| Heimir Eyvindarson

Hver man ekki eftir Vegard Heggem?

Norski bakvörðurinn Vegard Heggem, sem lék með Liverpool á árunum 1998-2003, fylgist afar vel með Liverpool og er eins og við hin afar spenntur fyrir innkaupum sumarsins hjá Jürgen Klopp. 

Vegard Heggem lofaði mjög góðu á fyrstu tveimur leiktíðum sínum hjá Liverpool, en þrálát meiðsli gerðu feril hans að engu. Hann fylgist mjög vel með Liverpool og er tíður gestur á leikjum liðsins. Í viðtali við Liverpool.no sem birt er í dag tjáir hann sig um ýmislegt sem tengist Liverpool liðinu og er til dæmis þeirrar skoðunar að fyrirliði liðsins sé ekki nægilega sterkur knattspyrnumaður fyrir rauðu treyjuna. 

„Það verður spennandi að sjá innkaupin hjá Klopp í sumar. Ég er ánægður með að það sé búið að ná í nýjan markvörð, en svo verður reyndar bara að koma í ljós hvort Karius sé nógu sterkur fyrir liðið. Það þarf að minnsta kosti að styrkja þá stöðu."

„Annars er ég mest spenntur fyrir því að sjá hvort miðjan verður ekki styrkt verulega. Ég er á því að Henderson, Lucas og Allen séu ekki nægilega sterkir fyrir Liverpool, allavega ekki neinir lykil-leikmenn. Mér finnst Emre Can hafa alla burði til að verða slíkur leikmaður. Hann hefur sýnt það að hann getur spilað á hæsta level, en hann dettur líka talsvert niður inn á milli."

„Á góðum degi er Can á pari við þá bestu, en það eru alls ekki alltaf góðir dagar hjá honum. Ég er mjög forvitinn að vita hvernig Klopp sér hann fyrir sér, sjálfur er ég ekki viss um að hann verði lykil-leikmaður en hann hefur ótvíræða hæfileika. Ég myndi gjarnan vilja að það yrði keyptur topp miðjumaður í sumar og miðjan yrði byggð upp í kringum þann mann og Can, en ég fylgist ekki nógu vel með öðrum liðum til þess að geta nefnt nein gáfuleg nöfn í því sambandi."

„Svo er maður auðvitað forvitinn með það hvernig Klopp sér Daniel Sturridge fyrir sér og yfirhöfuð hvernig þeim gengur að vinna saman. Við vitum að Sturridge er frábær framherji, en er hann nógu likamlega sterkur til þess að spila eins og Klopp vill að sínir framherjar spili. Það veit maður ekki."

„Ég er ánægður með Divock Origi og ég held að við höfum gert mjög góð kaup í honum. Hann hefur alla burði til að verða heimsklassa framherji, en hann er ennþá ungur þannig að það er viðbúið að það verði hæðir og lægðir hjá honum fyrsta kastið."

„Ég er mjög spenntur að sjá hvernig Klopp mun ganga að móta liðið. Ég held að félagið hafi verið ótrúlega heppið að fá hann sem stjóra og mér finnst byrjunin lofa góðu. Það hefur verið frábært að fylgjast með liðinu á köflum, en það hefur líka dottið niður í doða inn á milli. Til dæmis var verulega svekkjandi að horfa upp á stemninguna í liðinu frá áhorfendapöllunum í Basel. Maður fann einhvernveginn hvernig það var allt í einu allur vindur úr liðinu í seinni hálfleik. Líka Klopp, því miður. Hann var óvenju passívur á hliðarlínunni."

„Ég bind miklar vonir við næsta tímabil. Auðvitað gerir maður það alltaf, en ég er mjög bjartsýnn núna. Úr því að svo fór sem fór þá verður að líta á það sem kost að vera ekki með í Evrópukeppni, það ætti að bæta samkeppnisstöðu okkar í deildinni. Það væri gaman að ná góðu tímabili í Úrvalsdeild, það er alltaf það sem maður vonast eftir."



 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan