| Sf. Gutt

Landsliðsþjálfari Kamerún lék með Liverpool


Það er ekki á hverjum degi sem Liverpool hefur átt fulltrúa sem stýrir landsliði á heimsmeistaramóti. Það gerðist þó núna þegar Rigobert Song stýrði landsliði Kamerún í Katar. Trúlega er hann fyrsti fyrrum leikmaður Liverpool sem stýrir þjóð á HM.

Rigobert tók við landsliði Kamerún í lok febrúar á þessu ári og stýrði liðinu á lokaleið liðsins í að tryggja sér farseðil á HM. Liðið tapaði 1:0 fyrir Sviss og gerði svo 3:3 jafntefli við Serbíu. Liðið vann svo Brasilíu 1:0 í lokaleik sínum í riðlakeppninni. Kamerún komst ekki áfram en gerði býsna vel. Hann hafði áður stýrt landsliðinu tímabundið frá 2017 til 2018. 

Rigobert er goðsögn í Kamerún. Hann lék 137 landsleiki og skoraði fimm mörk. Hann var í liði Kamerún sem varð Afríkumeistari 2000 og 2002. 

Rigobert hóf feril sinn með Metz í Frakklandi þar sem hann vann Deildarbikarinn 1995/96. Þar spilaði hann frá 1994 til 1998. Rigobert Song kom til Liverpool í ársbyrjun 1999 frá ítalska liðinu Salernitana. Hann yfirgaf Liverpool haustið 2000 og gekk til liðs við West Ham United. Kamerúninn spilaði 38 leiki með Liverpool.

Rigobert var í láni hjá Köln frá West Ham á leiktíðinni 2001/02. Hann fór svo til Lens í Frakklandi 2002. Þar var hann til 2004 en þá gekk hann til liðs við Galatasaray. Hann vann tyrkneska bikarinn 2005 og varð landsmeistari 2006 og 2008. Rigobert endaði ferilinn hjá Trabzonspor en hann spilaði með liðinu frá 2008 til 10. Hann vann tyskneska bikarinn með félaginu 2010.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan