| Sf. Gutt

Jafnt í Moskvu

Liverpool sótti stig til Moskvu þegar liðið gerði 1:1 jafntefli við Spartak. Liverpool fékk fjölda góðra færa til að vinna en það tókst ekki að vinna fyrsta Meistaradeildarsigurinn.

Í fyrsta skipti gat Jürgen Klopp teflt fram þeim Philippe Coutinho, Roberto Firmino, Sadio Mané og Mohamed Salah saman í framlínunni. Stuðningsmenn Liverpool voru sannarlega spenntir fyrir að sjá þessa saman. Loris Karius tók stöðu í markinu eins og áður hafði verið gengið frá. 

Líkt og í síðustu leikjum var Liverpool strax í sóknarhug. Fyrsta færið kom eftir rúman stundarfjórðung þegar Sadio Mané sendi fyrir frá vinstri. Roberto Firmino, sem lék sinn 100. leik, skallaði en Artem Rebrov varði vel. Hann hélt ekki boltanum en varnarmaður komst fyrir þegar Mohamed Salah reyndi markskot. 

Eins og stundum áður á leiktíðinni skoruðu mótherjar Liverpool úr fyrstu marktilraun sinni sem kom á 23. mínútu. Emre Can missti boltann klaufalega og upp úr því fengu heimamenn aukaspyrnu fyrir utan vítateiginn. Leikmönnum Liverpool fannst að brotið væri saklaust. Fernando tók aukaspyrnuna og sendi boltann beinustu leið í markið. Loris Karius var illa á verði og átti að verja skotið sem var alls ekki út við stöng og boltinn skammt frá Þjóðverjanum. 

Það tók Liverpool stuttan tíma að jafna. Á 31. mínútu spiluðu þeir Sadio og Philippe eldsnöggt saman við vítateiginn. Philippe slapp inn í vítateiginn og þrumaði í mark frá markteigshorninu. Vel útfært mark og Brasilíumaðurinn er kominn á skrið hafi menn haldið að hann myndi slá slöku við eftir ruglið í sumar. 

Á 38. mínútu gaf Jordan Henderson góða sendingu fyrir en Roberto hitti ekki boltann fyrir opnu marki. Á lokamínútu hálfleiksins fengu heimamenn horn. Liverpool sneri vörn í sókn og fjórir leikmenn Liverpool geystust fram á móti tveimur varnarmönnum en lokasendingin misfórst og Spartak slapp. Þarna átti að skora eins og stundum áður í þessum leik og þeim sem á undan hafa gengið. Jafnt í hálfleik. 

Liverpool sótti linnulaust allan síðari hálfleikinn en opin færi létu á sér standa. Artem, sem var búinn að vera frábær í markinu, varð að fara af velli vegna meiðsla sem hann varð fyrir þegar félagi hans hrinti Mohamed á hann. Þar hefði átt að dæma víti og Egyptanum var líka hrint í fyrri hálfleik. Þá hefði líka verið hægt að dæma víti. Aleksandr Selikhov kom í markið í stað Artem og var jafn góður.

Daniel Sturridge, sem kom inn á sem varamaður, átti skot við vítateignn á 78. mínútu en boltinn fór framhjá. Rétt á eftir skaut Roberto himinhátt yfir rétt við vítateigslínuna eftir að hann náði boltanum af leikmanni Spartak. Upplagt færi. Á lokamínútunni sendi Jordan fyrir. Daniel fékk boltann í dauðafæri en skaut yfir. Viðbótartíminn var drjúgur vegna meiðsla markmannsins og í þeim tíma varði varamarkmaðurinn stórvel skalla frá Mohamed. Allt á sömu bókina lært og leiknum lauk með jafntefli. 

Þessi leikur var svipaður og flestir í þessum mánuði. Liverpool sótti og sótti, skapaði sér upplögð færi en ekkert gekk að skora. Liðið spilaði býsna vel og hafði mikla yfirburði en á meðan færanýtingin er svona slök er ekki von á góðu!

Spartak Moscow : Rebrov (Selikhov 67. mín.), Eschenko, Tasci, Kutepov, Bocchetti, Dzhikiya, Fernando, Pasalic, Samedov (Neves 90. mín.), Popov (Melgarejo 84. mín.) og Adriano. Ónotaðir varamenn: Petkovic, Bakaev, Samsonov og Davydov.

Mark Spartak: Fernando (23. mín.).

Gult spjald: Salvatore Bocchetti.

Liverpool: Karius, Alexander-Arnold, Lovren, Matip, Moreno, Henderson, Can (Wijnaldum 73. mín.), Coutinho, Salah, Firmino og Mane (Sturridge 70. mín.). Ónotaðir varamenn: Mignolet, Milner, Klavan, Oxlade-Chamberlain og Flanagan.

Mark Liverpool: Philippe Coutinho (31. mín.).

Gul spjöld: Emre Can og Roberto Firmino.

Áhorfendur á Otkrytiye Arena:
 43.376.

Maður leiksins: Philippe Coutinho var mjög sprækur. Hann herjaði látlaust á vörn Spartak og sýndi góð tilþrif. Hann afgreiddi markið sitt glæsilega. 

Jürgen Klopp:
Það er ekkert sértakt að hafa skapað öll þessi færi og hafa aðeins skorað eitt mark. Þetta var klikkaður leikur. En hvað get ég sagt? Við sköpuðum urmul færa. Hvað er hægt að gagnrýna? Við reynum allt hvað við gátum. Við lögðum mjög hart að okkur.


Fróðleikur

- Philippe Coutinho skoraði annað mark sitt á leiktíðinni.

- Markið var það 200. sem Liverpool skorar á valdatíð Jürgen Klopp. Markatalan er 200:124 í 110 leikjum. 

- Roberto Firmino lék sinn 100. leik með Liverpool. Hann hefur skorað 27 mörk. 

- Liverpool hefur þrívegis leikið við Spartak í Moskvu. Unnið einn, tapað einu sinni og nú varð jafntefli. 

- Liverpool hefur ekki unnið í síðustu sjö Meistaradeildarleikjum. 

- Í síðustu níu leikjum í Meistaradeildinni hefur markmönnum Liverpool ekki tekist að halda hreinu. 

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.





 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan