Darwin tryggði sigur í blálokin!
Nú þegar Liverpool mætir Newcastle á St James´ Park má rifja upp leik liðanna þar á síðustu leiktíð. Liverpool vann þá 1:2 sigur á síðustu stundu.
Heimamenn byrjuðu mjög vel og komust yfir á 25. mínútu þegar Anthony Gordon komst einn í gegn og skoraði framhjá Alisson Becker. Mohamed Salah gaf aftur á Trent Alexander-Arnold sem missti boltann framhjá sér. Anthony nýtti sér það til fullnustu. Ekki lagaðist ástandið þremur mínútum seinna þegar Virgil van Dijk var rekinn af velli fyrir að fella leikmann Newcastle rétt utan við vítateiginn. Þeir sem tilheyrðu Liverpool mótmæltu harðlega því þeir töldu að Virgil hefði snert boltann áður en hann kom við leikmanninn. En allt kom fyrir ekki og dómurinn stóð.
Liverpool átti í miklum erfiðleikum og Alisson bjargaði því að liðið lenti tveimur mörkum undir. Newcastle fékk horn frá hægri. Trent skallaði frá en leikmaður Newcastle fékk boltann innan teigs og hamraði að marki. Alisson náði á ótrúlegan hátt að verja boltann með vinstri hendi upp í þverslána. Hann gerði svo gott betur með því að slá boltann í horn þar sem hann lá á vellinum. Stórfengleg markvarsla! Heimamenn með forystu í hálfleik.
Newcastle hélt áfram að sækja eftir hlé og Miguel Almirón var nærri því að bæta við. Hann lék þá fram völlinn, inn í vítateiginn þaðan sem hann skaut en boltinn hafnaði í stönginni. Þar slapp Liverpool vel.
Liverpool náði smá saman áttum. Á 77. mínútu komu Darwin Núnez og ungliðinn Jarell Quansah inn sem varamenn. Jarell lék þar með sinn fyrsta leik með aðalliði Liverpool. Fjórum mínútum seinna jafnaði hinn varamaðurinn. Boltinn var sendur fram hægra megin á Darwin. Varnarmaður virtist myndu taka boltann auðveldlega en missti hann frá sér. Darwin greip gæsina, æddi inn í vítateiginn og skoraði með föstu skoti neðst í fjærhornið.
Þegar þrjár mínútur voru komnir yfir venjulegan leiktíma vann Liverpool boltann við miðjuna. Mohamed fékk boltann og stakk honum fram hægra megin á Darwin. Úrúgvæjinn rauk inn í vítateiginn og skoraði svo til eins mark og þegar hann jafnaði leikinn. Allt gekk af göflunum innan vallar sem utan. Liverpool hafði náð að vinna leik þegar öll sund virtust lokuð! Ævintýralegur endir!
Áhorfendur á St James' Park: 52.214.
Maður leiksins: Darwin Núnez. Það voru bara 13 mínútur eftir þegar Darwin kom til leiks en tvö mörk hans tryggðu Liverpool sigur! Hann hefur stundum verið talinn geta notað færin sín betur en nýting hans var fullkominn í þetta skiptið!
Jürgen Klopp: ,,Ég hef í þeim rúmlega þúsund leikjum á ferli mínum sem framkvæmdastjóri aldrei lent í öðru eins. Ekki í svona stemmningu og hvað þá með tíu menn á móti svona sterkum mótherjum. Svona stundir eru fágætar og sérstaklega skemmtilegar. Þetta var auðvitað tryllt en mér fannst við verðskulda sigurinn."
Fróðleikur
- Darwin Núnez skoraði fyrstu mörk sín á keppnistímabilinu.
- Jarell Quansah lék sinn fyrsta leik fyrir aðallið Liverpool.
-
| Sf. Gutt
Tilboðum hafnað -
| Sf. Gutt
Meiðslafréttir -
| Sf. Gutt
Áramótakveðjur! -
| Sf. Gutt
Verðum að skrifa okkar eigin sögu! -
| Sf. Gutt
Í minningu -
| Sf. Gutt
Jólahugleiðing Arne Slot -
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Virgil van Dijk -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku!