| Grétar Magnússon

Góður sigur á Bournemouth

Liverpool vann góðan 3-0 sigur á Bournemouth í 34. umferð ensku úrvalsdeildarinnar.  Mörkin komu úr kunnuglegum áttum.

Ein breyting var gerð á byrjunarliðinu að þessu sinni en eins og allir bjuggust við kom Jordan Henderson inn í stað James Milner.  Snemma leiks settu heimamenn svo tóninn því strax á 3. mínútu átti Alexander-Arnold góða sendingu inná teiginn þar sem Salah var mættur en hann potaði boltanum framhjá.  Þetta var færi sem Egyptinn vanalega setur í markið en þarna hitti hann ekki á rammann.  En það þurfti ekki að bíða lengi eftir fyrsta markinu.  Það kom á 7. mínútu þegar Henderson átti flotta sendingu inná teiginn þar sem Mané skallaði boltann.  Begovic í markinu varði en boltinn barst aftur til Mané sem brást ekki bogalistin og sendi boltann rakleiðis í markið.

Eftir þetta héldu heimamenn áfram að sækja og leyfðu Bournemouth mönnum ekki að fá neinn frið með boltann og ég held að þeir hafi nú ekki oft komist yfir miðju með boltann.  Þrátt fyrir yfirburði Liverpool náðu þeir ekki að bæta við marki í fyrri hálfleik.  Mohamed Salah ógnaði auðvitað markinu eins og hans er von og vísa en náði þó ekki að nýta sér þau færi sem hann skapaði sér.  Skömmu eftir markið fékk hann góða sendingu innfyrir og skaut að marki fyrir utan teig en skotið var beint á Begovic.  Eftir hálftíma leik fékk hann svo stungusendingu innfyrir frá Henderson en tækling á síðustu stundu frá Cook, varnarmanni Bournemouth bjargaði málum fyrir gestina.  Áfram hélt Egyptinn að ógna en var aðeins mislagðir fætur þegar frábær sending kom innfyrir frá Mané en móttakan var ekki nógu góð og varnarmenn náðu að hreinsa frá.


Staðan því eins og áður sagði 1-0 í hálfleik.  Á 63. mínútu síðari hálfleiks var Salah enn og aftur á ferðinni.  Alexander-Arnold vann boltann hægra megin á eigin vallarhelmingi, tók á rás fram völlinn og sendi til Salah sem hljóp í átt að marki.  Varnarmenn Bournemouth bökkuðu og Salah sá skotfæri en skotið var ekki nógu hnitmiðað og kannski hefði hann heldur átt að senda boltann út til Alexander-Arnold sem hafði haldið hlaupi sínu áfram.  En enginn álasar Salah fyrir að reyna og hann vill augljóslega ekki missa markakóngstitilinn í hendurnar á Harry Kane.  Fimm mínútum síðar vildi Salah svo fá vítaspyrnu þegar Aké virtist ýta í bakið á honum í teignum en dómarinn sá ekki ástæðu til að flauta.   Eins ótrúlegt og það hljómar þá hefur Salah ekki fengið eina vítaspyrnu það sem af er tímabili.  En markið hjá Salah kom fyrir rest.  Alexander-Arnold sendi þá háa sendingu inn á teiginn af löngu færi og Salah sýndi snilli sína enn á ný þegar hann skallaði boltann yfir Begovic í markinu og í fjærhornið.  Frábært mark og þarna mátti nú segja að sigurinn hafi verið í höfn.  Það má þó aldrei vanmeta Bournemouth sem hafa oft komið til baka seint í leikjum á tímabilinu og jafnað metin.  Á 74. mínútu hefði svo Firmino átt að skora þegar hann fékk boltann út til hægri frá Oxlade-Chamberlain.  Firmino reyndi að fífla nokkra varnarmenn og markvörð gestanna en gaf sér of mikinn tíma í þetta og skot hans var laust og varnarmaður á marklínunni náði að hreinsa frá marki.  Bournemouth vöknuðu til lífsins eftir þetta, færðu sig framar á völlinn og reyndu hvað þeir gátu til að minnka muninn.  Næst komust þeir þegar Gosling fékk boltann á teignum eftir smá darraðadans en skot hans var beint á Karius sem sló boltann frá.  Gestirnir fengu nokkur hálffæri einnig en varnarmenn Liverpool héldu þeim í skefjun.  Lokamarkið kom svo á 90. mínútu þegar Oxlade-Chamberlain sendi boltann inná teiginn vinstra megin á Firmino sem hikaði ekki í þetta skiptið og þrumaði boltanum á nærstöngina, óverjandi fyrir Begovic.  Lokatölur 3-0 og öruggur sigur okkar manna í höfn, sem var eins gott því að Chelsea höfðu unnið sinn leik fyrr um daginn.

Liverpool:  Karius, Alexander-Arnold, Lovren (Klavan, 83. mín.), van Dijk, Robertson, Oxlade-Chamberlain, Henderson, Wijnaldum, Salah, Firmino (Solanke, 91. mín.), Mané (Milner, 77. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Mignolet, Moreno, Woodburn, Ings.

Mörk Liverpool:  Sadio Mané (7. mín.), Mohamed Salah (69. mín.) og Roberto Firmino (90. mín.).

Gult spjald:  Alex Oxlade-Chamberlain.

Bournemouth:  Begovic, Fraser, Francis, S. Cook, Aké, Daniels, Ibe (Mousset, 58. mín.), L Cook (Surman, 73. mín.), Gosling, King, Defoe (Wilson, 70. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Boruc, Pugh, B. Smith, Simpson.

Gult spjald:  Nathan Aké.

Áhorfendur á Anfield:  52.959.

Maður leiksins:  Áfram heldur Trent Alexander-Arnold að spila eins og engill í hægri bakvarðastöðunni.  Hann átti frábæran leik, lagði upp mark fyrir Salah og átti ekki í neinum vandræðum með varnarleikinn.  Hann var virkilega ógnandi framávið og hefur heldur betur stigið upp eftir að hafa átt í vandræðum í tveimur deildarleikjum áður en kom að viðureignunum við Manchester City í Meistaradeildinni.

Jürgen Klopp:  ,,Góð frammistaða og mjög, mjög, mjög, mjög mikilvæg eftir frábæra viku.  Stuðningsmennirnir eru auðvitað ánægðir núna, flautandi á okkur úti á götu en við þurftum að vera tilbúnir í leikinn og við þurfum að vera reiðir áfram til að tryggja okkur sæti í topp fjórum."

Fróðleikur:

- Mohamed Salah skoraði sitt 40. mark á leiktíðinni og er hann fyrsti leikmaður félagsins sem nær þeim áfanga síðan Ian Rush gerði það síðast tímabilið 1986-87.

- Salah skoraði sitt 30. deildarmark og varð hann þar með fyrsti leikmaðurinn frá Afríku sem nær þeim áfanga í úrvalsdeildinni.  Bættist hann í hóp annara sjö leikmanna sem hafa skorað 30 mörk eða meira í deildarkeppni.

- Liverpool hafa ekki tapað í síðustu 19 heimaleikjum í deildinni og hefur liðið ekki vegnað svona vel á heimavelli síðan árið 2009.

- Sadio Mané skoraði sitt 17. mark á leiktíðinni og sitt 10. í deildinni.  Markið hans í leiknum gerði hann að markahæsta Senegalanum í sögu deildarinnar en alls hefur hann skorað 44 mörk í deildinni fyrir Liverpool og Southampton.

- Roberto Firmino skoraði sitt 25. mark á leiktíðinni og 15. deildarmarkið.

- Loris Karius spilaði sinn 25. deildarleik fyrir félagið.

Hér má sjá myndir úr leiknum.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan