| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool heimsækir Swansea á Liberty Stadium í kvöld. Ferðir Liverpool á þann völl hafa hreint ekki alltaf verið til fjár.

Swansea hefur 6 sinnum tekið á móti Liverpool á Liberty Stadium, en þar áður lék liðið heimaleiki sína á Vetch Field. Fyrsti leikur Liverpool á Liberty Stadium var síðasti leikur leiktíðarinnar 2011-2012, en sá leikur er í sögubókunum fyrir þær sakir að vera síðasti leikurinn sem Kenny Dalglish stjórnaði Liverpool og síðasti leikurinn sem Brendan Rodgers stjórnaði Swansea, en hálfum mánuði síðar var Brendan Rodgers tekinn við Liverpool. Swansea vann leikinn 1-0.
Liverpool hefur aðeins unnið tvisvar á Liberty Stadium, í bæði skiptin mjög nauma sigra. Fyrri sigurinn kom í mars 2015, en þá skoraði Jordan Henderson eina mark leiksins og það var vægast sagt skrautlegt. Seinni sigurinn kom í október 2016, en þá skoraði James Milner sigurmark Liverpool úr víti skömmu fyrir leikslok. 

Swansea skipti um stjóra tveimur dögum eftir að Liverpool kjöldró liðið 5-0 á Anfield á annan í jólum. Carlos Carvalhal tók við liðinu og hann hefur aðeins náð að berja í brestina, liðið hefur bara tapað einum leik af síðustu fimm - sem þykir gott miðað við það sem á undan var gengið. Meiðslalistinn hjá Swansea er aukinheldur að tæmast, aðeins Angel Rangel er á honum af alvöru leikmönnum félagsins þannig að Carvalhal ætti að geta stillt upp nokkurn veginn sínu sterkasta liði í kvöld. 

Jürgen Klopp ætti líka að geta stillt upp sterku liði, það hefur oft verið svartara útlitið á meiðslalistanum. Í rauninni er Clyne eini maðurinn sem er alvarlega meiddur, en Henderson er eitthvað aðeins skaddaður og svo er Lovren með einhvern flensuskít. Salah og Moreno æfðu báðir í dag, en liðið smellti í eina létta æfingu í Wales í morgun. 

Eins og venjulega er ómögulegt að segja hvernig Klopp stillir liðinu upp, eina sem er alveg ljóst er að Karius verður í markinu. Hvernig svo sem mönnum líst á það. Svo verður líka spennandi að sjá hver ber fyrirliðabandið í kvöld, en eins og við höfum átt marga fyrirliða frá því að Gerrard þá eru þeir nú ekki margir sem eiga víst sæti í byrjunarliðinu. Sem er umhugsunarvert. 

Ég er svartsýnn fyrir leikinn í kvöld og spái 1-0 sigri Swansea. Vonandi er það algjör ruglspá. 

YNWA!

 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan