| Heimir Eyvindarson

Enn eitt jafnteflið gegn Chelsea


Liverpool og Chelsea mættust á Anfield í dag og niðurstaðan varð 1-1 jafntefli. Jöfnunarmark Chelsea var af furðulegri gerðinni.

Það verður að segjast alveg eins og er að Jürgen Klopp kom dálítið á óvart með liðsvali sínu í dag. Hann gerði fimm breytingar á liðinu frá leiknum við Sevilla á þriðjudaginn, Mignolet kom í markið eins og vitað var og Matip kom inn í liðið fyrir Lovren. Á miðjunni kom Milner inn fyrir Wijnaldum, en mesta athygli vakti að Oxlade-Chamberlain og Sturridge komu inn í framlínuna fyrir Mané og Firmino. Og reyndar vakti líka talsverða athygli að Klopp hélt tryggð við Moreno í vinstri bakverðinum eftir ansi slaka frammistöðu í Sevilla á þriðjudaginn. 

Það var ekkert voðalega mikið að gerast í leiknum framan af. Eins og við var að búast lá Chelsea nokkuð aftarlega, með þriggja manna vörn og Drinkwater, Kante og Bakayoko mjög varfærna á miðjunni. Liverpool var meira með boltann en skapaði ekki mikla hættu. Fyrsta góða færi leiksins fékk Danny Drinkwater á 24. mínútu, en Mignolet varði vel. 

Nokkrum andartökum síðar var mikill darraðadans í teignum hjá Liverpool, eftir hornspyrnu Chelsea, en sem betur fer endaði boltinn hjá Cahill sem náði ekki að gera sér mat úr ágætri stöðu. 

Á 41. mínútu kom besta færi Liverpool í fyrri hálfleiknum, en þá átti Salah góðan snúning í teignum og ágætt skot rétt framhjá fjærstönginni. Staðan 0-0 í hálfleik. 

Strax í upphafi seinni hálfleiks var Courtois nálægt því að gefa okkar mönnum mark, þegar hann varði sakleysislegt skot Sturridge í horn, en boltinn var líklega á leið í innkast. Upp úr hornspyrnunni blokkaði Azpilicueta tilraun Salah vel. 

Á 52. mínútu rataði skot Liverpool í fyrsta skipti á rammann, en þá skaut Henderson beint á Courtois af löngu færi. Næstu mínúturnar var Chelsea heldur sterkara og af og til áttu varnarmenn Liverpool kunnuglega takta, til dæmis þegar Klavan hreinsaði tvisvar í röð í afturendann á samherja inní teig. Það hefði getað farið illa.

Á 65. mínútu kom fyrsta mark leiksins. Eftir hraða sókn Liverpool náði Oxlade-Chamberlain að pikka boltanum innfyrir vörnina á Salah sem afgreiddi boltann mjög snyrtilega framhjá Courtois. Staðan 1-0 á Anfield. Frábært mark. 

Síðustu 10-15 mínúturnar pressaði Chelsea stíft og á 84. mínútu skoraði Willian ansi skrautlegt jöfnunarmark þegar hann chippaði boltanum yfir Mignolet frá vítateigshorninu. Það verður að setja spurningamerki við staðsetningu Mignolet í markinu, því hvort sem Willian ætlaði sér að skjóta eða gefa fyrir var Mignolet of framarlega og því fór sem fór. 

Klopp var æfur á hliðarlínunni því dómarinn hafði ekki leyft honum að framkvæma skiptingu, en Lallana átti að koma inná aðeins fyrr og planið var að fara í fimm manna vörn sem hefði hugsanlega gert Willian erfiðara fyrir.

Niðurstaðan á Anfield í dag 1-1 jafntefli í erfiðum leik. Vissulega svekkjandi að fá svona furðumark í bakið en að sama skapi má segja að eitt stig gegn Englandsmeisturunum sé ekki alslæmt. Það má samt spyrja sig að því afhverju Klopp sendi Mané ekki fyrr inná, en hann hefði örugglega getað valdið Chelsea töluverðum vandræðum síðasta korterið eða svo, eftir að Chelsea fór að sækja meira. Eftir leikinn var ekki annað að sjá en að Mané hefði verið að kvarta yfir bekkjarsetunni við Klopp. 

Liverpool: Mignolet, Gomez, Matip, Klavan, Moreno, Henderson, Milner, Coutinho (Lallana á 87. mín.), Oxlade-Chamberlain (Mané á 87. mín.), Salah, Sturridge (Wijnaldum á 64. mín.). Ónotaðir varamenn: Karius, Robertson, TAA, Firmino.

Mark Liverpool: Salah á 62. mín. 

Chelsea: Courtois, Azpilicueta, Christensen, Cahill, Kante, Drinkwater, Bakayoko (Pedro á 77. mín.), Hazard, Zappacotta (Willian á 83. mín.), Alonso, Morata. Ónotaðir varamenn: Caballero, Luiz, Rudiger, Moses, Fabregas.

Mark Chelsea:
Willian á 85. mín. 

Jürgen Klopp: ,,Þetta var hörkuleikur tveggja sterkra liða. Chelsea er með mjög góðan mannskap og það er erfitt að verjast þeim en þeir lágu mjög aftarlega í dag og það voru oft 8-10 Chelsea menn bak við boltann og erfitt að komast í gegn. Ég var svekktur yfir því að fá ekki að gera skiptingu fyrr, þegar við ætluðum að setja Lallana á miðjuna og skipta yfir í 5 manna vörn. Það hefði getað komið sér vel að vera búinn að því þegar Willian fékk boltann. En svona er fótboltinn. Þetta var hörkuleikur eins og við var að búast, ég var ánægður með margt í okkar leik en ekki úrslitin."

Maður leiksins: Mo Salah fær mitt atkvæði í dag. Alltaf hættulegur og skoraði enn eitt markið. Markahæstur í Úrvalsdeild.

Fróðleikur:

-Adam Lallana lék sinn fyrsta leik á leiktíðinni, en hann hefur verið meiddur frá því í júní þegar hann meiddist í landsleik Englendinga og Skota á Hampden Park.  

-Mo Salah skoraði sitt 10. mark í deildinni og er aftur orðinn markahæstur í Úrvalsdeild, en Harry Kane komst upp að hlið hans í smástund í dag þegar hann skoraði 9. mark sitt í 9 leikjum. Salah er nú kominn með 15 mörk í öllum keppnum, sem er einfaldlega frábært. 

-Þetta var 51. viðureign Chelsea og Liverpool í Úrvalsdeild en bæði liðin hafa verið í deildinni frá því að hún var stofnuð fyrir 25 árum. Það er ekki hægt að segja annað en það sé allt hnífjafnt milli liðanna, því hvort liðið um sig hefur unnið 19 leiki og 13 hafa endað með jafntefli. 

-Hér má sjá myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com 

-Hér má sjá viðtal við Jürgen Klopp af sömu síðu. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan