| Sf. Gutt

Þrjú töp í röð

Það gengur hvorki né rekur hjá Liverpool um þessar mundir. Í dag tapaðist þriðji leikurinn í röð þegar topplið Chelsea fór heim eftir að hafa unnið 1:2.

Brendan Rodgers var mikið í umræðunni eftir uppstillingu sína í Madríd og í ljós kom að hún var mikið til úthugsuð með leikinn við Chelsea í huga. Að minnsta kosti komu þeir sterkustu menn liðsins, sem ekki byrjuðu í Madríd, aftur inn í liðið. Sumir stuðningsmenn Liverpool töldu að einhverjir af þeim sem fengu óvænt tækifæri gegn Real Madrid hefðu átt að halda sætum sínum miðað við hvernig þeir spiluðu þar.

Liverpool hóf leikinn vel og strax á fyrstu mínútunni átti Emre Can langskot sem fór í varnarmann og rétt framhjá markinu í horn. Þjóðverjinn gaf þarna tóninn því á 9. mínútu endurtók hann leikinn. Fast skot hans af hátt í 30 metra færi fór í Gary Cahill og af honum í markið.

Sælan entist þó of stutt. Fimm mínútum síðar fékk Chelsea horn. John Terry skallaði að markinu en Simon Mignolet varði vel. Leikmenn Chelsea voru grimmari í frákastinu og Gary Cahill náði að skjóta. Simon fékk boltann í fangið en var ekki í jafnvægi, féll aftur á bak og með boltann í markið. Slysalegt eins og svo til öll mörkin sem Liverpool er að fá á sig núna.

Liverpool spilaði býsna vel og það var kraftur í leikmönnum liðsins. Það var þó greinilegt að sjálfstraustið sem er í Chelsea hafði sitt að segja. Um miðjan hálfleikinn tók Philippe Coutinho rispu fram völlinn og átti gott skot frá vítateignum. Thibaut Courtois varði vel en hélt ekki boltanum. Enginn leikmaður Liverpool var þó til að fylgja á eftir.  

Undir lok hálfleiksins voru leikmenn Chelsea mjög ákveðnir. Eden Hazard komst tvívegis í skotfæri en í bæði skiptin komst Glen Johnson fyrir skot hans. Belginn átti svo skot sem Simon varði vel. Staðan var jöfn 1:1 í leikhléi og stuðningsmenn Liverpool gátu verið nokkuð ánægðir með sitt lið.

Liverpool fékk fyrsta færið eftir hlé. Á 53. mínútu lék Raheem Sterling sig í færi vinstra megin og átti gott skot sem Thibaut gerði vel í að verja. Chelsea rauk fram og Eden komst í færi en vörn Liverpool stoppaði skotið. Eftir þetta gerðist fátt markvert lengi vel. Það var jafnt á með liðunum en næsta mark kom frá Chelsea.

Á 67. mínútu lék Cesar Azpilicueta upp vinstra megin. Hann lék á Philippe, sem varðist ekki nógu vel, sendi fyrir markið og boltinn rataði til Diego Costa sem smellti honum framhjá fjölda manns í markið. Kjaftshögg fyrir Liverpool og ekki hefði verið slæmt að hafa Diego með sér eins og svo litlu munaði fyrir rúmu ári þegar hann íhugaði að ganga til liðs við Liverpool. 

Liverpool var nú komið undir og það hefur reynst liðinu erfitt á leiktíðinni. Það vantaði ekki að leikmenn börðust vel en það gekk ekkert. Þegar stundarfjórðungur var eftir átti Jordan Henderson skot í varnarmann og af honum fór boltinn rétt framhjá. Þegar tæpar fimm mínútur voru eftir átti svo Steven Gerrard skot sem Gary Cahill henti sér fyrir og varði með hendi inni í vítateignum. Af óskiljanlegum ástæðum dæmdi dómarinn ekkert og það með var leikurinn tapaður. Liverpool átti ekki skilið að tapa honum en svona gengur þegar allt er í móti. Liverpool hefur nú tapað þremur leikjum í röð. Staðan er orðin mjög alvarleg!

Liverpool: Mignolet, Johnson, Skrtel, Lovren, Moreno; Gerrard; Can (Allen 70. mín.), Henderson; Coutinho (Borini 70. mín.), Sterling og Balotelli (Lambert 79. mín.). Ónotaðir varamenn: Jones, Toure, Lallana og Leiva.

Mark Liverpool: Emre Can (9. mín.).

Gul spjöld:
 Raheem Sterling og Mario Balotelli. 

Chelsea: Courtois; Ivanovic, Cahill, Terry, Azpilicueta; Matic, Fabregas, Ramires (Willian 54. mín.), Oscar 7, Hazard 8 (Luis 90. mín.) og Costa (Drogba 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Cech, Zouma, Mikel og Remy.

Mörk Chelsea: Gary Cahill (14. mín.) og Diego Costa (67. mín.).

Gul spjöld: Thibaut Courtois, Branislav Ivanovic, Diego Costa, Oscar og Nemanja Matic.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.698.

Maður leiksins: Emre Can. Þjóðverjinn var mjög öflugur lengi vel og lagði sig allan fram. Hver veit nema að hann eigi eftir að koma til sem góð kaup?

Brendan Rodgers: Svona er staðan bara núna. Ekkert fellur með okkur og þetta hefur verið erfið vika hvað úrslitin varðar. Leikmennirnir eru ákveðnir og leggja sig alla fram en heppnin sem þarf er ekki með okkur. 

                                                                                           Fróðleikur

- Emre Can skoraði í fyrsta sinn fyrir Liverpool. 

- Liverpool hefur nú tapað þremur síðustu leikjum. 

- Liverpool hefur tapað þremur síðustu leikjum sínum við Chelsea.

- Glen Johnson spilaði sinn 180. leik með Liverpool. Hann hefur skorað átta mörk.  

Hér eru
 myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan