| Sf. Gutt

Það var fyrir 10 árum!

Þann 14. ágúst 2004 fóru fram ein eftirminnilegustu vistaskipti í sögu Liverpool á seinni tímum. Michael Owen fór til Real Madrid, ætlaði að koma aftur heim til Liverpool en það varð aldrei.  

Stuðningsmönnum Liverpool sárnaði mjög þegar Michael Owen ákvað rétt áður en leiktíðin 2004/05 hófst að fara til Real Madrid. Rafael Benítez var þá nýtekinn við og fannst mörgum að Michael hefði átt að sýna félaginu sínu meiri hollustu á þeim tímapunkti. Kaupverðið var aðeins átta milljónir sterlingspunda og svo fékk Liverpool Antonio Nunez í skiptum en hann náði aldrei að standa undir nafni.

Michael hefur síðar sagt að hann hafi aldrei ætlað sér frá Liverpool en þegar forráðamenn Real Madrid settu sig í samband við hann varð freistingin of mikil. Hann sagði að hann myndi líklega alltaf hafa séð eftir því að láta ekki reyna á sig í öðru landi. Á hinn bóginn ætlaði hann sér alltaf að koma aftur til Liverpool.

Eftir eina leiktíð á Spáni, sem gekk nokkuð vel, var Michael aftur til sölu og Liverpool reyndi að fá hann. En þá komu forráðamenn Newcastle United og settu allar áætlanir um endurkomu Michael í uppnám. Þeir buðu Real miklu hærra kaupverð en Liverpool gat borgað. Þeir buðu 17 milljónir og það kom aldrei til mála að Liverpool borgaði þá upphæð þar sem þeir höfðu aðeins fengið átta milljónir fyrir hann ári áður. Michael lenti þar með í atburðarás sem hann hafði ekki alveg stjórn á sjálfur og endaði í Newcastle þar sem mikil meiðsli gerðu honum erfitt fyrir. 

Michael fór svo til Manchester United, af öllum félögum, sumarið 2009 en þá var Newcastle fallið úr efstu deild. Þá vildi hann komast aftur til Liverpool en Rafael Benítez vildi ekki fá hann. Sumir segja að Rafael hafi ekki fyrirgefið Michael að hann skyldi fara frá Liverpool og fara svo til Newcastle frá Real.  

Michael Owen lék svo sína síðustu leiktíð 2012/13 með Stoke City. Bestu ár ferilsins átti Micahel hjá Liverpool og ferill hans náði aldrei aftur sömu hæðum eftir að hann fór þaðan. Margir stuðningsmenn Liverpool hafa enn ekki tekið hann í sátt vegna þess að hann fór til Manchester United. Hann er þó smá saman að komast í betri sátt við sína fyrrum stuðningsmenn og hann hefur nú sagt sína sögu um hvernig allt var. Michael, sem skoraði hvorki fleiri né færri en 158 mörk fyrir Liverpool, ætlaði sér alltaf að koma aftur til uppeldisfélagsins þegar hann gekk til liðs við Real Madrid 14. ágúst 2004 en það fer ekki alltaf allt sem ætlað er! 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan