| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Einn leikur er eftir á tímabilinu og ekki þarf að fjölyrða um að hann er sá langstærsti á tímabilinu.  Liverpool mætir Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í kvöld og hefst leikurinn klukkan 18:45.  Leikurinn fer fram á Ólympíuleikvanginum í Kiev, höfuðborg Úkraínu.  Leikurinn verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu á heimavelli okkar, Spot í Kópavogi og hvetjum við alla til að mæta þar og mynda klikkaða stemmningu.

Eins og oft áður í útsláttarkeppni Meistaradeildar á þessu tímabili er byrjunarlið Jürgen Klopp vitað fyrirfram.  Margir velta því þó fyrir sér hvort að Þjóðverjinn Emre Can komi inn en hann hefur náð sér að fullu af bakmeiðslum sínum.  Það verður þó að teljast frekar ólíklegt að leikmaður sem er á förum frá félaginu í sumar (að öllum líkindum) muni fá tækifæri til að byrja leikinn.  Auk þess er leikæfing hans líklega ekki eins og best verður á kosið en hann spilaði síðast leik fyrir liðið þann 17. mars síðastliðinn.  Ég tel nokkuð víst að Gini Wijnaldum muni byrja á miðjunni ásamt þeim Jordan Henderson og James Milner en það er þó ágætt að hafa Can á bekknum ef á þarf að halda.  Aðrar stöður eru klárar, Loris Karius verður í markinu, varnarmenn verða þeir Trent Alexander-Arnold, Dejan Lovren, Virgil van Dijk og Andy Robertson.  Frammi verðum við svo áfram að treysta á snilli þeirra Sadio Mané, Mohamed Salah og Roberto Firmino.

Hvað byrjunarlið gestanna varðar er allt annað uppá teningnum.  Enginn leikmanna þeirra er á meiðslalistanum og erfitt er að spá í hvernig þeir stilla upp sínu liði.  Varnarlínan ætti þó að vera nokkuð klár sem og miðjan en frammi gera þeir Gareth Bale, Karim Benzema, Marco Asensio og Isco allir tilkall til að byrja ásamt Cristiano Ronaldo.  Luka Modric, Toni Kroos og brasilíski varnarmiðjumaðurinn Casemiro skipa væntanlega stöðurnar á miðjunni.  Breidd liðsins er gríðarleg og hvernig sem byrjunarliðið verður stillt upp er ljóst að á bekknum verða menn sem geta komið inn og breytt leiknum.  Við bíðum því og sjáum hvernig liði þeir stilla upp en það verður gríðarlega sterkt, þurfum ekkert að ræða það frekar.

Liverpool og Real Madrid hafa mæst fimm sinnum í Evrópukeppni í sögu félaganna.  Eins og margir vita var fyrsta viðureign liðanna í úrslitum Evrópukeppni Meistaraliða árið 1981 þar sem Liverpool lyfti sínum þriðja Evrópumeistaratitli með sigri 1-0.  Næst mættust liðin árið 2009 í 16. liða úrslitum Meistaradeildar.  Fyrri leikurinn fór fram á heimavelli Spánverjanna og Liverpool vann þar góðan 0-1 sigur með marki frá Yossi Benayoun.  Á Anfield sáu Madridingar aldrei til sólar og töpuðu 4-0 þar sem þeir Fernando Torres, Steven Gerrard og Andrea Dossena skoruðu mörkin.  Liðin voru svo saman í riðli í Meistaradeildinni tímabilið 2014-15 og þar sigruðu Real Madrid báða leiki 1-0 og Liverpool áttu í raun aldrei séns í þeim leikjum enda var þetta tímabil eitthvað sem við viljum ekki mikið rifja upp.

Spennan hefur verið að byggjast upp undanfarnar vikur og nú loksins er komið að stóru stundinni.  Fjölmargir stuðningsmenn Liverpool eru mættir til Kænugarðs og munu hvetja liðið áfram af sinni alkunnu snilld.  Það fréttist svo í vikunni nú fyrir leik að Real Madrid skiluðu til baka 1.000 miðum til Knattspyrnusambands Evrópu (UEFA) þar sem þeir voru óseldir.  Varla vantar áhuga stuðningsmanna þeirra til að mæta á leikinn en líklega hefur fólk ekki viljað leggja í svo langt ferðalag og horft töluvert í kostnaðinn í kringum það.  Hvað sem því líður þá fóru þessir miðar ekki til Liverpool svo vitað sé og maður spyr sig hvort það muni vera 1.000 laus sæti á vellinum í kvöld.  Ég neita að trúa því og UEFA hljóta að koma miðunum út á einhvern hátt.  Liverpool áttu ekki í neinum vandræðum með að selja alla sína miða og eitthvað segir mér að það verði mun fleiri stuðningsmenn þeirra rauðu á vellinum í kvöld.

Sú staðreynd að Real Madrid eiga möguleika á því að vinna titilinn þriðja árið í röð segir ýmislegt um það hvort liðið er talið sigurstranglegra í leiknum.  Þetta er auk þess fjórði úrslitaleikur félagsins í keppninni á síðustu fimm árum.  Liverpool eiga svo sannarlega skilið að vera í úrslitum eftir frábærar frammistöður í Meistaradeildinni allt tímabilið en Real virðast vera í úrslitum aðallega vegna þess að þeir kunna heldur betur að klára leiki þó svo að þeir séu ekki að spila sinn besta leik.  Reynslan sem þeir búa yfir er margfalt meiri en Liverpool í leik af þessar stærðargráðu.  En sem betur fer segir það ekkert til um það hvernig leikurinn mun spilast eða hvernig hann fer.  Okkar menn eiga alltaf séns en til þess þurfa þeir þó að hitta á einn af sínum bestu dögum.

Spáin að þessu sinni er sú að ég læt hjartað ráð og segi að okkar menn sigri 3-2.  Það er varla hægt annað en að spá markaleik því Liverpool mun sækja í leiknum og Real Madrid að sama skapi reyna að nýta sér veikleika í vörninni hjá þeim rauðu.  Ef ég myndi láta höfuðið ráða hér myndi ég spá Real sigri.  En nú er bara að koma sér í gírinn, reyna einhvernveginn að láta tímann líða sem hraðast í dag og njóta þess svo þegar leikurinn hefst að við erum að horfa á okkar menn í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu !

Fróðleikur:

- Mohamed Salah og Roberto Firmino eru markahæstir Liverpool í Meistaradeildinni til þessa á tímabilinu með 11 mörk hvor.

- Sadio Mané kemur þar næst með níu mörk.

- Cristiano Ronaldo er auðvitað markahæstur leikmanna Real Madrid í keppninni til þessa með 15 mörk alls.

- Næstur á blaði er Karim Benzema með fjögur mörk.

- Þeir Salah og Firmino hafa tekið þátt í öllum 14 leikjum liðsins í Meistaradeildinni til þessa.

- Liverpool hafa unnið Meistaradeild Evrópu (Evrópukeppni Meistaraliða) fimm sinnum í sögu félagsins.

- Real Madrid hafa unnið keppnina 12 sinnum í sögu félagsins og eru auðvitað það lið sem oftast hefur unnið keppnina.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan