem við erum að gera og hann hefur alltaf vitað að við gætum náð mjög langt. Hann hefur aldrei sagt að okkar eina takmark væri að ná einu af fjórum efstu sætunum, en hann hefur vissulega sagt að það sé okkar aðalmarkmið."

„Ég kunni strax vel við Brendan þegar hann kom. Hann veit fullkomlega hvernig hann vill að liðið spili og að hverju á að stefna. Ég hef tröllatrú á honum og hef haft það síðan á fyrsta degi."

„Hann er ótrúlegur stjóri og það er í raun alveg magnað að hann skuli ekki vera eldri (41). Ég held að hann verði einn allra besti stjórinn í heiminum og ég vona svo sannarlega að hann verði hér lengi. Hvernig sem baráttan fer núna á lokametrunum þá er það alveg klárt mál að klúbburinn er í góðum höndum."

„Hann er sigurvegari. Hann er sólginn í árangur og hann er frábær við okkur leikmennina. Hann gerir þá hluti sem snúa að leikmönnum og liðinu mjög vel og er ekki að skipta sér of mikið af öðrum hlutum hjá félaginu. Hann er mjög einbeittur í því sem hann er að gera."

„Nú er Norwich leikurinn næstur á dagskrá. Við þurfum að gera það sama og við höfum gert í undanförnum leikjum. Spila vel og taka öll stigin. Planið er auðvitað að vinna alla leikina sem við eigum eftir, en það verður erfitt. Þetta snýst að miklu leyti um það hvernig okkur tekst að höndla spennuna. Við verðum að einbeita okkur að einum leik í einu. Nú er það Norwich og þá þýðir ekki að hugsa um Chelsea, Crystal Palace og Newcastle."  

„Ég elska að sjá brosið á andlitum stuðningsmannana þessa dagana. Ég elska að sjá að þeir láta sig dreyma. Ég elska að sjá að þeir hafa trú á okkur, það er frábært. Við höfum ekki upplifað þessar tilfinningar í langan tíma. Við höfum átt eitt og eitt gott kvöld í bikarkeppnum og þessháttar, en þetta er öðruvísi. Nú er sjálfur deildarmeistarabikarinn í augnsýn."

„Ég horfi á Manchester United og þann gríðarlega árangur sem það lið hefur náð á síðustu árum og áratugum. Svo ganga þeir skyndilega í gegnum tímabil eins og núna þar sem fátt gengur upp. Hlutirnir eru fljótir að breytast í boltanum. Það væri afar heimskulegt af mér að halda því fram að ef við náum ekki að vinna deildina í ár þá gerum við það bara á næsta ári. Þetta er ekki þannig. Maður veit aldrei hvernig deildarkeppnin þróast. Nú er tækifærið."
„Ég vissi ekki að myndavélarnar væru svona nálægt eftir Manchester City leikinn. Viðbrögð mín eftir þann leik voru hlaðin allskonar tilfinningum, þetta var tilfinningaþrungin vika fyrir alla Liverpool menn. En nú eigum við alvöru möguleika á því að vinna deildina og við hreinlega verðum að standa í lappirnar og klára málið. Það er mitt hlutverk að fara undan með góðu fordæmi. Vera jákvæður og yfirvegaður. Ég er klár í slaginn", segir fyrirliðinn magnaði að lokum.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan