| Sf. Gutt

Breyttist í Ítala!

Einhverjir stuðningsmenn Liverpool hafa líklega kannast við nafnið Gabriel Paletta þegar þeir sáu ítalska landsliðið leika gegn Englandi á dögunum. Þetta var vissulega sami Gabriel sem kom til Liverpool árið 2006 en var hann ekki argentínskur? Jú, Gabriel fæddist í Argentínu og lék þar með undir 20 ára landsliðinu. 



Árið 2005 var Gabriel í liði Argentínu sem vann heimsmeistarakeppni ungliða. Argentína vann keppnina og í liðinu voru efnilegir piltar á borð við Lionel Messi og Sergio Aguero. Gabriel þótti standa sig mjög vel í keppninni og vakti athygli útsendara ýmissa félaga meðal annars Liverpool. 

Gabriel, sem lék fyrst með Banfield í Argentínu, hafði getið sér gott orð sem efnilegur miðvörður og Liverpool fékk hann til liðs við sig árið 2006. Hann afrekaði að skora í sínum fyrsta leik með Liverpool í 4:3 Deildarbikarsigri á Reading. Hann er einn fárra varnarmanna í sögu Liverpool til að skora í sínum fyrsta leik. 


Gabriel var greinilega ekki tilbúinn í ensku knattspyrnuna, lék aðeins eina leiktíð með Liverpool og fór heim til Argentínu til liðs við Boca Juniors 2007. Hann lék átta leiki með Liverpool og skoraði einu sinni. Honum vegnaði vel með Boca og sumarið 2010 var hann keyptur til Parma.

Gabriel hefur síðar sagt að hann hafi farið of snemma í burtu frá Argentínu. En á hinn bóginn hefði hann kannski átt að reyna að vera lengur hjá Liverpool en hann sagðist hafa verið einmana og ekki kunnað við sig á Englandi þar sem kuldinn hjálpaði ekki til!

Gabriel Paletta hefur leikið mjög vel á Ítalíu og svo vel að hann var valinn í ítalska landsliðið. Þó hann væri fæddur í Argentínu og búinn að spila með yngra landsliði þar í landi var hann löglegur með Ítalíu en langafi hans var frá Ítalíu. Gabriel var svo valinn í HM hóp Ítala og stóð vaktina í vörninni á móti Englandi um daginn. Hann hefur hingað til leikið þrjá landsleiki fyrir hönd Ítala.

  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan