| Grétar Magnússon

Sigur á meisturunum

Frábær 1-0 sigur vannst á Manchester City í fjörugum leik. Mohamed Salah skoraði eina mark leiksins í seinni hálfleik.

Eins og við fórum yfir í upphitun þá var óvíst hvort að Ibrahima Konaté myndi spila þennan leik og þegar byrjunarliðið var tilkynnt var ljóst að hann er meiddur. Joe Gomez færði sig yfir í miðvörðinn og James Milner var settur í hægri bakvörðinn, það var svo ánægjulegt að sjá Andy Robertson mættan aftur vinstra megin. Á miðjunni voru þeir Fabinho, Thiago og Harvey Elliott sem þýddi að fyrirliðinn settist á bekkinn. Frammi voru svo þeir Firmino, Jota og Salah. Trent Alexander-Arnold var óvænt í hópnum en ekki alveg í standi til að byrja en hann var á meðal varamanna. Fátt kom svo á óvart í byrjunarliði gestanna, þeir stilltu upp svo til sínu sterkasta liði með langmarkahæsta mann deildarinnar fremstan í flokki.

Eins og oft áður þegar mótherjinn er Manchester City virðast okkar menn færa sinn leik á hærra plan. Miðað við hvernig tímabilið hefur gengið til þessa þurfti svosem ekki mikið til þess að hækka ránna en tónninn var gefinn snemma leiks með góðri tæklingu og ljóst að þeir rauðu ætluðu að gefa alvöru leik. City menn voru vissulega meira með boltann en komust ekki mikið áleiðis þannig séð. Besta færi Liverpool í fyrri hálfleik kom eftir að Ederson í markinu hafði slegið fyrirgjöf frá hægri út í teiginn. Þar var Robertson mættur til að taka við boltanum en skot hans fór vel yfir markið. Salah var vissulega ógnandi og virðist heldur betur kominn í betra form og sýndi takta sem við eigum að venjast. Besta færi gestanna kom svo undir lok hálfleiksins þegar Håland skallaði að marki eftir fyrirgjöf De Bruyne en skallinn fór beint í hendurnar á Alisson sem stóð fastur fyrir sínu á marklínunni. Staðan markalaus í hálfleik og þrátt fyrir það var leikurinn góð skemmtun.

Seinni hálfleikur var ekki gamall þegar Salah var sendur einn í gegn frá miðlínu. Hann lék nær markinu, Ederson kom langt út á móti og varði frábærlega lágt skot Egyptans. Hornspyrna hefði verið réttur dómur þar sem Ederson varði boltann en markspyrna var dæmd. Ederson þurfti svo á aðhlynningu að halda en eftir nokkrar mínútur fór leikurinn í gang aftur. City tóku markspyrnuna, boltinn barst á miðjuna þar sem Håland og Fabinho voru í baráttunni um boltann. Fabinho virtist vera búinn að vinna boltann en var togaður niður af Håland. De Bruyne fékk boltann og sendi Håland í gegn en Alisson renndi sér á boltann en þá kom Norðmaðurinn aðvífandi og sparkaði boltann úr höndum hans. Foden tók við boltanum í þröngri stöðu og skoraði, boltinn hafði viðkomu í Gomez á línunni en hann gat lítið gert til að stöðva skotið. Gestirnir fögnuðu gríðarlega vel en þessi atvik áður en markið kom hlutu nú að fara í endurskoðun hjá myndbandsdómara leiksins. Hann sendi Anthony Taylor í skjáinn með þeim fyrirmælum að skoða fyrst baráttu Håland og Fabinho og svo Håland og Alisson. Fyrra atvikið var nóg til þess að hann dæmdi markið af og aukaspyrnu til Liverpool enda augljóst að Fabinho var togaður niður í grasið þegar hann virtist vera kominn með vald á boltanum. Við þetta æstust leikar heldur betur og stemmningin á Anfield varð enn betri. Liverpool fóru í sókn og Jota var nálægt því að skalla í netið en því miður hitti hann ekki markið. Leikurinn opnaðist meira og Håland fékk fínt skotfæri í teignum sem Alisson varði vel. Á 73. mínútu gerði Klopp svo þrefalda skiptingu, allt leit út fyrir að Salah væri að fara af velli þegar númerið hans kom upp á töfluna sem fjórði dómarinn hélt á en það var einhver misskilningur hjá honum. Inn komu þeir Núnez, Henderson og Carvalho fyrir Firmino, Fabinho og Elliott.

City fengu aukaspyrnu fyrir ekki miklar sakir úti hægra megin. Dómarinn hafði fram að þessu leyft leiknum að fljóta nokkuð vel og var lítið fyrir það að flauta á ýmis brot sem yfirleitt er nú gert. En aukaspyrnan var tekin og hún fór beint í hendurnar á Alisson. Hann sá Salah hlaupa upp völlinn og sendi boltann til hans. Þar missti Cancelo af boltanum og Salah kominn einn í gegn. Nú klikkaði hann ekki og boltanum var lyft yfir Ederson við afskaplega mikinn fögnuð! Frábært mark í alla staði og stundum þarf ekkert að vera að flækja hlutina, bara einn langur bolti fram og mark. Gestirnir reyndu hvað þeir gátu til að jafna en van Dijk og Gomez stöðvuðu allar þeirra tilraunir, eitt skiptið gerði van Dijk afskaplega vel þegar boltinn barst inná teig hægra megin og sending kom fyrir sem ætluð var Håland á fjærstönginn en Hollendingurinn var auðvitað mættur og skallaði boltann burt. Okkar menn hefðu heldur betur getað bætt við mörkum í blálokin en Núnez var helst til of eigingjarn eða of lengi að átta sig á stöðunni þegar hann komst innfyrir vinstra megin með Salah hlaupandi með sér. Núnez reyndi skotið frekar en að gefa boltann og ekkert varð úr fínu færi. Klopp fékk að líta rauða spjaldið þegar hann gersamlega trylltist eftir að Salah hafði verið togaður niður af Bernarndo Silva úti hægra megin. Augljós aukaspyrna og þeim þýska var ekki skemmt. Lokatölur 1-0 og frábær sigur með glæsilegri frammistöðu allra leikmanna var eitthvað sem við gátum notið til hins ýtrasta eftir vonbrigða tímabil til þessa. Það eina sem skyggði örlítið á úrslitin voru meiðsli Jota í uppbótartíma sem litu því miður ekki vel út.



Liverpool: Alisson, Milner, Gomez, van Dijk, Robertson, Fabinho (Henderson, 73. mín.), Thiago, Elliott (Carvalho, 73. mín.), Firmino (Núnez, 72. mín.), Jota (Tsimikas, 90. mín.), Salah (Alexander-Arnold, 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Kelleher, Phillips, Bajcetic, Jones.

Mark Liverpool: Mohamed Salah (76. mín.).

Gul spjöld: Fabinho, Thiago og Jota.

Manchester City: Ederson, Akanji, Dias, Aké, Cancelo, Rodri, B. Silva, Foden, De Bruyne, Gündogan (Alvarez, 89. mín.), Håland. Ónotaðir varamenn: Grealish, Laporte, Ortega, Gómez, Mahrez, Palmer, Lewis, Wilson-Esbrand.

Gult spjald: Akanji.

Maður leiksins: Mohamed Salah lék eins og við þekkjum hann best. Vissulega hefði hann getað skorað fleiri mörk en þetta eina en það tryggði engu að síður stigin þrjú. Heilt yfir lék allt liðið vel og að öðrum ólöstuðum lék Joe Gomez frábærlega í vörninni.

Jürgen Klopp: ,,Við vörðumst ótrúlega vel og vorum skipulagðir á ástríðufullan máta. Við lokuðum réttum svæðum, gerðum árás á réttum augnablikum en þar sem þetta er City þá komust þeir samt í gegn öðru hverju. Þeir komust upp að endamörkum með marga leikmenn tilbúna í vítateignum en við vörðumst ótrúlega vel, sérstaklega í markteignum. En heilt yfir var þetta framúrskarandi leikur hjá strákunum og þess vegna gátum við fagnað sigri."

Fróðleikur:

- Mohamed Salah skoraði sitt þriðja deildarmark á tímabilinu og það níunda í öllum keppnum.

- Alisson átti sína þriðju stoðsendingu á ferli sínum hjá Liverpool og allar hafa þær verið til handa Salah. Hann hefur til þessa spilað 197 leiki, skorað eitt mark og lagt upp þrjú sem er mögnuð tölfræði fyrir markvörð.

- Salah er nú annar markahæsti leikmaður Liverpool í úrvalsdeildinni með 121 mark. Hann komst upp fyrir Steven Gerrard en markahæstur er Robbie Fowler með 128 mörk.

- Liverpool eru í 8. sæti deildarinnar með 13 stig eftir níu leiki.

- Manchester City eru í öðru sæti með 23 stig eftir tíu leiki.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan