| Sf. Gutt

Sigur á krýningardaginn!


Sigur á krýningardaginn! Egypski Kóngurinn tryggði Liverpool sjötta sigur sinn í röð þegar liðið vann Brentford 1:0 á Anfield Road. Liðið stendur nú mun betur að vígi í baráttu um Evrópusæti!

Karl þriðji var krýndur Bretakóngur í morgun og af því tilefni var þjóðsögnur Englands leikinn fyrir leikinn. Þjóðsöngurinn heyrðist þó varla því stuðningsmenn Liverpool bauluðu um leið hann var leikinn. Eins sungu þeir hinn eina og sanna þjóðsöng sinn You´ll Never Walk alone af miklum krafti! Andúð stórs hluta stuðningsmanna Liverpool á konungsveldinu og kerfinu fór ekki á milli mála!

Liverpool byrjaði leikinn af krafti. Það kom því ekkert á óvart þegar Liverpool náði forystu á 13. mínútu. Mohamed Salah fékk boltann hægra megin við vítateignn. Hann sendi út fyrir á Fabinho Tavarez og hann gaf inn í vítateiginn á Virgil van Dijk. Hann skallaði boltann þvert fyrir markið á Mohamed sem þangað var kominn. Það var eins og hann næði ekki að hitta boltann af stuttu færi en hann fylgdi eftir og kom boltanum í markið á marklínunni. Kóngurinn búinn að skora á krýningardaginn. Mark númer 100 sem hann skorar á Anfield og eins setti hann met með því að skora í níunda heimaleik sínum í röð! Einstakur í sinni röð!

Liverpool hafði áfram undirtökin og á 29. mínútu átti liðið að skora aftur. Trent Alexander-Arnold sendi inn í vítateiginn á Darwin Núnez en hitti boltann ekki almennilega og boltinn fór yfir markið. Mjög gott færi og Úrúgvæjinn átti sannarlega að skora.

Þó svo Liverpool hefði undirtökin voru gestirnir alltaf hættulegir. Þeir náðu þó ekki að skapa sér nein verulega hættuleg færi. Þó munaði ekki miklu sex mínútum fyrir hlé þegar Ivan Toney skaut rétt framhjá úr aukaspyrnu. Liverpool leiddi í hálfleik. 

Leikurinn var í svipuðum farvegi í síðari hálfleik. Liverpool réði gangi mála en Brentford gaf ekkert eftir. Föst leikatriði voru alltaf varasöm en vörn Liverpool stóð vaktina og Alisson Becker var öryggið umpmálað fyir aftan hana. 

Diogo Jota lék upp hægra megin og gaf fast fyrir markið. Cody Gakpo stóð frír við marklínuna en boltinn hrökk af honum og í burtu. Cody hefði auðvitað átt að skora en sendingin til hans var eiginlega of föst. Á 77. mínútu átti Trent fast skot en markmaður Brentford varði meistaralega uppi í horninu. Liverpool landaði sigrinum og honum var vel fagnað í leikslok!

Sigurinn var naumur en sanngjarn. Enn og aftur var Kóngurinn frá Egyptalandi sá sem skipti sköpum. Svo náði Liverpool að bæta fyrir tapið í London í byrjun ársins. Liverpool á enn von um Evrópusæti. Það kemur í ljós eftir síðustu umferð hvers konar sæti verður uppskeran!

Mark Liverpool: Mohamed Salah (13. mín.).

Gul spjöld: Virgil van Dijk, Fabinho Tavarez, Ibrahina Konaté og Alisson Becker.

Gul spjöld: Bryan Mbeumo og Rico Henry. 

Áhorfendur á Anfield Road: 52.838.

Maður leiksins: Mohamed Salah. Sigurmark á krýngingardaginn. Kóngurinn frá Egyptalandi er einstakur í sinni röð!

Jürgen Klopp: Ég er virkilega ánægður með að að vinna þennan baráttuleik eitt núll. Markið var frábært, við vörðumst frábærlega og við spiluðum stórgóða knattspyrnu á köflum.

Fróðleikur

- Þetta var 1300. sigur Liverpool á Anfield Road í efstu deild.

- Þetta var sjötti deildarsigur Liverpool í röð.  

- Mohamed Salah skoraði sitt 30. mark á leiktíðinni. 

- Þetta var 100. mark hans á Anfield. 

- Alisson Becker hélt hreinu í 100. sinn á ferli sínum með Liverpool. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan