| Grétar Magnússon

Áfram í bikarnum

Liverpool komst áfram í næstu umferð ensku bikarkeppninnar með 4-1 sigri á Shrewsbury Town á Anfield.

Jürgen Klopp stillti upp þeim leikmönnum sem voru tiltækir og var sjálfur mættur á hliðarlínuna til að stýra liðinu. Þeir Max Woltman og Elijah Dixon-Bonner spiluðu sinn fyrsta leik fyrir aðalliðið sem byrjunarliðsmenn. Að öðru leyti var liðið þannig skipað að Kelleher stóð í markinu, í vörninni þeir Conor Bradley, Ibrahima Konaté, Virgil van Dijk og Andy Robertson. Fabinho og Tyler Morton voru með Dixon-Bonner á miðjunni og í framlínunni voru þeir Kaide Gordon, áðurnefndur Woltman og Curtis Jones. Bekkurinn var svo einnig blöndun af aðalliðs og ungliðum, Firmino, Adrián, Minamino, Tsimikas, Matip, Mabaya, Norris, Balagizi og Frauendorf.

Eins og við var að búast voru heimamenn meira með boltann frá upphafi leiks en færin voru ekki ýkja mörg. Gordon átti skot að marki á 20. mínútu sem Marko Melossi markvörður gestanna þurfti að verja við nærstöngina, sitthvoru megin við þetta skot áttu Konaté og van Dijk skalla að marki sem sköpuðu litla hættu. Shrewsbury skoruðu svo fyrsta mark leiksins eftir vel útfærða sókn á 27. mínútu. Sending barst út á vinstri kant og Ogbeta fékk fínan tíma til að senda fyrir markið. Sendingin var flott á milli miðvarða Liverpool og Udoh mætti á markteig og þrumaði boltanum í netið. Ekki þurfti að spyrja að því að markinu var gríðarlega vel fagnað enda skorað beint fyrir framan stuðningsmenn gestaliðsins. En gleðin entist ekki of lengi því á 34. mínútu skoraði Gordon flott mark. Hann fékk sendingu frá Bradley inná teiginn, tók sér tíma til að koma boltanum fyrir sig á meðan varnarmenn horfðu á og sendi svo boltann snyrtilega í markið. Gestirnir skoruðu svo mark sem var dæmt af vegna rangstöðu og var það réttur dómur en ekki mátti miklu muna samt. Rétt fyrir hálfleik var svo dæmd vítaspyrna þegar Ebanks-Landell fékk boltann í hendina eftir aukaspyrnu Robertson inná teiginn. Fabinho fór á punktinn og þrumaði boltanum í netið af miklu öryggi. Staðan í hálfleik 2-1.



Klopp gerði eina skiptingu strax í hálfleik þegar Minamino kom inná fyrir Woltman. Dixon-Bonner var nálægt því að skora þriðja markið snemma í seinni hálfleik en markvörður gestanna varði vel. Eftir rúmlega klukkutíma leik kom Firmino inná fyrir Dixon-Bonner og Brasilíumaðurinn var strax líflegur í sókninni. Tólf mínútum fyrir leikslok skoraði hann þriðja markið og var það laglega gert. Bradley gerði vel að halda boltanum inná vellinum út við endalínu í vítateignum, hann kom boltanum á Konaté sem reyndi skot að marki en varnarmaður dró úr krafti skotsins. Boltinn barst á Firmino í markteignum, hann sneri baki í markið en tók þá hælspyrnu sem endaði í markinu. Skemmtilega gert og nú mátti segja að sigurinn væri í höfn. Eitt mark var skorað í viðbót í uppbótartíma og þar var Fabinho að verki. Hann skallaði að marki eftir aukaspyrnu Tsimikas og fylgdi svo frákastinu eftir sjálfur þegar hann þrumaði boltanum í þaknetið úr þröngu færi. Lokatölur 4-1 og áframhald í bikarnum gulltryggt.

Liverpool: Kelleher, Bradley, Konaté, van Dijk, Robertson (Tsimikas, 90+2 mín.), Dixon-Bonner (Firmino, 64. mín.), Fabinho, Morton (Norris, 90+2 mín.), Gordon (Frauendorf, 81. mín.), Woltman (Minamino, 45. mín.), Jones. Ónotaðir varamenn: Adrián, Matip, Mabaya, Balagizi.

Mörk Liverpool: Gordon (34. mín.), Fabinho (44. mín. (víti) og 90+3 mín.) og Firmino (78. mín.).

Shrewsbury: Marosi, Pennington, Ebanks-Landell, Nurse, Bennett (Daniels, 88. mín.), Vela, Davis, Leahy (Caton, 90+2 mín.), Ogbeta (Pierre, 83. mín.), Bowman (Bloxham, 83. mín.), Udoh (Janneh, 83. mín.). Ónotaðir varamenn: Cosgrove, Burgoyne, Pyke, Craig.

Gul spjöld: Pennington, Ebanks-Landell og Daniels.

Mark Shrewsbury: Udoh (27. mín.).

Maður leiksins: Fabinho sýndi öryggi sitt af vítapunktinum og bætti svo við öðru marki með síðustu spyrnu leiksins. Brasilíumaðurinn fær því nafnbótina að þessu sinni.

Jürgen Klopp: ,,Mér líkaði vel við hvernig við svöruðum eftir að hafa lent undir, bæði leikmenn og stuðningsmenn. Markið var frábært hjá Gordon en hann helsti styrkleiki er einmitt hvað hann er góður í að klára færin. Akademían okkar á hrós skilið fyrir að skila þessum leikmönnum upp til okkar en við áttum ekki möguleika á því að stilla liðinu upp öðruvísi. Við vorum með fimm unga leikmenn í byrjunarliðinu og allir stóðu sig vel. Við vissum að við gætum gert betur í seinni hálfleik og gerðum það."

Fróðleikur:

- Kaide Gordon skoraði sitt fyrsta aðalliðsmark fyrir Liverpool aðeins 17 ára og 95 daga gamall.

- Sá yngsti sem hefur skorað fyrir félagið er Ben Woodburn en hann var 17 ára og 45 daga gamall.

- Fabinho skoraði sitt annað og þriðja mark á leiktíðinni.

- Firmino skoraði sitt sjöunda mark á leiktíðinni.

- Liverpool mætir Cardiff City á Anfield í næstu umferð bikarkeppninnar.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan