| Heimir Eyvindarson

Eins marks tap á Santiago Bernabéu

Liverpool heimsótti ríkjandi Evrópumeistara Real Madrid á Santiago Bernabéu í kvöld. Brendan Rodgers stillti upp hálfgerðu varaliði og margir áttu von á niðurlægingu. Svo fór þó ekki.

Brendan Rodgers gerði fjölmargar breytingar á liði sínu frá tapleiknum gegn Newcastle um helgina og stillti að margra dómi upp hálfgerðu varaliði í Madrid í kvöld. Dejan Lovren var skilinn eftir heima og á bekknum í upphafi leiks sátu Steven Gerrard, Raheem Sterling, Glen Johnson, Jordan Henderson, Coutinho og Balotelli sem allir voru í byrjunarliðinu gegn Newcastle. Kolo Toure var í miðju varnarinnar ásamt Martin Skrtel og Fabio Borini einn á toppnum. 

Fjölmargir stuðningsmenn Liverpool voru mættir til Madrid og létu vel í sér heyra. Oftar en ekki náðu þeir að yfirgnæfa stuðningsmenn heimamanna, sem þó voru vitanlega í miklum meirihluta. Undir lok leiksins heyrðist síðan You´ll never walk alone óma um allan völlinn. Frábær frammistaða The Travelling Kop og co.

Liverpool liðið átti í vök að verjast á fyrstu mínútum leiksins. Strax á 4. mínútu þurfti Mignolet að taka á honum stóra sínum, þegar hann varði gott skot James Rodriguez.

Örfáum mínútum síðar varði Belginn aftur glæsilega, í þetta skiptið frá Christiano Ronaldo sem fékk boltann frá Benzema eftir afleita móttöku Martin Skrtel. Liverpool stálheppið að vera ekki komið 1-2 mörkum undir á fyrstu 10 mínútunum.

Eftir því sem á leið komust gestirnir frá Liverpool aðeins betur inn í leikinn. Eins og svo oft áður vantaði samt talsvert upp á að liðið skapaði einhverja hættu. Leikmenn héldu boltanum ágætlega úti á miðjum vellinum, en þegar nær dró marki andstæðinganna var lítið að gerast. 

Á 27. mínútu skoraði Karim Benzema síðan fyrsta mark leiksins. Marcelo átti þá frábæra sendingu inn í teiginn framhjá Skrtel og Toure, fyrir lappirnar á Frakkanum sem lagði hann af miklu öryggi í netið. Staðan orðin 1-0 fyrir heimamenn á Santiago Bernabéu.

Það sem eftir lifði hálfleiksins var kannski sæmilegt jafnræði með liðunum, en Real átti þó hættulegri spretti. Staðan 1-0 í hálfleik og „B-lið" Liverpool gat borið höfuðið sæmilega hátt, þrátt fyrir að vera undir.

Síðari hálfleikur fór heldur rólega af stað og okkar menn voru síst lakari aðilinn á vellinum á upphafsmínútunum. Að vísu komu kæruleysislegar sendingar Skrtel og Lucas Leiva okkar mönnum stundum í vandræði, en það slapp til.

Á 56. mínútu leit svo fyrsta markskot Liverpool í leiknum dagsins ljós. Þar var Alberto Moreno að verki af 16-17 metra færi, en skotið olli Iker Casillas engum vandræðum. Tveimur mínútum síðar átti Moreno svo fína sendingu á Lallana sem tók laglegan snúning á vítateigshorninu og náði ágætu skoti að marki, en boltinn fór framhjá. Liverpool að komast betur inn í leikinn.

Á 61. mínútu tók Fabio Borini ágæta aukaspyrnu af um 30 metra færi, eftir að dómarinn hafði líklega ranglega spjaldað Sergio Ramos fyrir tæklingu á Ítalanum. Boltinn fór af varnarmanni Real og aftur fyrir og Liverpool fékk hornspyrnu.

Um þetta leyti leit Liverpool liðið ágætlega út, en þá var eins og heimamenn hefðu ákveðið að mæta aftur til leiks og næstu 10-15 mínútur voru hrein eign Evrópumeistaranna. 

Kolo Toure henti sér hetjulega fyrir skot Ronaldo inni í teig, Isco fékk frítt færi eftir frábæra sendingu frá Ronaldo, Bale skaut í slána af stuttu færi, Benzema skaut framhjá af stuttu færi og svo mætti lengi telja. Það er ekki hægt annað en að hrósa okkar mönnum fyrir það að standa af sér þessa orrahríð. 

Eftir þennan 10-15 mínútna erfiða kafla náði Liverpool liðið aftur vopnum sínum og sýndi oft ágæta takta, án þess þó að koma Real mönnum í verulegan vanda.

Okkar menn reyndu hvað þeir gátu að jafna metin, en réðu ekki við Evrópumeistarana. Niðurstaðan í Madrid sanngjarn 1-0 sigur heimamanna, en Liverpool getur þrátt fyrir tapið borið höfuðið býsna hátt eftir fína frammistöðu í kvöld.

Liverpool: Mignolet, Manquillo, Skrtel, Toure, Moreno, Lucas (Gerrard á 69. mín.), Lallana, Can (Coutinho á 75. mín.), Allen, Borini, Markovic (Sterling á 69. mín.). Ónotaðir varamenn: Jones, Johnson, Henderson, Sterling, Coutinho, Gerrard og Balotelli.

Gul spjöld: Skrtel, Moreno.

Real Madrid: Casillas, Marcelo, Arbeloa (Nacho á 83. mín.), Varane, Ramos, Modric, Kroos, Rodriguez (Bale á 62. mín.), Isco, Ronaldo, Benzema (Hernandez á 87. mín.). Ónotaðir varamenn: Navas, Pepe, Hernandez, Nacho, Madran, Bale og Torro. 

Mark Real Madrid: Benzema á 27. mín. 

Gul spjöld: Rodriguez, Marcelo, Ramos.

Maður leiksins: Það er nokkuð langt síðan jafn margir leikmenn Liverpool gerðu tilkall til þessarar nafnbótar. Borini var gríðarlega vinnusamur og hreyfanlegur frammi, Lallana var öflugur á miðjunni, Alberto Moreno mjög sprækur á kantinum og Kolo Toure allsráðandi í vörninni. Simon Mignolet fær þó mitt atkvæði að þessu sinni. Hann lék líklega sinn besta leik í vetur, varði nokkrum sinnum mjög vel og gat lítið gert við markinu. Vonandi gefur frammistaðan í kvöld honum aukið sjálfstraust.  

Brendan Rodgers: Ég er stoltur af leik liðsins í kvöld. Vissulega töpuðum við, en við vorum inni í leiknum allan tímann. Við vörðumst vel og höfðum líka hugrekki til þess að halda boltanum og reyna að skapa okkur færi. Frammistaðan í kvöld lofar góðu upp á framhaldið.  

Fróðleikur:

-Þetta var 2. sigur Real Madrid á Liverpool í Evrópukeppninni. Fyrri sigurinn kom eins og menn muna á Anfield fyrir hálfum mánuði.

-Fram að því hafði Liverpool unnið allar viðureignir liðanna í Evrópukeppnum. Fyrst í úrslitaleik Evrópukeppni Bikarhafa 1981, þegar Alan Kennedy tryggði Rauða Hernum 1-0 með þrumuskoti frá vítateigshorni. Síðan vann Liverpool tvo frækna sigra á Real í 16 liða úrslitum meistaradeildarinnar tímabilið 2008-2009. 1-0 á Santiago Bernabéu og 4-1 á Anfield.

-Þess má einnig geta að þetta er í fyrsta sinn á þessari leiktíð sem Real Madrid skorar ekki 2 mörk eða fleiri á Bernabéu. 

Hér má sjá myndir úr leiknum. 

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan