Aftur endurkomusigur á útivelli!
Eftir hroðalegan fyrri hálfleik snertist allt til betri vegar. Liverpool vann endurkomusigur annan útileikinn í röð með því að leggja Wolves að velli 1:3 eftir að hafa verið undir í hálfleik.
Helstu fréttir af liðsvali voru þær að ungliðinn Jarrell Quansah var valinn í byrjunarliðið í fyrsta sinn á ferlinum. Hann hafði áður komið tvisvar inn sem varamaður á leiktíðinni. Suður Ameríkumennirnir komu seint heim til Liverpool eftir landsleikina og Alexis Mac Allister fékk einn þeirra sæti í byrjunarliðinu en Luis Díaz og Darwin Núnez voru á bekknum.
Heimamenn byrjuðu af gríðarlegum krafti. Alexis var þreytulegur og fékk strax gult spjald. Á 7. mínútu skoraði svo Wolves. Pedro Neto rauk fram vinstri kantinn og gaf yfir á fjærstöng á Hwang Hee-Chan sem skoraði úr þröngu færi.
Leikmenn Liverpool voru algjörlega úti á túni og Úlfarnir gengu á lagið allan hálfleikinn. Alexis var veikur hlekkur á miðjunni og það var sótt að honum úr öllum áttum. Eins voru hraðar sóknir Wolves fram vinstri kantinn stórhættulegar. Eftir eina slíka og fyrirgjöf Pedro fékk Matheus Cunha dauðafæri en hann misreiknaði boltann og náði ekki að st+yra honum í autt markið. Vörn Liverpool var óörugg og það merkilega var að ungliðinn Jarrell Quansah var besti varnarmaðurinn í fyrri hálfleik!
Liverpool náði harðri sókn undir lok hálfleiksins en Úlfarnir náðu að bjarga í tvígang við markteiginn á síðustu stundu í sömu sókninni. Fyrst frá Mohamed Salah og svo Dominik Szoboszlai. Lánið var samt með Liverpool að vera aðeins einu marki undir í hálfleik.
Luiz kom inn sem varamaður fyrir Alexis í hálfleik og kom sú skipting ekki á óvart. Luiz byrjaði strax að láta finna fyrir sér og átti skalla rétt framhjá eftir tvær mínútur eftir að Andrew Robertson átti fyrirgjöf frá vinstri. Þetta gaf tóninn og á 55. mínútu komst Liverpool inn í leikinn. Eftir barning rétt utan við vítateiginn kom Diogo Jota boltanum til hægri á Mohamed. Hann sendi yfir til vinstri á Cody Gakpo sem smellti boltanum í markið af stuttu færi. Staðan orðin jöfn!
Þetta reyndist síðasta snerting Cody en honum og Diogo var skipt af velli og inn komu Darwin Núnez og Harvey Elliott. Hér eftir má segja að Liverpool hafi ráðið gangi mála og allt bit var úr Úlfunum.
Á 70. mínútu komst Darwin í upplagt færi við markteigslínuna eftir samspil við Luis en markmaður Wolves varði með úthlaupi. Liverpool herti tökinn og þau tök skiluðu sér þegar fimm mínútur voru eftir. Eftir horn Liverpool greip markvörður heimamanna boltann og sparkaði fram. Andrew Robertson náði boltanum við miðjuna og gaf út til hægri á Mohamed. Hann lék inn í vítateiginn og sá að Andrew hafði haldið hlaupi sínu áfram. Hann sendi hárnákvæma sendingu á fyrirliða dagsins sem skoraði með öruggu skoti! Trylltur fögnuður leikmanna og stuðningsmanna fylgdi. Liverpool hafði snúið leiknum sér í hag!
Þegar viðbótartíminn var nýhafinn gerði Liverpool endanlega út um leikinn. Alisson Becker hóf sóknina. Darwin braust fram og Mohamed fékk boltann í framhaldinu hægra megin. Hann sendi boltann út fyrir á Harvey sem hafði verið mjög sprækur. Hann skaut frá vítateig og boltinn fór neðst í bláhornið í stöng og inn! Harvey hljóp til stuðningsmanna Liverpool og allt gekk af göflunum!
Í þriðja sinn hafði Mohamed lagt upp mark frá sama svæðinu. Harvey hefði átt að fá markið skráð en boltinn fór í Hugo Bueno á leiðinni og því var það sett sem sjálfsmark. Hvað um það sigur Liverpool var í höfn og það var fyrir öllu!
Leikmenn Liverpool voru sofandi langt frameftir morgni og það var lán að staðan í hálfleik var ekki verri. En í síðari hálfleik gekk allt upp. Skiptingar og breytingar á leikkerfi breyttu leiknum. Sætur sigur vannst og Liverpool fór á toppinn!
Wolverhampton Wanderes: Sá, Semedo, Dawson, Kilman, Aït-Nouri (Bueno 66. mín.), J. Gomes, Lemina (Traoré 78. mín.), Hwang Hee-chan (Doherty 60. mín.), Bellegarde (Doyle 77. mín.), Neto og Cunha (F. Silva 61. mín.). Ónotaðir varamenn: Bueno, Sarabia, Gomes og Bentle.
Mark Wolverhampton Wanderes: Hwang Hee-Chan (7. mín.).
Gult spjald: Semedo.
Liverpool: Alisson, Gomez, Matip, Quansah (Konaté 83. mín.), Robertson, Szoboszlai, Mac Allister (Díaz 45. mín.), Jones, Salah (Gravenberch 90. mín.), Gakpo (Núñez 56. mín.) og Jota (Elliott 56. mín.). Ónotaðir varamenn: Kelleher, Endo, Tsimikas og Bajcetic.
Mörk Liverpool: Cody Gakpo (55. mín.), Andrew Robertson (85. mín.) og Hugo Bueno, sm, (90. mín.).
Gul spjöld: Harvey Elliott og Curtis Jones.
Áhorfendur á Molinuex: 31.257.
Maður leiksins: Mohamed Salah. Egyptinn skoraði ekki en hann lagði upp öll þrjú mörkin. Svo er sagt að hann sé alltof eigingjarn!
- Cody Gakpo og Andrew Robertson skoruðu í fyrsta sinn á leiktíðinni.
- Í öðrum útileiknum í röð sneri Liverpool tapstöðu í sigur.
- Ryan Gravenberch lék sinn fyrsta leik með Liverpool.
- Curtis Jones spilaði 100. leikinn fyrir hönd Liverpool. Hann hefur skorað 11 mörk og lagt upp tíu.
-
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga!