| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Byrjun Liverpool á þessu keppnistímabili hefur valdið vonbrigðum. Liðið hefur verið ósannfærandi og lítið farið fyrir kraftinum sem einkenndi það á liðinni leiktíð. Eftir tvo sigra í fyrstu þremur leikjunum hefur ekki unnist leikur í þremur síðustu. Liverpool spilaði reyndar prýðilega á móti Everton um síðustu helgi en undramark í viðbótartíma rændi sigri sem hefði verið fyllilega sanngjarn. Evróputap í Sviss kom svo eins og vatnsgusa framan í alla. 


En hvernig stendur á því að svona illa gengur? Jú, vissulega er Luis Suarez farinn en fjarvera Daniel Sturridge síðasta mánuðinn hefur ekki skipt minna máli. Daniel er fullt eins mikilvægur fyrir Liverpool og Luis og kannski réði fjarvera hans í desember í fyrra úrslitum um að Liverpol vann ekki titilinn.

Annað skiptir miklu og það er hversu margir nýir leikmenn eru í liðinu. Þetta eiga allt að geta verið góðir leikmenn og kannski verða einhverjir þeirra  lykilmenn þegar fram líða stundir. En það er alltaf erfitt að láta svona marga nýja menn koma inn í lið í einu. Sérstaklega er vörnin nýleg og hún er óörugg fyrir vikið. Simon Mignolet virðist hafa misst sjálfstraustið og flest sem kemur á markið lekur eða þá flýgur inn.

Svo bætist við að líklega sitja vonbrigðin frá síðasta vorið í þeim leikmönnum sem þá voru í liðinu. Það virðist því vera sem svo að allt sé að leggjast á eitt með að liðið er svo lífslaust miðað við síðustu leiktíð. Steven Gerrard gagnrýndi liðið sitt eftir tapið í Sviss og vonandi skilar sú gagnrýni sér í dag í bættum leik liðsins. Það verður að fara koma gangur í liðið því það er komið fram í október.   

West Bromwich Albion kemur í heimsókn eftir hádegið og þeim sem finnst gaman að liðið sitt spili á hefðbundnum leiktíma geta glaðst því leikur hefst á Anfield klukkan tvö eða þá þrjú að staðartíma. Þetta er nú sá leiktími sem ég persónulega hef mest gaman af. Líklega er ástæðan sú að þegar ég byrjaði að fylgjast með ensku knattspyrnunni byrjuðu allir leikir á þessum tíma. 


W.B.A. hefur unnið tvo af síðustu þremur leikjum sínum á Anfield en í fyrra má segja að gott gengi Liverpool hafi byrjað með stórsigri 4:1 á Baggies í Musterinu. Að minnsta kosti komst Luis Suarez í gang. Hver man ekki eftir magnaðri þrennu hans og glæsilegri vippu Daniel Sturridge? Luis er farinn og alls óvíst er að Daniel spili en hann er að skríða saman eftir meiðslin sem hann varð fyrir á æfingu enska landsliðsins í síðasta mánuði. 


Ég get ekki annað en spáð því að Liverpool vinni. Liðið verður að komast á skrið en það verður ekkert auðvelt því W.B.A. hefur staðið sig mjög vel í síðustu leikjum og unnið tvo í röð. En Liverpool herjar fram 2:0 sigur með mörkum þeirra Mario Balotelli og Rickie Lambert. Þetta hlýtur að fara að koma!

Vissir þú?





Á leiktíðinni 2010/ stjórnaði Roy Hodgson báðum þessum liðum gegn hvort öðru. Fyrst stýrði hann Liverpool til 1:0 sigurs á Anfield með marki Fernando Torres. Þegar að seinni leiknum kom var hann orðinn framkvæmdastjóri W.B.A. og aftur vann liðið sem Roy stjórnaði nú 2:1. 

YNWA

Hér má horfa á Brendan Rogders ræða málin fyrir leikinn. 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan